12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3406 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Mér finnst það satt að segja merkilegt, ef þetta frv. á að fara alveg umræðulaust héðan út úr hv. d. við 1. umr., því hér er í raun og veru ekki um neitt smámál að ræða. Efnislega er ég alveg samþykkur þessu frv., að nauðsynlegt sé að auka það fjármagn, sem iðnaðurinn fær til ráðstöfunar, einkanlega þegar haft er í huga, að hér er gert ráð fyrir, að meginhluti þessa fjármagns fari í endurskipulagningu og hagræðingu í iðnfyrirtækjum landsins. Á því er fyllsta nauðsyn. En það er fyrst og fremst eitt atriði, sem ég á svolítið erfitt með að skilja, og það er einfaldlega það, hversu með að skilja, og það er einfaldlega það, hvers vegna þurfi að stofna sérstakan iðnrekstrarsjóð. Iðnlánasjóður er til og er orðinn býsna öflug stofnun. Mér hefði fundizt miklu einfaldara í öllum sniðum, að stofnuð væri deild við iðnlánasjóð, sem annaðist það sérstaka hlutverk, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Hér er verið að búa til alveg nýjan sjóð, sem kemur til með að hafa að vísu talsvert fjármagn, en þó ekki svo mikið, að því er mér finnst, að það sé ástæða til að stofna alveg sérstakar skrifstofur, sérstaka stjórn, stofna til sérstaks kostnaðar, sem óhjákvæmilega fylgir því, að ný stofnun er sett upp. Ég held m. ö. o., að það sé til fyrir hæf stofnun, þar sem iðnlánasjóður er, til þess að annast það verkefni, sem iðnrekstrarsjóði er ætlað. Nú hefur að vísu smávægileg breyting verið gerð á frv. í hv. Ed. Ég vil ekki með þessum orðum á nokkurn hátt bregða fæti fyrir, að frv. verði samþ., heldur vil ég samþ. þetta eins og það er, ef þetta er ekki gert. En ég hefði viljað mælast til þess við þá hv. n., sem fær málið til meðferðar, að athuga rækilega, hvaða rök liggja fyrir því, að ekki skuli vera notuð sú stofnun, sem til er, þ.e. iðnlánasjóðurinn, til að annast þessi verkefni, fremur en fara að setja upp nýja stofnun. Mér finnst þetta vera náskylt, sem hér er um að ræða. Iðnrekstrarsjóðurinn er fyrst og fremst settur upp til þess að efla útflutningsiðnað og aðstoða fyrirtæki við hagræðingu. Þetta er hvort tveggja nauðsynlegt, en er vel hægt að gera innan þess ramma, sem iðnlánasjóður er. Ég vil meira að segja halda því fram, að þeir menn, sem eru í stjórn iðnlánasjóðs, eigi að þekkja fullt eins vel til iðnaðarins í landinu og þeir, sem kynnu að verða skipaðir í stjórn þessa nýja sjóðs. Ég vildi mælast til þess við hv. n., að þetta atriði yrði athugað mjög rækilega.

Efnislega er ég alveg sammála því og fagna því, að þetta aukna fjármagn, sem er að nokkru leyti frá þeim, sem hafa haft einhvern útflutning á iðnaðarvörum með höndum, skuli koma til þeirra þarfa, sem hér er ætlað.