12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3408 í B-deild Alþingistíðinda. (2967)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Það er eðlilegt, að enginn kveðji sér hljóðs í þessu máli, því að ég hygg, að þingheimur sé allur sammála um að standa einhuga að afgreiðslu þessa máls, sem lýtur að atvinnuleysistryggingasjóði, enda hefur þetta mál farið greiðlega gegnum Ed. og hlotið þar fulla samstöðu flokkanna. Ég vil þó segja um þetta nokkur orð. Ástæðan er sú, að ég flutti sjálfur fyrir nokkrum vikum frv. til l. um breyt. á atvinnuleysistryggingum. Í þessu frv. mínu var meginatriðið að hækka atvinnuleysisbætur, og það er einnig megininntak þess stjfrv., sem er nú lagt fyrir Nd.

Það háttar þannig, að atvinnuleysisbætur hafa ekki hækkað í hlutfalli við laun verkamanna, heldur hafa aðeins hækkað sem nemur vísitölubreytingu. Hins vegar hafa iðgjöldin til sjóðsins hækkað stöðugt í hlutfalli við verkamannalaun, þannig að sjóðurinn hefur sífellt eflzt, í sama mund og megintilgangur hans, þ.e.a.s. að hækka bætur atvinnuleysistrygginga, hefur verið vanræktur. Það var þetta, sem vakti fyrir mér, þetta misrétti í sjóðnum, þegar ég kom með það frv., sem ég lagði hér fram. Ég hlýt því að fagna þessu stjfrv.

Það má að vissu leyti deila um upphæðir atvinnuleysisbótanna, það er vissulega matsatriði, en mér sýnist, að í báðum frv., bæði í stjfrv. og því frv., sem ég lagði fram, séu mjög sambærilegar tölur lagðar til grundvallar.

En það er annað, sem vakir fyrir mér, þegar ég tek hér til máls. Það eru vissulega í því frv., sem ég lagði fram, breytingar á þessum l., sem ekki eru sjáanlegar í stjfrv. Er þar fyrst og fremst að telja breytingar á stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, en þá stjórn skipa 7 menn, og er gert ráð fyrir, að stjórnin verði óbreytt, samkvæmt stjfrv. Samkvæmt gildandi l. eru 4 kosnir af Sþ. með hlutfallskosningu, 2 tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og 1 tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands. í frv. því, sem ég hef lagt fram, er gerð sú breyting að auka hlutdeild vinnumarkaðarins í stjórn sjóðsins, þ.e.a.s. að Alþ. kjósi aðeins 2, en hins vegar kjósi Farmanna- og fiskimannasamband Íslands 1 og auk þess Vinnumálasamband samvinnufélaganna 1. Þetta eru hvort tveggja nýmæli, og hefði verið eðlilegt að taka tillit til þeirra breytinga, sem hér eru lagðar fram. Auk þess hygg ég, að það sé ástæðulaust að vanmeta þær hugmyndir, sem koma fram í mínu frv., varðandi 16. gr. l., þar sem þeim mönnum, sem ganga atvinnulausir, eru veitt aukin réttindi gagnvart sjóðnum, og skal ég ekki fara nánar út í þá sálma.

Þingheimi hlýtur að vera ljóst, að þessi endurskoðun á atvinnuleysistryggingunum hefur verið mjög brýn og það, sem kemur mér dálítið á óvart, er seinagangurinn í þessu máli. Ég missti þolinmæðina, og þess vegna kom ég sjálfur með frv. Það má lesa í grg. með frv., að félmrh. skipaði 19. febr. 1969 n. til að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar. 4 ár hefur það tekið að standa að þessum réttlætismálum og breytingum. Svo segir í grg. frv.: „Frv. það, sem hér liggur fyrir, var samið af n., sem félmrh. skipaði 19. febr. 1969.“ Mér finnst alltaf óviðkunnanlegt, þegar ekki er getið um, hvaða menn hafa unnið að málunum, því að það veitir alltaf töluverða innsýn í málin. Mér þætti því gott að fá að vita, ef það væri unnt, hverjir sömdu frv. og hvers vegna þetta réttlætismál hefur dregizt úr hömlu. Og svo er annað, sem er e.t.v. meginástæðan fyrir því, að ég kem hérna upp. Það er sú vinnuaðferð að leggja fram þetta frv. á síðustu dögum þingsins í Ed., þegar fyrir liggur annað frv. með sams konar breytingum að meginstofni til frá þm. í Nd. Hvernig verður þá vinnutilhögunin? Ed. hefur ekki á neinn hátt virt þær till., sem hafa verið lagðar fram hér í Nd. Mínar till. eru settar út á gaddinn. Síðan kemur þetta frv. hingað nokkrum dögum fyrir þingslit, og þá er sagt, að það sé ekki hægt að taka tillit til þeirra vegna tímaskorts. Ég verð nú að segja, að mér ofbjóða svona vinnubrögð, að það skuli ekki einu sinni vera hægt að standa þannig að þinglegum flutningi mála, að hægt sé að hafa hliðsjón af svipuðum till. um sama efni, sem þegar eru komnar fram í þinginu. Mig langar því að spyrja, hvernig á því standi, að þessi tilhögun hefur verið höfð um framgang málsins. Ég þarf ekki að taka það fram, að ég mun ekki á neinn hátt bregða fæti fyrir málið, heldur styðja það af öllum mætti. Ég get samt ekki varizt öðru en að láta undrun mína í ljós yfir því, hvernig að þessum málum er staðið.