12.04.1973
Neðri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3412 í B-deild Alþingistíðinda. (2975)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Frsm. meiri hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Í nál. á þskj. 650 um þetta stóra, viðamikla og alvarlega mál segir, með leyfi forseta: „N. ræddi frv. á fundi sínum í dag“ — þ.e.a.s. sama daginn og það barst n., í gærmorgun. — „Frv. var ekki sent til umsagnar neinna aðila“ — þ.e. frv. um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni. Þessar setningar segja kannske dálitla sögu, þó kannske ekki eins mikla og hægt væri að segja um afgreiðslu sumra annarra frv., sem kastað hefur verið inn á borð alþm. nú síðustu dagana, vegna þess að þetta frv. hefur fengið mjög nákvæma rannsókn. Það hefur verið unnið að því nokkuð lengi af sérlega skipaðri n. alþm., sem hafa kynnt frv. um land allt og síðan kynnt það fyrir þm. einstakra kjördæma. En ef þeir kynningarfundir hafa verið jafnlangir og ítarlegir og fundurinn með þm. Sunnl., legg ég nú ekki ýkjamikið upp úr þeim. Þetta mál er yfirgripsmeira en svo, að hægt sé að rannsaka það nákvæmlega eða koma með till. um breytingar, nema vanda vel undirbúning þess.

Í nál. segir enn fremur, að einstakir nm. áskilji sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Ég hef ekki enn átt þess kost, einfaldlega vegna tímaskorts, að útbúa neinar brtt. í málinu, enda krefjast þær, eins og ég sagði áðan, talsverðs tíma til undirbúnings, en mun flytja brtt. En þótt maður liti ekki lengra en á 1. gr. frv. langar mig að varpa fram einni örlítilli spurningu til þeirra lögspekinga, sem kunna að vera hér inni og geta gefið okkur svör. Í 1. mgr. 1. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Í fiskveiðilandhelgi Íslands, eins og hún er ákveðin í reglugerð nr. 189 14. júlí 1972, skulu erlendum skipum bannaðar allar veiðar samkv. ákvæðum l. nr. 33 19. júní 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi“ Nú þekki ég ekki þessi lög frá 1922, rúmlega hálfrar aldar gömul lög, en ég get ekki fundíð neins staðar í frv., við þann yfirlestur, sem við höfum getað lagt í þetta, neitt um það, hvernig er með þá útlendinga, sem heita Belgíumenn og Færeyingar. Ég veit ekki betur en það hafi verið gerðir samningar við þá um, að þeir mættu veiða í þessari nýju fiskveiðilandhelgi, en ég finn hvergi neitt um það mál í frv. þannig að það kynni að rekast á.

Þetta var aðeins 1. mgr. En þær eru margar og miklu fleiri. Mér sýnist, þegar litið er til frv. í heild, að það séu þrátt fyrir mikla vinnu og gagnasöfnun frá mínu sjónarmiði á því allverulegir gallar. Það er sums staðar lagt mikið kapp á friðun, en annars staðar sýnist mér ekki gengið nógu langt í friðun. Það er t.d. aðeins eitt svæði, sem sérlega er verndað fyrir öllum veiðum frá 1. apríl til 1. júní og annað svæði á hrygningartímanum, Selvogsbanki, sem flestir þekkja nú. Þetta svæði fyrir Norðausturlandinu er sennilega friðað í þessum l. með það fyrir augum að koma í veg fyrir smáfiskadráp. Nú er ekki langt síðan fréttir bárust um það, að brezkir togarar væru að landa miklu magni af smáfiski í Bretlandi, sem þeir fengu ekki á þessu svæði, heldur á Hvalbakssvæðinu, sem er gamalþekkt smáfiskasvæði við Íslandsstrendur. Mér sýnist ekkert bannað þar nema strand á Hvalbaknum. Það er smáhringur utan um hann, sem ekki má toga á.

Einnig finnst mér í ýmsum verulegum atriðum vera þjarmað að íslenzkum togurum með þessu frv. og einnig við Suðausturlandið. Þar eru stærri togbátar en 105 rúmlestir reknir af hefðbundnum miðum sínum við suður- og suðausturströndina út fyrir 8 mílur. Nú veit ég ekki, hversu vönduð kort þessi ágæta n. hafði undir höndum, en ef maður lítur á þessa breytingu, dettur manni helzt í hug, að þeir hafi látið sér nægja að nota vegakort Shell, en ekki fiskikort. Sannleikurinn er sá, að fyrir utan 6 mílurnar er ekki um ýkjamarga bletti að ræða frá Selskeri að Lundadrangi, þar sem dregin er lína í réttvísandi suður. Það var ekki mikið skoðað, hvernig á að beygja þarna fyrir hraunin og slíkt. Það eru ekki nema fáir blettir, sem eru fyrir utan þessar 6 mílur, sem hægt er að veiða á. Strax fyrir utan liðlega 4 mílur við Dyrhólaeyna er komið á kargahraun. Sömu sögu er að segja víðar, eins og Síðugrunninu. Í Skaftárdýpinu er hægt að kasta trolli langt út fyrir þessi mörk að vísu, en þar hefur aldrei verið neinn fisk að fá. Þar hefur aðallega fengizt örlítið af krabba, blálöngu og öðru þess konar, sem dugir sennilega skammt til að gera út skip af þessari stærð.

Ég skal viðurkenna, að það mundu fylgja því verulegir gallar, ef öllum skipum undir 350 rúmlestum, yrði leyft að veiða á þessu belti, því að reynsla undanfarinna ára hefur sýnt, að ásóknin á þessi mið hefur verið allt of mikil. Þess vegna er þetta sjónarmið sett fram. En

ég hefði fremur kosið, að þarna hefði verið unnt að fara einhverja millileið.

Brtt. hafa sem sagt ekki verið fluttar við þetta frv. utan ein, frá Pétri Sigurðssyni, og felur í sér að mestu sömu efnisatriði og eru í 188. máli, sem er 13. mál á dagskránni í dag, þ.e.a.s. um að leyfa að veiða með botnvörpu og dragnót á ákveðnum hluta af Faxaflóa, sem er alfriðaður, til þess að afla neyzlufisks fyrir höfuðborgina, og þetta leyfi sé bundið við ákveðna bátastærð og bátafjölda.

Sjútvn. fékk frv. 10. þm. Reykv., Péturs Sigurðssonar; til meðferðar um daginn og mælti eindregið gegn því, að frv. yrði samþ., nema Pétur Sigurðsson, sem lagði til, að það yrði samþ. óbreytt. Hið sama hlýtur einnig að gilda um þessa brtt. af n. hálfu, þar sem hér er efnislega um sama hlutinn að ræða. Þess vegna vildi ég geta þess hér.

Í sambandi við það mál mætti einnig nefna eitthvað af þeim röksemdum, sem þeir nm., sem leggja til, að þessi brtt. verði felld, báru fyrir sig, þ.e. þær umsagnir, sem þegar hafa borizt til sjútvn. um þetta efni og eru allar á eina lund, sem ég hef séð. Þar á meðal hef ég hér eina, sem ég vil leyfa mér að lesa nokkur atriði úr, með leyfi forseta. Niðurstaða ályktunar þeirrar, sem ég hef hér fyrir framan mig og er frá Útvegsmannafélagi Suðurnesja, er á þessa leið:

„Útvegsmannafélag Suðurnesja mótmælir harðlega því lagafrv., sem lagt hefur verið fram á Alþ. um, að heimilaðar verði veiðar með dragnót og botnvörpu í Faxaflóa.“

Grg., sem fylgir þessari niðurstöðu, dregur fram ýmis rök fyrir henni, þar sem segir m. a., með leyfi forseta:

„Fiskveiðar og fiskvinnsla eru það stór þáttur í afkomu þjóðar okkar, að nauðsynlegt er að hagnýta fiskimiðin öllum til heilla. En mjög áríðandi er, að fyllstu varúðar sé gætt og hættu gegn ofveiði sé bægt frá. Í því sambandi er rétt að henda á ugg sérfræðinga og fiskifræðinga eftir allítarlegar rannsóknir um síminnkandi fiskistofna í Norður-Atlantshafi vegna vaxandi sóknar á þessi mið“

Svo segir enn fremur: „Enn fremur er það athyglisvert, hve stór hluti þorskveiðarinnar er ókynþroska fiskur, og segir það sína sögu. Eigi þarf um það að deila, að Faxaflói er einhver þýðingarmesta fiskuppeldisstöð okkar. Þar eru hrygningarstöðvar flestra okkar nytjafiska. Hann liggur að aðalhrygningarstöðvum við Suður- og suðvesturströnd landsins, og er því ungviðinu næst að leita þar skjóls, því að þar eru ákjósanlegustu skilyrði frá náttúrunnar hendi, ef friður er fyrir þessum stórtæku rányrkjuveiðarfærum.“

Síðan fylgja í þessari grg. fleiri röksemdir, m.a. er sagt frá því, að Faxaflói hafi verið friðaður 1952 og hafi komið í ljós, að friðunin hafi borið verulegan árangur.

Nú vitum við, að friðun Faxaflóa hefur nú ekki staðið nema tiltölulega stuttan tíma, og það er mitt álit og mér hefur heyrzt einnig hinna nm., sem mæltu með því, að þessi till. yrði felld, að það ætti að fá að reyna á það, hvers friðunin væri megnug. Í sambandi við þetta finnst mér samt ástæða til að geta þess, að í þessum umsögnum koma víða fram setningar, sem eru á sömu lund og ég sagði áðan, að það væri óskað eftir friði fyrir þessum stórtæku rányrkjuveiðarfærum. Það er eins og þessir menn og alltof margir haldi, að það séu engin veiðarfæri, sem drepi fisk og séu skaðleg ungfiskinum, nema trolI og dragnót. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að þetta sé mjög mikill misskilningur, sem alltof margir hafa sagt hver við annan og eru svo farnir að trúa því, að þetta séu hættuleg veiðarfæri. Það eru komnar ákaflega strangar reglur um möskvastærð á trollum, og mjög víða a.m.k. held ég, að trollin séu sízt skaðlegri en önnur veiðarfæri. Á ég þá sérstaklega við netin, svo að ekki sé minnzt á það furðufyrirbæri, að enn þá eða til skamms tíma a.m.k. hefur verið leyft að veiða með mjög smáriðuðum nótum upp í fjöru, á sama tíma og bannað hefur verið að draga með trolli mjög langt frá landi.

Það væri vissulega ástæða til þess að fara mjög nákvæmlega í þetta frv. og ræða einstakar gr., en samkv. því, sem ég sagði hér í upphafi, hljóta menn að geta gert sér ljóst, að til þess hefur hreinlega ekki unnizt tími, og er það mjög leitt um svona mikilsvert mál. Ég get þó ekki gengið hér alveg fram hjá ýmsum fullyrðingum og ætla þá að leyfa mér að nefna aðeins eina, sem ég er alls ekki viss um, að fái staðizt, og þar vitna ég í kafla á bls. 10, merktan E, um Suðurland. Það vill svo til, að ég hef verið sjómaður í mörg ár og einmitt verið á togveiðum á þessu svæði, ég veit ekki í hvað mörg sumur, 10–15 sumur, og þykist vera farinn að þekkja þau allsæmilega. Segir í þessum kafla í frv., að það sé gert ráð fyrir aukinni friðun fiskistofna á svæðinu frá Selskeri að Lundadrangi. Svo segir: „enda finnst oft ungfiskur á þessu svæði í ríku mæli:“ Ég er búinn að vera þarna, eins og ég sagði áðan, að veiðum í fjöldamörg ár og leyfi mér að fullyrða, að það sé mjög lítið um, að ungfiskur fáist þarna í troll. Hins vegar sannaðist í fyrrasumar, að allmikið magn af ungfiski barst á land frá togbátum, sem stunduðu veiðar einmitt á þessu svæði. Mér er mætavel kunnugt um, að þeir bátar, sem komu með mestan afla þaðan og voru með mestan smáfiskinn, fengu hann yfirleitt allir uppi í fjöru og ekki miðað við neina 3 mílna og þaðan af síður 6 mílna landhelgi. Þetta er einmitt eitt af þeim svæðum, sem sjómönnum þykja furðulegust í þessu efni, þar sem stór hluti bátaflotans hefur legið dag eftir dag í hópum á mjög takmörkuðum bletti, þ.e.a.s. á Víkinni, sem kölluð er, undan Portlandinu, og þar fæst yfirleitt aldrei annað en góður fiskur. Ef við hefðum hér einhvern hóp af togveiðiskipstjórum, væru þeir fljótir að taka undir þetta, því að það er einkennilegt, hversu stór fiskur er einmitt á þessu svæði. Hins vegar er oft hægt að fá, segja þeir mér, smáan fisk uppi á Kötlutanganum.

Sama er að segja um Ingólfshöfðasvæðið. Þar er yfirleitt ekki smáfiskur nema mjög takmarkaðan tíma, nema þá alveg uppi undir höfðanum.

Meiri hl. nm., utan Pétur Sigurðsson, hafa samþ. að mæla með því, að þetta frv. fái afgreiðslu og verði samþ., með áskilnaði um flutning brtt., enda nauðsynlegt, að frá því verði gengið.

Þar sem formaður fiskveiðilaganefndar gerði hér mjög ítarlega grein fyrir frv. við 1. umr. og mjög skammur tími hefur verið fyrir okkur að skoða þetta mál, mun ég ekki segja meira um það, nema að gefnu tilefni.