12.04.1973
Sameinað þing: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3433 í B-deild Alþingistíðinda. (2985)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Oft er þras á þingum, var sagt í eina tíð, og það er vissulega sannmæli um Alþ. þessa dagana. Störfum á að ljúka fyrir páska samkv. ákvörðun ríkisstj., og nú keppast þm. við að afgreiða mál í n.d. og Sþ., á fundum árla morguns og fram á kvöld. Þetta ástand fyrir þinglok er ekki nýtt fyrirbrigði. Það vill fylgja okkur Íslendingum að fara rólega, en vilja síðan koma öllu í verk með hörðu áhlaupi. Og svona hefur Alþ. einnig verið. Þó mun langt síðan ástandið hefur verið eins slæmt og það er nú, því að ríkisstj. hefur flutt fjölda nýrra mála á síðustu stundu og sum þeirra stórmál, með kröfu um, að þau verði afgreidd sem lög á nokkrum dögum. Þar við bætist, að stjórnin, sem ætlaði að færa þjóðinni skipuleg vinnubrögð og áætlanagerð, getur sýnilega ekki einu sinni skipulagt sín eigin störf eða gert áætlun um, hvaða málum verði að ljúka á þinginu. Ráðh. keppa hver við annan um að troða sínum málum fram, og svo bítast þeir innbyrðis og togast á. Það var t.d. fróðlegt að sjá, þegar forsrh. þótti heilbr: og trmrh. fara inn á sitt valdsvið fyrir nokkrum dögum, og Ólafur fékk stuðning sjálfstæðismanna til að veita Magnúsi ráðningu. En hvort það stöðvar tilraun til úrbóta í læknismálum dreifbýlisins, en ekki ennþá ljóst. Allt ber þetta vott um, að ríkisstj. hefur misst vald á stjórn landsins og þar ríkir alger upplausn, sérstaklega á sviði efnahags- og fjármála. Afgreiðsla stjórnarflokkanna á frv. hér á Alþ. ber greinilega vott kæruleysis, rétt eins og ráðh. búist ekki við að þurfa að framkvæma og bera ábyrgð á þeim málum, sem þeir nú samþykkja. Forsrh. vill því ljúka þinginu sem fyrst í þeirri von, að unnt verði að bræða stjórnina betur saman og búa hana undir þá gífurlegu erfiðleika, sem fram undan eru, ef hún á að lifa meira en eitt sumar enn.

Íslenzkt efnahagslíf hefur í áratugi þjáðst af hitasótt verðbólgunnar. Stundum hefur sóttin legið niðri, en svo koma köstin með ofsahita og óráði þess á milli. Núv. ríkisstj. hefur með ógætilegri stefnu kallað yfir þjóðina eitt versta hitakast verðbólgu, sem hún hefur fengið. Ekki þarf að færa þeim orðum frekar stað, því að allir landsmenn eru neytendur og fylgjast með þeim stórstígu hækkunum, sem orðið hafa og verða nálega á degi hverjum. Íslenzkir neytendur eru ýmsu vanir og hafa löngum verið seinþreyttir til vandræða. Það er til marks um, hve óðaverðbólga er mikil, að neytendur hafa nú risið upp og mótmæla skipulega. Stefnuskrá stjórnarinnar, sem jafnvel dyggustu stuðningsmenn hennar eru hættir að lesa kvölds og morgna, setti mjög hóflegt markmið hvað snertir verðbólgu. Ríkisstj. lofaði ekki að stöðva verðbólguna, heldur aðeins að halda henni í skefjum, svo að hún yrði ekki meiri en verðbólga í markaðslöndum okkar. Ekki hefur stjórninni þó tekizt að ná þessum árangri. Á árinu 1972 urðu kauplags- og verðlagsbreytingar um tvöfalt hærri hér á landi en í flestum markaðslöndum okkar og raunar tvöfalt hærri en hækkun útfl.verðlags. Af þessu má marka, að útflutningsatvinnuvegir okkar eru komnir í hinar mestu ógöngur, og hefur ekki dugað til að bjarga þeim, þótt gengið hafi verið lækkað þrisvar og ýmsar uppbætur greiddar að auki. Svo virðist sem verðbólga muni halda áfram að aukast fram eftir þessu ári, en óvíst er um frekari hækkanir á útflutningsvörum okkar. Er því fyrirsjáanlegt, að stórfelld vandræði eru fram undan á þessu sviði.

Eitt af sjúkdómseinkennum verðbólgunnar eru mikill skortur á fé til fjárfestingar og vandræðaástand hjá fjárfestingarsjóðum. Þegar svo mikil óvissa ríkir í efnahagsmálum, hafa landsmenn tilhneigingu til að auka til muna fjárfestingu, en minnka sparifé. Þar við bætist, að núv. ríkisstj. hefur ekki gert neina tilraun til að beita skynsamlegri áætlanagerð við framkvæmdir hins opinbera eða annarra aðila og raða verkefnum eftir nauðsyn, heldur er á öllum sviðum sótt á og knúin fram fjárfesting langt umfram það, sem fjármagn og vinnuafl hrekkur til. Þessi stefna eða réttara sagt þetta stefnuleysi ýtir beinlínis undir verðbólguna og magnar hana.

Meðal þeirra mörgu frv., sem ríkisstj. hefur flutt undanfarna daga og eiga að sigla hraðbyri gegnum Alþ., eru nokkur um fjáröflun til fjárfestingarsjóða. Það er að vísu óhjákvæmilegt að afla fjár til sjóðanna og gera það á innlendum vettvangi. Engu að síður er athyglisvert, hvernig ríkisstj. ætlar að leysa þetta mál. Iðnlánasjóð vantar fé, og hann á að fá 35 millj. til viðbótar úr ríkissjóði. En hvar tekur ríkissjóður það fé? Fiskveiðasjóð vantar risaupphæðir vegna mikilla skipakaupa og endurbóta á frystihúsum. Það á að taka 1% af verðmæti útflutningsvöru og taka þannig um 150 millj. Það fé hlýtur að dragast fyrr eða síðar að verulegu leyti frá fiskverði til sjómanna og útvegsmanna. Síðan á að taka annað eins úr ríkissjóði, og hvar tekur ríkissjóður það fé? Stofnlánadeild landbúnaðarins vantar hundruð millj., sem bæði verða teknar af bændum sjálfum, úr ríkissjóði og þar að auki á að hækka verð á öllum landbúnaðarvörum um 10-15 millj. kr. til að leggja í sjóðinn. Ætla mætti, að landbrh. mundi fara gætilegar eftir viðbrögð neytenda við síðustu hækkunum landbúnaðarafurða og höggva ekki strax aftur í sama knérunn. En sama daginn og húsmæður í Reykjavík héldu mótmælafund var til umr. á Alþ. stjfrv. um enn eina hækkun þessara afurða, hækkun, sem ekki rennur beint til bændanna, heldur í lánasjóðinn. Ég hefði haldið, að nauðsynlegt væri að koma á friði og sátt milli neytenda og framleiðenda landbúnaðarafurða, ekkert er báðum aðilum nauðsynlegra. En ríkisstj. svarar kvörtunum neytenda með enn einni hækkun.

Það er sameiginlegt öllum þessum málum og raunar mörgum öðrum, að hrúgað er nýjum og nýjum böggum á ríkissjóð, en staða hans hefur ekki verið of góð í seinni tíð. Er því augljóst, að fjárl., sem hafa tvöfaldazt á tveimur árum, hljóta enn að hækka stórkostlega á næsta ári. Og hverjir skyldu greiða það fé, sem rennur í ríkissjóð? Er það ekki almenningur í landinu og þó aðallega hinir íslenzku meðalmenn, sem strita myrkra á milli og hafa miðlungs- eða sæmilegar tekjur. Þeir bera þunga byrðanna, hvað sem hver segir. Það má mikið vera, ef íslenzkir skattgreiðendur fara ekki að dæmi húsmæðra og rísa upp til að mótmæla stjórnleysi fjármálanna og sívaxandi álögum.

Enn eitt sjúkdómseinkenni á hitasótt verðbólgunnar eru sívaxandi lántökur erlendis, svo að einnig þar er nú komið í óefni. Framkvæmdaáætlun er skrá yfir ýmsa nauðsynlega fjárfestingu, sem ríkið verður að útvega fé til. Slík áætlun ætti að verða samferða fjárl. og afgreiðast við afgreiðslu þeirra fyrir jól, en er nú enn óafgreidd á Alþ. Virðist ríkisstj. hafa gefizt upp við að finna það fé, sem til þarf. Þegar hún hefur tínt til allt, sem hún getur, eru enn ófundnar um 800 millj. kr., og þá er gripið til þess að segja: Erlend lán, án þess að nokkuð sé um það vitað, hvort slík lán eru fáanleg. Þegar núv. ríkisstj. kom til valda, voru erlendar skuldir þjóðarinnar um 11,5 milljarðar kr., en um næstu áramót eru allar líkur á, að þessi upphæð verði nálægt 20 milljörðum. Þykir ýmsum þetta vera glæfraspil, þegar skuldir þjóðarinnar erlendis nema 1/2 millj, á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Ef afli minnkar eða verðlag á fiski lækkar, eins og oft hefur gerzt áður, mun þessi skuldabyrði reynast þjóðinni þungbær, að ekki sé meira sagt. Þetta virðist vera skoðun Alþjóðahankans í Washington, sem mun hafa látið vita, að bankinn treysti sér ekki til að lána Íslendingum meira fé um sinn á eðlilegan hátt, skuld þeirra miðað við íbúafjölda sé orðin svo mikil.

Viðskiptajöfnuður segir okkur, hve miklar tekjur þjóðin hefur haft í erlendum gjaldeyri og hve miklu hún hefur eytt í erlendum gjaldeyri. Á árunum 1969-1970 var viðskiptajöfnuður við útlönd hagstæður um hundruð millj., en síðan núv. stjórn tók við valdataumum, hefur hann orðið óhagstæður um nokkur þús. millj. Þetta er enn eitt hættulegt einkenni um hitasótt verðbólgunnar, því að halli á viðskipum þjóðarinnar við umheiminn má ekki vera mörg ár í röð. Gjaldeyrissjóðurinn hefur að vísu ekki minnkað, enda fær hann í gjaldeyri ölI erlendu lánin, sem tekin hafa verið, og koma þau þar í stað hallans, sem er á hinum raunverulegu viðskiptum okkar við umheiminn. Það er að vissu leyti blekking að halda gjaldeyrissjóði við á þann hátt.

Það er blessunarlega mikil atvinna í landinu, og fólk hefur miklar tekjur, en afkoma þjóðarbúsins í heild er í alvarlegri hættu vegna stjórnleysis núv. ráðamanna. Hættumerkin eru hraðvaxandi verðbólga, meiri fjárfesting en fé og mannafli standa undir, vaxandi erlendar skuldir og stöðugur halli á viðskiptajöfnuði við útlönd. Allir hugsandi Íslendingar sjá þessi hættumerki og vita, hvað þau þýða. Fram undan eru vaxandi erfiðleikar, sem geta leitt til stöðvunar atvinnugreina og atvinnuleysis á mjög skömmum tíma, ef ekki tekst að spyrna við fæti.

Hugsandi menn spyrja: Hvernig hefur það getað gerzt, að ríkisstj. hafi misst svo gersamlega stjórn efnahagsmálanna úr höndum sér og ástandið orðið svo alvarlegt, jafngott og útlitið var; þegar stjórnin kom til valda? Hvernig hefur það getað gerzt? Svarið er augljóst. Það er óeining stjórnarflokkanna, tortryggni þeirra hvers í annars garð og togstreitan þeirra á milli. Hversu fallega sem ráðh. og fylgismenn þeirra tala um gott samstarf og samheldna ríkisstj., er sannleikurinn augljós þeim, sem hafa tækifæri til að fylgjast með stjórnarstörfum viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, eins og hægt er að gera á Alþ. Meinsemd ríkisstj. er óeining, gagnkvæm tortryggni og innbyrðis valdabarátta.

Ég hef einbeitt mér að efnahagssviðinu og þeim alvarlegu erfiðleikum, sem þar blasa við, af því að það er skylda stjórnarandstöðu að gagnrýna og veita ríkisstj. aðhald. Hitt vil ég ekki draga dul á, að þrátt fyrir allt þetta hafa fjöldamörg góð framfaramál verið til meðferðar á Alþ., og hefur þá oft og tíðum verið lítið um ágreining. Við Alþfl: menn höfum fylgt þeirri stefnu, sem við lýstum yfir við myndun stjórnarinnar, að styðja þau mál hennar, sem við teljum í anda jafnaðarstefnu og til framfara horfa. Hitt vil ég benda hlustendum á, að mörgum hinna góðu framfaramála, sem við höfum sameinazt um, er stofnað í hættu, ef stjórn efnahagsmála kemst ekki á réttan kjöl. Verðbólga, hallarekstur og vandræði ríkissjóðs geta eyðilagt þessi mál eða a.m.k. frestað þeim um ófyrirsjáanlega framtíð.

Ég vil að lokum fara nokkrum orðum um mál málanna um þessar mundir, en það er landhelgin. Ein hlið þessa máls er nú til afgreiðslu á Alþ. Það er frv. um hagnýtingu landhelginnar, um nýja fiskveiðistefnu fyrir Íslendinga. Þetta frv. hefði átt að undirbúa og gera að lögum, áður en við færðum út landhelgina, til þess að við gætum sýnt umheiminum, að okkur er alvara um friðunaraðgerðir innan 50 mílnanna. Það var og er nauðsynlegt, af því að hörðum áróðri er haldið uppi gegn okkur einmitt á þessu sviði og sagt er, að okkur sé ekki treystandi til að vernda fiskstofna, því að við séum allt of gráðugir veiðimenn til þess. Það var hlutverk og skylda sjútvrh. að undirbúa þetta mál og hafa forustu um lagasetningu, um leið og landhelgin var færð út. Því hlutverki brást Lúðvík Jósepsson algerlega og gerði ekkert í þessu máli fyrr en síðar, er hann skipaði n. alþm. til að fjalla um það. Þm. hafa unnið samvizkusamlega, að vísu nokkuð seint, en hafa þó samið allgott frv. Þegar það var tilbúið, brást sjútvrh. öðru sinni, er hann fékkst ekki til að flytja frv. sem stjfrv. Lúðvík vill ekki hætta á að brenna sig á hreppapólitík, og því urðu alþm. sjálfir að flytja frv.

Alþfl. fagnar þessu frv. og telur, að ekki megi skemmra ganga í friðunarátt, bæði vegna okkar sjálfra og framtíðar íslenzks sjávarútvegs og einnig vegna baráttustöðu okkar í landhelgismálinu. Það er að vísu óforsvaranlegt, að Alþ. hafi aðeins liðlega viku til að afgreiða slíkt stórmál, en samt sem áður mun Alþfl. veita því fullt brautargengi.

Í sjálfu landhelgismálinu hafa verið allmiklar deilur um það atriði, hvort Íslendingar eigi að senda málfærslumenn til dómstólsins í Haag eða ekki. Mál þetta er bæði mikilvægt og verður því flóknara og erfiðara, sem menn kynna sér dómstólinn og alla málavöxtu betur. Við megum ekki gleyma því, að afstaða okkar til dómstólsins vefst mjög fyrir þeim mönnum erlendis, sem styðja málstað Íslendinga, og Bretar hafa notað þetta mál meira en nokkuð annað í áróðri gegn okkur. Þetta hef ég nýlega haft tækifæri til að sannreyna sjálfur. Það er mjög eðlilegt, að skoðanir séu skiptar um þetta mál, og sakar ekki, þótt ólík viðhorf komi fram í umr. um það. En Alþfl. mun ekki taka þátt í neins konar aðgerðum, sem gætu leitt til þess, að afstaðan til dómstólsins í Haag yrði til að spilla þeirri þjóðareiningu, sem verið hefur um landhelgismálið, síðan Alþ. markaði stefnuna fyrir tæplega ári. Þá einingu viljum við Alþfl. menn umfram allt varðveita, enda er hún höfuðstyrkur í þeirri erfiðu baráttu, sem háð er. Sameinaðir munum við Íslendingar vinna deiluna um 50 mílna fiskveiðilandhelgi okkar, og gangi hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna vel 1974 og 1975, gætum við öðlast enn meiri rétt, yfir landgrunninu öllu a.m.k. Við skulum vona, að svo fari.

Ég þakka þeim, sem hlýddu. Góða nótt.