12.04.1973
Sameinað þing: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3455 í B-deild Alþingistíðinda. (2991)

Almennar stjórnmálaumræður

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Talsmenn núv. stjórnarflokka sögðu fyrir síðustu kosningar, að viðreisnarstjórnin réði ekki við verðbólguna, fjárl. hækkuðu ár frá ári, stjórnkerfið væri þanið út, vinnufriður væri ótryggur, gengisfelling væri árás á launþega í landinu, allt skipulag vantaði við opinberar framkvæmdir, nauðsyn bæri til að koma á heildarstjórn á lánasjóðum og hafa hemil á allri fjárfestingu. Þeir voru of margir, sem lögðu trúnað á málflutning þessara flokka á kosningadaginn, því fór sem fór.

Núv. stjórn var mynduð að afloknum kosningum og hefur nú í sumar setið að völdum í 2 ár. Það er þess virði að gera örstutta grein fyrir, hvernig til hefur tekizt um þau atriði, sem fyrri ríkisstj. var framar öðru skömmuð fyrir af þeim, sem nú sitja í ráðherrastólum.

Verðbólgan hefur aldrei verið meiri en nú, eins og allir finna, sem vörur kaupa, og fram undan eru stórstígar hækkanir. Fjárl. hafa tvöfaldast á þessum tveimur árum. Stjórnkerfið er þanið út, og fjölgaði fastráðnum ríkisstarfsmönnum um 585 frá júlímánuði 1971 til nóvembermánaðar 1972. Vinnufriður hefur verið ótryggur. Hvert stórverkfallið af öðru hefur dunið yfir, og nægir að minna á verkfallið á kaupskipaflotanum og nýafstaðið verkfall á togaraflotanum, sem stóð í tvo mánuði. Er það eitt lengsta verkfall á síðustu árum.

Í málefnasamningi núv. ríkisstj. segir, að ríkisstj. muni ekki beita gengislækkunum til lausnar efnahagsvanda, og talsmenn stjórnarflokkanna hafa margoft endurtekið og krossað sig bak og fyrir, að slíkt gerræði mundi aldrei henda þessa stjórn. Gengi krónunnar breytti stjórnin þó í des. s.l., en á þessum skamma valdaferli hennar hafa orðið þrjár gengisfellingar, þar af ein alíslenzk, eins og hæstv. viðskiptarh. komst svo heppilega að orði.

Komið var á fót Framkvæmdastofnun ríkisins, sem á að hafa á hendi heildarstjórn fjárfestingarmála og frumkvæði í atvinnumálum og gera áætlanir til langs tíma um þróun þjóðarbúsins og framkvæmdaáætlanir. Framkvæmdaráð þessarar stofnunar var sett undir stjórn þriggja pólitískra kommisara, og var fyrirmynd þess sótt í tæplega 40 ára gamalt haftakerfi gömlu Framsóknar. Með lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins er henni gert að taka við starfsemi þriggja stofnana: Efnahagsstofnunarinnar, framkvæmdasjóðs og atvinnujöfnunarsjóðs. Talsmenn ríkisstj. töldu, að mikið hagræði væri að því að færa þessar stofnanir saman undir eina og sömu stjórn, jafnframt því að það mundi vera um sparnað í rekstri að ræða. Nú hefur þessi stofnun starfað í eitt ár, og það hefur sýnt sig, að kostnaðurinn við þessa starfsemi hefur vaxið á þessu eina ári um tæplega 60%. En þá spyrja menn: Hafa þá ekki verkefnin verið tekin öðrum tökum, hefur ekki orðið stórsparnaður að því, að þessi stofnun sjái um heildarfjárfestingu og allt skipulag? Ég hygg, að það geti enginn haldið því fram, þrátt fyrir alla þessa skipulagstillburði. Það væri fróðlegt að fá álit ræðumanna stj.flokkanna á því, hvort þeir telji, að heildarstjórn efnahagsmálanna sé með betri hætti en áður var, og þá jafnframt, á hvern hátt sú stjórn er betri, ef þeir telja svo.

Það er undarleg árátta kommúnista að reyna að blása á glóðir óánægju í mesta hagsmunamáli þjóðarinnar, landhelgismálinu, eins og Svava Jakobsdóttir gerði hér áðan með því að sletta því fram, að Geir Hallgrímsson væri að ganga erinda Breta í landhelgismálinu. Það er smekklega gert af þessum þm. að bera íslenzkum alþm. það á brýn, að hann gangi erinda þjóðar, sem svo freklega gengur á okkar rétt í þessu stórmáli.

Karvel Pálmason, sem talaði hér áðan fyrir Samtök frjálslyndra, sem flestir eru nú farnir að nefna „Mistökin“, og Bjarni Guðnason hefur lýst skemmtilega, sagði, að Alþfl. hefði ekki fengizt til að flytja vantrauststill. En hann gat þess ekki, að allir þm. Alþfl. greiddu atkv. með till., en það var kjarni málsins, Sami þm. minntist á vísitölufrv., sem ríkisstj. lagði fram, og meðal flm. þess voru Hannibal Valdimarsson og Magnús T. Ólafsson. Hann talaði einnig um skoðanaskipti í sambandi við þetta mál og reyndi að bera stjórnarandstöðunni á brýn skoðanaskipti í málinu. Hvaða skoðanaskiptum hefur stjórnarandstaðan tekið í þessu máli. Þessu máli var vísað til fjh.- og viðskn., sem þessi hv. þm. á sæti í. Þar hefur málið ekki verið tekið fyrir enn þá. Ef um einhver skoðanaskipti er að ræða í þessu máli, þá hlýtur þm. fyrst og fremst að hafa átt við Hannibal Valdimarsson, sem hefur verið andstæðingur alls fitls við vísitöluna þangað til nú. Ég held, að gamli maðurinn geti sagt: „Nú, og þú líka, barnið mitt Brútus.“

Karvel Pálmason lýsti mikilli ánægju með húsnæðisfrv., sem verið hefur hér fyrir Alþ., en hann gat þess ekki, að miðað við þarfir og gildandi lög í þessu máli vantar 700 millj. kr. Ég ætla að segja honum og öðrum það, að fólk byggir ekki íbúðarhús með lögum einum saman, það þarf að afla fjár til þeirra.

Frá sjónarmiði okkar sjálfstæðismanna fer það ekki á milli mála, að það ríkir algert stjórnleysi í efnahagsmálum. Það er sama, hvar borið er niður, stjórnleysið og eyðslan tröllríður öllu kerfinu. Skuldir þjóðarinnar við útlönd í formi fastra lána voru um 17000 millj. kr. um síðustu áramót, og mun láta nærri að hlutfalI þeirrar skuldar af heildartekjum af útfluttum vörum og þjónustu sé um 65%. Hlutfall árlegra greiðslna, afborgana og vaxta er nú um 12%. Skuldaaukningin við útlönd síðustu 2 ár er um 6500 millj. kr. Á þessu ári er stefnt í sömu átt. Fyrirhugaðar eru stórfelldar lántökur erlendis með líku sniði og verið hafa síðustu 2 árin. Ef við litum á fjárfestingarlánasjóðina, þá er staða þeirra þannig, að 60% af því fé, sem þeir höfðu til ráðstöfunar á s.l. ári, var aflað með lántökum, þar af voru 16% erlend lán, 23% voru óafturkallanleg framlög til sjóðanna, en eigið fé þeirra var aðeins 17%.

Hæstv. utanríkísráðherra, Einar Ágústsson, beindi máli sínu til áheyrenda og spurði, hvort allir hefðu ekki nóg að vinna og nóg að borða. En hann spurði ekki um það, hvort þjóðin hefði ekki áhyggjur af skefjalausri skuldasöfnun við útlönd. Einar sagði enn fremur, að við værum að eignast raforkuver, vegi, íbúðarhús og betri hús og uppbyggingu í sveitum landsins. Heldur blessaður ráðh., að ekkert af þessu hafi gerzt, fyrr en hann og hans félagar settust í ráðh.stóla á Ísl.?

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, lagði hún mikið kapp á að stuðla að auknum lánum til framkvæmda, jafnfrmt því að hún gaf fyrirheit um, að vextir af stofnlánum yrðu lækkaðir. Hún lét ekki sitja við orðin tóm í þessum efnum. Sjútvrh. ákvað að lækka vexti af almennum lánum fiskveiðasjóðs úr 61/2% í 51/2%, jafnframt því sem hann ákvað, að lánstíminn yrði lengdur úr 15 árum upp í 20 ár. Þeir, sem áttu að njóta þessara góðu kjara, fögnuðu því mjög innilega. En ríkisstj. gleymdi að gera sér grein fyrir því, að eigið ráðstöfunarfé fiskveiðasjóðs er ekki nema lítill hluti af því heildarfjármagni, sem sjóðurinn þarf til þess að gegna hlutverki sínu. Af lánum, sem sjóðurinn þarf að taka erlendis, eru vextir 8-81/2% og vaxtakjör af innlendum lánum eru allt upp í 9-91/2%. Sjá því allir, að með þessari útlánastefnu rýrnaði ráðstöfunarfé sjóðsins gífurlega. Þessi ráðstöfun og jafnframt stóraukning á skipakaupum gerði það að verkum, að sjóðurinn þurfti á vaxandi fjáröflun að halda, og mun láta nærri, að hann þurfi yfir 1300 millj. kr. á þessu ári umfram eigið ráðstöfunarfé. Nú er svo komið, að ríkisstj. þvingar þennan stofnlánasjóð til að taka spariskírteinalán upp á 124 millj. kr. á þessu ári. Þetta gerir það að verkum, að sjóðurinn hefur sett þau ákvæði, að lán, sem hann veitir og eru yfir 500 þús. kr., til skipabygginga eða fiskvinnslustöðva eru háð því skilyrði, að 10% af lánsupphæðinni eru lánuð með sömu skilmálum og spariskírteinalán, en þau eru til 12 ára með 61/4% ársvöxtum og 1% lántökugjaldi. Endurgreiðsla þeirra er háð byggingarvísitölunni, sem var í upphafi valdaferils þessarar ríkisstj. 535 stig, en var komin 1. marz s.l. í 708 stig, og talið er, að byggingarvísitalan verði komin 1. júlí n.k. í um 800 stig. Þeir, sem láta byggja skip innanlands, eru skyldaðir til að taka 76% af kaupverði tækja, sem keypt eru erlendis frá, að láni í erlendum gjaldeyri. Þeir, sem byggja skip erlendis, þurfa að taka erlend lán til 8 ára með 7-71/2% ársvöxtum. Vaxtalækkun og bætt lánskjör, sem núv. sjútvrh. beitti sér fyrir, eru því horfin með öllu, en eftir standa miklu lakari lánskjör en voru, áður en þessi ríkisstj. tók við.

Fyrrv. ríkisstj. ákvað fyrir nokkrum árum að lána 10% lán vegna skipasmiða innanlands umfram 75% lán fiskveiðasjóðs og 5% sjálfvirkt lán byggðasjóðs, þannig að stofnlán urðu 90% af byggingarverðmæti skipa. Rétt fyrir síðustu kosningar ákvað ríkisstj. að lækka lán þessi um 5%, vegna þess að skipabyggingar stóðu það vel og ekki þurfti í bili að örva þær. Þegar núv. stjórn tók við, hækkaði hún þessi lán strax aftur í samtals 90%, en nú fyrir áramótin ákvað ríkisstj. að fella þessi 10% lán alveg niður, og sjálfvirk lán byggðasjóðs voru einnig felld niður nema til skipa á tilteknum svæðum á landinu, og hafa því almenn lán til skipabygginga lækkað úr 90% í 75%. Ætli það hefði ekki verið betra fyrir ríkisstj. að fara örlítið rólegar í þessu eins og svo mörgu öðru í byrjun valdatímabilsins?

Þegar frv. ríkisstj. um tekju- og eignarskatt var lagt fram á Alþ., leyfðu sumir ráðh. sér að halda því fram, að hér væri um stórfellda skattalækkun að ræða hjá almenningi, en hins vegar væri því ekki að leyna, að breiðu bökin yrðu að axla þyngri skattabyrði en áður. Við sjálfstæðismenn bentum þessum herrum á, að hér væri um stórhækkun skatta að ræða hjá öllum almenningi, og vöruðum ríkisstj. við að fella niður þann sérstaka frádrátt, sem fyrri ríkisstj. lét lögleiða vegna aldraðs fólks. Enn fremur mótmæltum við því að skerða hlunnindi fiskimanna með álagningu skatts og útsvars, eins og ríkisstj. lagði til að gera. Sama var að segja um hlunnindi sjómanna á kaupskipaflotanum, en þau voru stórlega skert með þessum lögum. Niðurfelling vaxtafrádráttar frá tekjum við álagningu útsvars var hnefahögg framan í efnalitið fólk, sem er að koma sér upp eigin húsnæði. Þessum mótmælum var ekki sinnt. En þegar skattaálagningu var lokið, kom í ljós að álagður tekju og eignarskattur nam 4449 millj. kr., en á árinu 1971, síðasta ári viðreisnarstjórnar, voru þessir skattar 1525 millj. kr. , þeir næstum því þrefölduðust á fyrsta stjórnarári þessarar ríkisstj. AImenn reiðialda reis hjá öllum landsmönnum og ríkisstj. sá sig tilneydda að rétta að litlu leyti það ranglæti, sem aldraðir voru beittir með þessum lögum. Sjálfstfl. telur, að skattlagningu til ríkis og sveitarfélaga eigi að haga á þann veg, að hún örvi einstaklinginn til framtaks og sparnaðar og búið sé að atvinnurekstrinum þannig, að áhugi almennings fari vaxandi fyrir því að vera beinn aðili að atvinnufyrirtækjunum. Til þess að gera þennan ásetning að veruleika, ber fyrst og fremst að skattleggja eyðsluna og gæta hófs í skattlagningu sparnaðar. Í samræmi við þetta þarf að halda áfram þeirri viðleitni að draga úr beinum sköttum og stefna þar að ákveðnu marki á tilteknu árabili.

Við afgreiðslu síðustu fjárl. var haldið utan fjárl. útgjaldaliðum, sem námu tæpum 500 millj. kr., til þess að koma í veg fyrir, að fjárl. væru afgreidd með greiðsluhalla. Til þess að mæta þessum halla gáfu stuðningsflokkar ríkisstj. henni heimild til að lækka rekstrarútgjöld og framlög til verklegra framkvæmda á fjárl. um 15% að meðaltali, en ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún muni nota sér þessa heimild. Þetta er eitthvað annað en sá fagurgali, sem Helgi F. Seljan var að lýsa hér áðan af barnslegri einfeldni sinni. Þrátt fyrir þá erfiðu stöðu, sem nú er á ríkisfjármálum, rignir yfir Alþ. frv. ríkisstj. síðustu daga þingsins eins og skæðadrífu, og er þingmönnum stjórnarliðsins skipað að afgreiða þau, þótt mörg þessara frv. kosti milljónatugi á þessu ári og hafi þau áhrif á fjárl. næsta árs, að útgjöld munu aukast um mörg hundruð millj. kr., án þess að eitt orð fylgi, á hvern hátt ríkisstj. ætlar að afla tekna á þessu ári til þess að standa undir þessum ósköpum, hvað þá heldur að hugsa fyrir fjáröflun á næsta ári, en í þess stað er lagt kapp á að losna við Alþ. fyrir páska.

Mér þykir rétt að geta hér þriggja mála, sem lögð hafa verið fram síðustu daga af ríkisstj., en það er frv. um breyt. á lögum um fiskveiðasjóð, sem gerir ráð fyrir, að lagt verði á útveginn 1% útflutningsgjald á fob-verð útfluttra sjávarfurða, en talið er, að þessi skattur muni nema 160 millj. kr. á ársgrundvelli, og jafngildir þetta 2% lækkun fiskverðs. Jafnframt er ákveðið, að ríkissjóður greiði til fiskveiðasjóðs jafnháa upphæð árlega, þannig að skattur á sjávarútveginn og almenning í þessu eina frv. kemur til með að nema 320 millj. kr. Það vekur athygli, að hæstv. sjútvrh. hefur ekki látið svo lítið að ræða þessi mál við samtök útvegsins eða samtök sjómanna, áður en hann leggur frv. fram hér á Alþ.

Þá hefur verið lagt fram frv. um stofnlánadeild landbúnaðarins og byggingar í sveitum, og gerir það ráð fyrir auknum tekjum, sem sannarlega veitir ekki af, þegar tillit er tekið til óska til lána úr sjóðnum. Með þessu frv. er lagt til, að gjöld á söluverð landbúnaðarvara hækki úr 0,75% í 1% og það gjald eigi að gilda til ársins 1980. Þessi skattur á að gefa á ársgrundvelli 94 millj. kr. Þessa skattlagningu kölluðu framsóknarmenn á sínum tíma bændaskattinn og virtust þá lítt hrifnir af. Framlög úr ríkissjóði eiga að vera jafnhá eða 94 millj. kr., en auk þess er fastaframlag ríkissjóðs til stofnlánadeildarinnar hækkað um 21 millj. kr., þannig að ný framlög ríkissjóðs samkv. frv. nema 115 millj. kr. á ári.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að leggja Landnám ríkisins niður frá næstu áramótum, án þess að jafnframt sé ákveðið, hvernig starfsemi og verkefnum þess verði komið fyrir. Landnámið hefur mörg og mikilvæg verkefni til meðferðar og hefur unnið mikið starf á undanförnum árum. Meðal verkefna þess er svonefnd Inndjúpsáætlun, og ég vil spyrja: Hvaða stofnun á að taka við af Landnáminu?

Þá hefur verið lagt fram frv. um breyt. á lögum um iðnlánasjóð, þar sem gjöld, sem iðnaðurinn greiðir til sjóðsins, er hækkuð úr 0,4% í 0,5% og framlag ríkissjóðs hækkað úr 15 millj. kr. í 50 millj. kr., og á þetta framlag að gilda í fyrsta sinn fyrir þetta ár.

Þessi frv. og mörg önnur eru góðra gjalda verð, en það þarf einnig að hugsa fyrir leið til að afla tekna á móti til þess að standa undir þessum útgjöldum öllum, en um það liggur ekkert fyrir, eins og áður hefur verið sagt.

Meðal frv. og þáltill., sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram á þessu þingi, vil ég sérstaklega nefna eitt mál, en það er þáltill. um skipulag byggðamála og auknar ráðstafanir til hagkvæmrar byggðaþróunar, sem flutt er af 9 þm. Sjálfstfl. undir forustu Lárusar Jónssonar, en í þeirri till. er mörkuð stefna um auknar ráðstafanir til þess að vinna gegn óeðlilegri röskun byggðar í landinu.

Tíma mínum er nú lokið. Það liggur Ijóst fyrir, að efnahagsstefna þessarar ríkisstj. hefur beðið algert skipbrot. Samstaða innan stjórnarinnar um lausn vandamála fyrirfinnst ekki. Hversu lengi ríkisstj. lafir, ætla ég ekki að spá, en eftir því sem hún lafir lengur, verður meira og erfiðara verk að byggja upp úr þeim fjármálarústum, sem hún kemur til með að skilja eftir sig. Við skulum þó gera okkur grein fyrir því, að ríkisstj. á eitt mál sameiginlegt, en það er hræðslan við kjósendur. Hversu lengi það heldur henni á floti, skal ósagt látið. — Góða nótt.