12.04.1973
Sameinað þing: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3460 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

Almennar stjórnmálaumræður

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 6. landsk, þm., Helgi F. Seljan, var áðan að þakka núv. sjútvrh. uppbyggingu togaraflotans. Auðvitað veit þessi þm. eins vel og öll þjóðin, að samningar voru gerðir í tíð fyrrv. stjórnar um byggingu 12 skuttogara og grundvöllur hafði verið skapaður fyrir rekstur togaranna. Þetta vil ég minna þm. á.

Þegar lítið er yfir aðgerðir og árangur ríkisstj. í þau tæp tvö ár, sem hún hefur verið við völd, blasir þessi mynd við íslenzkri þjóð: Verðbólga hefur aldrei verið geigvænlegri en nú og er hvergi meiri í nálægum löndum, allt verðlag hækkar frá degi til dags, fjárl. hafa tvöfaldast á tveimur árum og vel það, bankar og lánastofnanir eru þurrausin og miklu meira en það, erlendar lántökur hafa margfaldast svo alvarlega, að hætta er á, að lánstraust þjóðarinnar þverri, famkvæmdaáætlanir eru gerðar, án þess að séð sé fyrir tekjum til framkvæmdanna, alls konar skattar og skattlagning eru að sliga fólkið í landinu, langt umfram það, sem nokkurn tíma hefur þekkst áður. Sjálfsagt segir einhver: Ekki er nú lýsingin fögur, og hún er það ekki heldur. En ég held, að hver einasti maður finni, að hér er ekkert ofsagt. Þetta er það, sem hefur skeð í íslenzkum efnahagsmálum á tæpum tveimur árum.

En það má líka minna á aðra hlið þessa máls. Skömmu eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum, var gefin út bók, sem formlega hét Málefnasamningur ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Hún hefur í daglegu tali verið kölluð Ólafskver. Hvert einasta atriði, sem ég hef nefnt hér á undan, er einmitt líka nefnt í Ólafskveri, en það er bara alltaf sagt, að ríkisstj. ætli sér að vinna að lausn þessara mála. Hún hefur þvert á móti gert þessi vandamál svo erfið, að þau verða allt að því óviðráðanleg fyrir þá, sem næst taka við völdum í landinu. Okkur þm. var snemma ráðlagt af forsrh. að lesa þetta kver bæði kvölds og morgna og um miðjan dag. Ég skal játa, að þetta hefur farizt fyrir hjá mér upp á síðkastið. En nú vil ég ráðleggja áheyrendum mínum að lesa þetta kver að nýju og reyna að finna einhver atriði, sem staðið hefur verið við í samræmi við þennan boðskap, sem var gefinn út í byrjun stjórnartíðar núv. ríkisstjórnar. Þetta er sú ríkisstj., sem hefur viljað kalla sig vinstri stjórn eða stjórn hinna vinnandi stétta. Ég efast um, að snillingar í tilbúningi öfugmæla á fyrri öldum hafi getað fundið út jafn tvímælalaus öfugmæli og hér hafa komið á daginn. Við allt þetta bætist svo, að ríkisstj. er ósammála innbyrðis í veigamiklum málaflokkum, svo að ekki sé talað um þingmannaliðið, sem stendur að baki henni. Það finnst varla mál, þar sem svonefndir stuðningsmenn ríkisstj. eru að öllu leyti sammála. Mér finnst það hljóti að vera krafa þjóðarinnar, að það sé samstilltur meiri hl. þm., sem standi að baki þeirri ríkisstj., sem er við völd hverju sinni.

En nú ætla ég að láta útrætt um ólán og ólánsathafnir ríkisstj., ég mun hins vegar segja hv. hlustendum frá nokkrum þeirra þingmála, sem við þm. Alþfl. höfum flutt á yfirstandandi vetri.

Þegar sleppt er dægurmálum, þá finnst mér, að þm. eins og aðrir landsmenn séu skyldugir til þess að hugsa til framtíðarinnar. Það er áreiðanlega ekki erfiðast að stjórna þjóðfélaginu frá degi til dags með skuldasöfnun og tilheyrandi, en allir hugsandi menn hljóta að sjá og viðurkenna, að það sé eðlilegt og rétt, að vinnubrögð á Alþ. séu umfram annað miðuð við það þjóðfélag, sem verður á Íslandi eftir 20–30 ár. Það er því að mínu mati skylda þm. að gera sér grein fyrir því, hvaða ráðstafanir þarf að gera í tilteknum málum, til þess að sú kynslóð, sem næst tekur við, taki ekki bara við skuldaböggum og niðurbrotnu efnahagskerfi, heldur sé fyrir því hugsað, að fólki á Íslandi næstu áratugi geti liðið eins vel og helzt betur en okkur hefur liðið á undanförnum áratugum.

Við þm. Alþfl. að frumkvæði Braga Sigurjónssonar á Akureyri höfum enn á ný flutt till. um það, að ríkisstj. láti sérfróða menn semja frv. um eignarráð og eignarréttindi yfir byggðu landi sem óbyggðu, stöðuvötnum í byggð og óbyggðum, fallvötnum, jarðhita og hvers konar vinnslu verðmæta úr jörðu. Við litum svo á, að allt þetta hljóti í framtíðinni að verða sameign allrar þjóðarinnar.

Meginefni og tilgangur þessarar till. er að fá það sett í lög að undangenginni vandlegri athugun að koma í veg fyrir, að einstakir peningamenn eða braskarar geti komizt yfir svo og svo stór landssvæði, hvort sem er í byggð eða óbyggð. Við teljum, að óbyggt land eigi í reynd að vera eign allrar þjóðarinnar. Við teljum óeðlilegt og óréttlátt, að peningamenn geti eignazt fallvötn og aðgang að fallvötnum, sem eru mikils virði. Við erum enn fremur á móti því, að þótt svo hafi viljað til, að tiltekin fallvötn renni fram hjá eða í gegnum landareignir einstaklings, þá sé það sjálfgefið, að hann geti rakað saman millj. kr. t.d. vegna virkjana í almenningsþágu. Út yfir tekur þó, þegar braskarar láta jarðirnar fara í eyði, en hirða gróðann. Þá viljum við einnig að jarðvarmi, sem dylst langt niðri í jarðskorpunni, þannig að ekki gæti orðið um vinnslu þeirrar orku að ræða nema fyrir atbeina hins opinbera, sé alþjóðareign. Hitt vil ég taka fram gagnvart bændum, að gert er ráð fyrir því í okkar till., að þeir eigi sínar jarðir þangað til þeir vilja selja þær til annars en búskapar, en að öðrum kosti hafi ríkisforkaupsrétt, en ekki einhverjir braskarar. Ísland er stórt land og hér býr fátt fólk. Við Alþfl. menn teljum, að það sé stórhættulegt ef einstaklingar komast yfir stór landssvæði eða stór verðmæti í sambandi við eignaraðild að landinu sjálfu, svo að ekki sé talað um, ef útlendingar skyldu vera á bak við einhverja þessara manna. Má þá enn fremur benda á, að þessi mál verða erfiðari og erfiðari viðfangs, eftir því sem tímar liða. Þetta er eitt af þeim málum, sem verður að leysa á næstu áratugum, því að þjóðin hlýtur að viðurkenna, að í þessum efnum á að ríkja jafnrétti þegnanna, en ekki braskarasjónarmið.

Íslenzkt land er eign allra Íslendinga. Ég vil ekki ganga á eignarrétt einstaklinganna, en ég vil segja hitt ákveðið, að þegar farið er að misnota þennan eignarrétt, þá á ríkisvaldið að taka í taumana og fyrirbyggja slíka misnotkun. Og hér er fyrsta dæmið um það, sem ég skil ekki, að svokölluð vinstri stjórn skuli ekki geta fallizt á, að þetta mál sé athugað af sérfróðum mönnum, eins og við höfum lagt til. Athugun ætti ekki að þurfa að kosta mikið, það yrði hvort eð er ákvörðun Alþ. á sínum tíma, hvort rétt sé að taka alvarlega á þessum málum. En svokölluð vinstri stjórn treystir sér ekki einu sinni til að láta athuga málið. Við hvað er ríkisstj. hrædd?

Mig langar í annan stað að minnast á till., sem við þm. Alþfl. höfum flutt um atvinnulýðræði. Það er nú að verða almennara í nálægum löndum, að verkamenn í fyrirtækjum fái tiltekna aðild að stjórn fyrirtækja. Í Danmörku hefur þessi þróun orðið sérstaklega athyglisverð, þar hafa komið fram till. um, að verkafólk fyrirtækja fái tiltekinn eignarrétt í atvinnufyrirtækjunum eftir ákveðnum reglum, sem í reynd þýðir sparnað verkafólksins. Ef íslenzka þjóðin þarf einhvers við nú á dögum, þá er það svo sannarlega sparnaður hjá almenningi. Við Alþfl.menn teljum, að hér sé um meiri háttar mál að ræða fyrir uppbyggingu og stjórn atvinnufyrirtækja á næstu áratugum. Till. gerir ráð fyrir að fela ríkisstj. að skipa n. til að semja frv. til laga um atvinnulýðræði, þar sem launþegum yrðu tryggð áhrif á stjórn fyrirtækja og hlutdeild í arði af rekstri þeirra. Það er næsta ótrúlegt, að þm. stjórnarflokkanna og Sjálfstfl. skuli ekki þora að láta samþ. þessa till., heldur vísa henni til ríkisstj., sem þýðir auðvitað í raun, að ekkert verður gert. Af hverju má ekki athuga þetta mál? Hvaða skaða mundi það valda? Hvar er nú áhugi Alþb.-manna og SF á velferð vinnandi fólks.

Þá vil ég minnast á eitt mál, sem hefur verið mikið áhugamál Alþb. síðustu 10–12 árin, en það er þjóðnýting olíuverzlunar á Íslandi. Alþfl. hefur í marga áratugi verið þess sinnis, að innflutning og sölu á olíuvörum í landinu eigi að þjóðnýta, m.a. vegna þess, að mest af þeim olíuvörum, sem til landsins koma, eru í reynd flutt inn af ríkinu. Þegar Alþfl. var í stjórn, fékk hann þessu ekki ráðið, en nú er komin vinstri stjórn í landinu, og í sjálfu Ólafskveri segir, að taka skuli skipulag olíusölunnar til endurskoðunar. Við þm. Alþfl. höfum flutt till. um, að kjósa skuli 7 manna n. til að gera till. um endurskipulagningu á innflutningi á olíuvörum og dreifingu þeirra í landinu í því skyni að tryggja fyllstu hagkvæmni í innkaupum, sölu og dreifingu olíuvara. Hér er aðeins um að ræða till. um að gera athugun á þessum málum. Hv. þm. Sjálfstfl. hafa náttúrlega haldið því fram, að hér væri um þjóðnýtingu að ræða. En þessi till. gerir alls ekki ráð fyrir neinni þjóðnýtingu, heldur aðeins athugun á þessum málum í heild. Nú skyldi maður halda, að þegar vinstri stjórn er við völd í landinu, hlyti hún að vera því sammála, að slík athugun yrði gerð, og alveg sérstaklega má minna á það, að þm. Alþb. allir með tölu hafa lagt á það þunga áherzlu síðustu 12 ár, að þjóðnýting olíuverzlunar kæmist í framkvæmd, auk þess sem segir í Ólafskveri. Talsmenn hins frjálsa framtaks segja, að dreifingarkerfið geti ekki verið betra en það er nú. Ekki skal ég um það dæma, hins vegar þykist ég hafa rétt til þess að efast um, að svo sé. Þessi till. kom til afgreiðslu í atvmn. Sþ. fyrir nokkrum dögum. Ég satt að segja hélt, að annað hvort mundi ske, að talsmenn hins frjálsa framtaks vildu samþ. till. til þess að fá það staðfest, að þeirra skoðun væri rétt, eða þá hitt, að talsmenn stjórnarflokkanna vildu ganga úr skugga um, að þeirra skoðun, sem þeir sögðu í Ólafskveri, að þeir ætluðu að framkvæma, væri rétt, —og hefði þá farið saman við okkar skoðun, — en hvorugt skeði. Í atvmn. urðu fulltrúar stjórnarflokkanna og Sjálfstfl. sammála um að vísa þessu máli til ríkisstj. Málið snýst aðeins um það, á hvern hátt íslenzk þjóð geti hagað innkaupum, sölu og dreifingu olíuvara á Íslandi, þannig að það verði sem hagkvæmast fyrir þjóðina. Allir vita, að víða á landinu er þrefalt olíudreifingarkerfi, og það vita líka allir, að sama verð er á olíu, frá hvaða olíufélagi sem keypt er. Finnst mér það sérstaklega átakanlegt og hörmulegur atburður, þegar sjálfur formaður Alþb., Ragnar Arnalds, skrifar undir nál. meiri hl. atvmn. með sjálfstæðismönnum og öllum öðrum fulltrúum úr stjórnarflokkunum um það, að ekki megi samþ. svona till., heldur skuli vísa henni til ríkisstj. SF eltu svo auðvitað í þessu máli eins og í mörgum öðrum. Ég verð að segja, að það hefur ekki legið mikið á bak við áskoranir Alþb.- manna um 12 ára skeið, er þeir heimtuðu, að olíuverzlunin yrði öll þjóðnýtt, þegar þeir neita að láta fara fram athugun á því, með hvaða hætti landsmenn geti fengið olíuvörur með sem hagkvæmustum hætti. Er aldrei hægt að taka mark á þessum mönnum, sama hvaða málefni er um að ræða?

Ég hef aðeins nefnt hér örfá af þeim málum, sem Alþfl. hefur viljað berjast fyrir sérstaklega. Auðvitað fáum við engin mál samþ., oftast vegna þess, að bæði stjórnarflokkarnir allir og Sjálfstfl. eru á móti þeim. Ríkisstj. hlýtur þó að viðurkenna, að við höfum staðið með ýmsum málum, sem hún hefur lagt fram. Við höfum samþ. þau mál ríkisstj., sem okkur hefur þótt vera til bóta fyrir íslenzkt þjóðfélag, en barizt gegn hinum, — sem því miður eru fleiri, — sem við teljum að sé óráð að framkvæma. Það veit enginn í dag, hvað langt verður til næstu kosninga, kannske hanga þeir saman til 1975. En ég þori að segja það, að ef þróunin í efnahagsmálum verður með svipuðum hætti og hún hefur verið síðustu tæp tvö ár, þá er ég a.m.k. óhræddur við að ganga til kosninga fyrir Alþfl. Flokkurinn gengur ótrauður til næstu orrustu, hvort sem hún verður fyrr eða síðar. Hann mun nú eins og alltaf áður treysta á dómgreind fólksins í landinu og láta málefnin ráða hverju sinni. Við munum halda áfram að berjast fyrir stefnu jafnaðarmanna á Íslandi.

Þökk fyrir áheyrnina. Góða nótt.