12.04.1973
Sameinað þing: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3473 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

Almennar stjórnmálaumræður

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Við stjórnarskiptin í júlí 1971 varð líklega meiri og róttækari breyting á íslenzku stjórnarfari heldur en oftast áður við slík tækifæri. Á tímum viðreisnarstjórnarinnar vakti aðgerðaleysið í landhelgismálinu furðu manna. Við stjórnarskiptin var þessu strax snúið við. Þegar var hafin kynning á málstað okkar með þeim krafti og dugnaði, að allra athygli vakti. Nauðungarsamningnum við Breta frá 1961 var sagt upp, og fiskveiðilögsagan færð út eins fljótt og unnt var. Þessum aðgerðum hefur síðan verið fylgt eftir með þeirri festu, en þó ráðdeild, að flestum mun vera orðið Ijóst, að sigur er fram undan í þessari deilu, ef okkur auðnast að standa saman.

Í þessu mikilvægasta máli íslenzku þjóðarinnar hefur hæstv. núv. ríkisstj. lagt áherzlu á sem ríkasta samstöðu. Fyrir milligöngu ríkisstj. fékkst fylgi allra alþm. 15. febr. 1972 við þál. þá, sem er grundvöllurinn að aðgerðum ríkisstj. í landhelgismálinu, m.a. þeirri ákvörðun að viðurkenna ekki lögsögu dómstólsins í Haag og senda því ekki málsvara þangað. Á slíka samstöðu hefur verið lögð áherzla í öllum málum, sem fiskveiðilögsöguna varða. Þetta tókst m.a. í frv. til l. um botnvörpuveiðar innan fiskveiðilögsögunnar nýju, sem nú liggur fyrir Alþ. Það er ekki lítilsvirði í svo viðkvæmu máli, að það náðist samstaða þm. úr öllum stjórnmálaflokkum. Fátt hefur hins vegar vakið meiri athygli alþjóðar nú upp á síðkastið, en viðleitni sjálfstæðismanna til þess að skapa ágreining og óeiningu í landhelgismálinu. Þar hefur Gunnar Thoroddsen verið í fararbroddi og hlotið að launum loforð um formennsku í þingflokki þeirra sjálfstæðismanna. Auðheyrt var hins vegar hér áðan, að Geir Hallgrímsson vildi ekki vera Gunnari minni maður. Stöndum saman, sagði Geir, — það vantar ekki, — en sendum mann til Haag. Ég get tekið undir það, sem Bjarni Guðnason sagði: „Boðuð er samstaða en unnið að sundrung“.

Staðreyndin er sú, að yfir 30 þjóðir hafa fært fiskveiðilögsögu sína út fyrir 12 sjómílur. Ekki einni einustu af þessum þjóðum hefur dottið í hug að vísa slíku máli til dómstólsins í Haag. Og nú eigum við Íslendingar að fara að gerast tilraunadýr að þessu leyti með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, ekki aðeins fyrir okkur sjálfa, heldur í raun og veru fyrir allar þessar þjóðir, sem við leggjum áherzlu á að eiga samstöðu með. Við skulum vona, að sú viðleitni beri ekki þann árangur, sem að er stefnt hjá þeim sjálfstæðismönnum, að skapa sundrung í þessu mikilvæga máli, enda mun flestum ljóst, að hér er aðeins um aumkunarverða tilraun að ræða til þess að breiða yfir herfileg mistök fyrrv. ríkisstj. með gerð landhelgissamningsins frá 1961, sem við Íslendingar súpum svo illilega seyðið af nú í meðferð Alþjóðadómstólsins í Haag í málinu. Það mun ekki ofsagt, að áframhaldandi festa og samstaða eru meginforsendur þess, að alger sigur megi vinnast.

Á öðrum sviðum hafa ekki síður orðið breytingar við stjórnarskiptin. Í hinu stöðuga stríði við verðbólguna kunni viðreisnarstjórnin ekki önnur ráð en að takmarka fyrst og fremst hlut launþega og framboð á atvinnu. Það eru gömlu íhaldsráðin. Núv. ríkisstj. varpaði slíkum leiðum fyrir borð. Þessi ríkisstj. telur kaupmátt launa, atvinnuöryggi og lífskjör almennings mikilvægustu forsendur skynsamlegrar stefnu í efnahagsmálum, því að til hvers er unnið, ef slíkt er ekki tryggt í lengstu lög? Og málið er í rauninni afar einfalt. Það er staðreynd, sem ekki verður hrakin, að atvinnuöryggi hefur aldrei verið meira né Iífskjörin betri en nú í okkar ágæta landi. Vanmáttug viðleitni sjálfstæðismanna til þess að mála skrattann á vegginn í efnahagsmálum fær ekki breytt þessum staðreyndum, jafnvel þótt Matthías Bjarnason og Geir Hallgrímsson rembist eins og rjúpan við staurinn frammi fyrir alþjóð, eins og þeir hafa gert hér í kvöld.

Á sviði atvinnuveganna er sömu sögu að segja. Þar eru stórtæk áform í undirbúningi, ef ekki þegar í framkvæmd. Landbúnaðarlöggjöfin hefur t.d. verið endurskoðuð að mestu leyti og færð til nútímahorfs. Ný jarðræktarlög voru samþ. í fyrra. Er þar að finna mörg merk nýmæli. Einnig voru samþ. breyt. á lögum um innflutning búfjár, og er þar með grundvöllur lagður að nýrri landbúnaðargrein, holdanautarækt, sem vænta má mikils af. Á þessu þingi hafa verið samþ. ný búfjárræktarlög, og lög um stofnlánadeild landbúnaðarins eru til meðferðar. Er þar gert ráð fyrir ýmsum nýmælum, m.a. aðild fulltrúa bænda að stjórn sjóðsins og bættri eiginfjárstöðu sjóðsins, fyrst og fremst með auknu fram1lagi ríkissjóðs. Önnur frv., eins og t.d. jarða- og ábúðarlög, hafa verið rædd á búnaðarþingi og sýnd á Alþ., og má vænta þess, að þau verði að lögum á næsta þingi. Ég harma, að frv. að nýjum framleiðsluráðslögum hefur ekki náð fram að ganga, en það er von mín, að svo verði. Staðreyndin er sú, að á sviði landbúnaðarins hefur verið mjög mikið unnið og er hagur bænda óvenjugóður og bjartsýni ríkjandi.

Ég mun nú snúa mér fyrst og fremst að málaflokkum, sem varla heyrðust nefndir á tíma viðreisnarstjórnarinnar og lítið sem ekkert í þessum umr.: skipulagshyggju og byggðajafnvægi. Ríkisstj. boðaði skipulögð vinnubrögð við framkvæmdir í stað þess handahófs, sem áður ríkti. Sérstök stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, var sett á fót til þess að annast áætlanagerð og tryggja heildaryfirsýn með ráðstöfun opinbers fjármagns til framkvæmda. Þar er nú verið að ljúka við ýmsar mikilvægar áætlanir. Sem dæmi má nefna áætlun um stórfellda endurnýjun hraðfrystihúsanna, sem þegar er unnið eftir, byggðaáætlun fyrir Skagaströnd, sem lokið er við, en stjórn stofnunarinnar hefur ákveðið að ná skuli til Húnaflóasvæðisins alls, þar með talin öll Strandasýsla. Samtals er unnið að yfir 40 áætlunum af ýmsum gerðum og á ýmsum sviðum. Ég viðurkenni, að þetta verk mætti ganga hraðar, en staðreyndin er sú, að verkið er margslungið og að mjög mörgu þarf að gá. Áætlanir þessar munu smám saman sjá dagsins ljós og skapa öruggan grundvöll fyrir skipulegri framkvæmdir og ráðstöfun opinbers fjármagns en áður tíðkaðist.

Núv. ríkisstj. lagði þegar grundvöll að öflugu átaki á sviði byggðamála. Viðreisnarmönnum þótti það mikil rausn að leggja 15 millj. úr ríkissjóði í atvinnujöfnunarsjóð á sínum tíma. Sú fjárveiting var þegar af núv. ríkisstj. aukin í 100 millj. kr. á ári og lánsheimildir veittar. Hefur þannig stórlega aukizt það fjármagn, sem byggðasjóður hefur til ráðstöfunar. Fjármagn til atvinnuuppbyggingar í dreifbýfinu hefur jafnframt verið aukið eftir ýmsum öðrum leiðum. Má benda á mikla aukningu fjármagns til stofnlánadeildar landbúnaðarins og fiskveiðasjóðs og fjármagn á fjárlögum og framkvæmdaáætlun ríkissjóðs, sem ég mun ræða nokkru nánar síðar. En jafnvægi í byggð landsins næst aldrei með því einu að stórauka fjármagn til framkvæmda í dreifbýlinu. Þetta hefur framsóknarmönnum lengi verið ljóst. Því hafa þm. flokksins hvað eftir annað lagt fram á Alþ. frv. um samræmdar framkvæmdir á þessum sviðum. Á viðreisnartímanum töluðu þeir hins vegar fyrir daufum eyrum, enda hefði þá vægast sagt framkvæmdahraði í þessum efnum mátt vera meiri, eins og Matthías Bjarnason benti réttilega á í umr. á Alþ. nú nýlega.

Það þing, sem nú situr, hefur hins vegar verið sérstaklega athafnasamt á þessu sviði. Ég vil fyrst nefna stjórnarfrv., sem öll stefna að því að jafna metin á milli dreifbýlis og þéttbýlis á einn máta eða annan.

Ný hafnalög gera ráð fyrir stóraukinni hlutdeild ríkissjóðs í stofnkostnaði hafna. Hafnamálasamband sveitarfélaga fær hlutdeild í áætlanagerð.

Ný heildarlöggjöf heilbrigðisþjónustu verður væntanlega samþ. á næstu dögum. Er þar gert ráð fyrir nýskipan læknishéraða, ákvörðun um heilsuverndarstöðvar, 85% ríkisframlagi til byggingar heilsugæzlustöðva og sjúkrahúsa, svo að eitthvað sé nefnt. Frv. þessu er að vísu að mínu viti ábótavant um ýmislegt, en vafalaust tel ég þó, að um mikilvægar endurbætur sé að ræða, fyrir dreifbýlið sérstaklega.

Ég treysti því, að frv. til laga um byggingu 1000 leiguíbúða á næstu 5 árum á vegum sveitarfélaga nái fram að ganga. Það frv. má rekja til þáltill., sem við fluttum nokkrir þm. á síðasta þingi um athugun á þörf fyrir leiguíbúðir í dreifbýlinu og um ráðstafanir til að bæta úr þeirri þörf. Athugun leiddi í ljós, að þörfin er sízt minni en við töldum. Er gert ráð fyrir því að lána 80% af byggingarkostnaði afborgunarlaust fyrstu 3 árin, en endurgreiðist síðan á 30 árum. — Það er að sjálfsögðu rétt, sem hér hefur komið fram, að tryggja verður fjármagn til slíkra framkvæmda, en lögin eru til alls fyrst, og ég er sannfærður um, að ekki mun standa á fjármagni. — Ég vil einnig vekja athygli á því, að nú rennur rúmlega 1/3 af því fjármagni, sem Húsnæðismálastofnunin hefur til ráðstöfunar, þ.e.a.s. 412 millj. kr. í Breiðholtsframkvæmdir einar, og er þeim brátt lokið. Það er ekki nóg að stuðla að aukinni atvinnu og atvinnuöryggi. Íbúðir verða að vera fyrir hendi fyrir það fólk, sem vill setjast að á slíkum stöðum. Húsnæðismál dreifbýlisins eru að mínu viti einn versti þrándur í götu eðlilegrar byggðaþróunar. Með þessu frv. er stigið mikilvægt spor í rétta átt.

Að rafvæðingu dreifbýlisins er unnið með endurnýjuðum krafti eftir lognmollu viðreisnarstjórnarinnar á þessu sviði samkv. 3 ára áætlun, eins og kunnugt er. Við þá áætlun mun verða staðið. Þetta kemur greinilega fram í framkvæmdaáætlun ríkissjóðs, sem nú liggur fyrir Alþ. Fjárveiting til rafvæðingar dreifbýlisins hefur verið aukin í meðferð þingsins um 40 millj. kr., til þess að standa megi við gerða áætlun að öllu leyti. Jafnframt hefur verð gerð breyting á orkulögum á þessu þingi, þar sem gert er ráð fyrir því, að lána megi allan kostnað vegna mótorrafstöðva, að meðtöldum kostnaði við flutninga og uppsetningu, þar sem ekki verður kostur á orku frá samveitum. Einnig var í meðferð Alþingis ákveðið að heimila aukin lán til vatnsaflsstöðva úr 2/3 af kostnaði í 3/4.

Þá vil ég nefna undirbúningsfyrirtæki vegna þörungavinnslu að Reykhólum. Á vegum þess fyrirtækis er nú verið að ljúka endurskoðun áætlana, og bendir allt til þess, að þær standist og munu þá framkvæmdir hefjast á þessu vori og framleiðsla á næsta ári. Austur-Barðastrandarsýsla hefur verið með einna lægstar meðaltekjur á öllu landinu. Það mun gerbreytast með þessari framkvæmd.

Á þessu þingi hafa alþm. sjálfir einnig verið athafnasamir í byggðamálum, m.a. hafa sjálfstæðismenn lagt á það ríka áherzlu að reka af sér slyðruorðið. Æði oft hafa þó þessar tilraunir verið heldur broslegar. T. d. má nefna, að nýlega lagði ég fram ásamt Tómasi Árnasyni frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að standa að „Breiðholts“-framkvæmdum í dreifbýlinu, svipuðum þeim, er Reykjavík hefur notið á síðustu árum. Það skal viðurkennt, að frv. þetta kom fram seint. Ég gerði mér ekki grein fyrir því, fyrr en ég fór að skoða húsnæðismálalögin ítarlega, að viðreisnarstjórnin hafði árið 1970 gert sér lítið fyrir og fellt slíka heimild fyrr aðra landshluta en Reykjavík úr lögum. Kom þar fram viðhorf þeirrar stjórnar og þeirra, sem þá réðu, til dreifbýlisins. En viti menn, nálægt því tveimur vikum eftir að við lögðum fram frv. okkar, birtist frv. um sama efni, og það er frá engum öðrum en Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, sem hefði þó átt að vera Ijósar aðgerðir viðreisnarstjórnarinnar, auk þess var hann í stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar lengi vel.

Matthías Bjarnason hældi sér hér áðan af þáltill. þeirra sjálfstæðismanna í byggðamálum. Staðreyndin er sú, að ég flutti fyrir nokkru þáltill. ásamt Vilhjálmi Hjálmarssyni og Stefáni Valgeirssyni um mörkun almennar stefnu í byggðamálum. Um það bil tveimur vikum seinna birtist þáltill. frá 9 sjálfstæðismönnum um sama efni. Till. okkar hefur fengið afgreiðslu frá n. og verður væntanlega afgreidd á þessu þingi. Er gert ráð fyrir því að taka verulegt tillit til viðleitni þeirra sjálfstæðismanna, enda sjálfsagt að fagna breyttu hugarfari og stuðla að sem mestri samstöðu í þessu mikilvæga máli. Enn sannast málshátturinn: „Oft vaknar við beiskan drykk“. Stjórnarandstaðan hefur reynzt sjálfstæðismönnum sem beiskur drykkur, en í afstöðu sinni til byggðamála hafa þeir sannarlega haft gott af honum, enda mun skynsamlegast af þjóðinni að halda þeim í stjórnarandstöðu sem lengst. Ég vænti mikils af því starfi, sem unnið verður á næstunni samkv. umræddri þáltill. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að á næsta þingi verði unnt að afgreiða ýmis lög, sem marka munu nýja stefnu í byggðamálum, ekki aðeins í þágu dreifbýlisins, heldur landsins alls, því að jafnvægi og heilbrigð þróun í byggð okkar lands er eitt af mikilvægustu málum allra Íslendinga.

Störf þessarar ríkisstj. einkennast ekki sízt af stórhug í framkvæmdum. Svo hefur verið um allar þær ríkisstj., sem Framsfl. hefur veitt forstöðu. Það er nánast ótrúlegt t.d., hve mikið tókst að framkvæma á erfiðleikaárunum fyrir stríð. Nú blasir þörfin alls staðar við eftir 12 ára íhaldsstjórn. Ég hef áður nefnt sveitarafvæðingu. Aðrar framkvæmdir í raforkumálum eru einnig miklar á framkvæmdaáætlun. Er t.d. gert ráð fyrir fjármögnun samkv. áætlun um 47 millj. kr. til Lagarfossvirkjunar, um 96 millj. kr. til Mjólkár og 80 millj. kr. til Laxárvirkjunar. Einnig má nefna 4 millj. kr. til Blævardalsárvirkjunar. Þarna er einnig gert ráð fyrir 200 millj. kr. í Skeiðarársandsveg og 25 millj. kr. í Djúpveg, 42 millj. kr. í hafnir og flugvelli samkv. Norðurlandsáætlun, en 150 millj. kr. er ráðstafað til vegaframkvæmda á Norðurlandi, eins og heitið var, fyrst og fremst með eflingu vegasjóðs á fjárlögum. Aðeins vinnst tími til þess, að nefna þannig örfá dæmi um stórhug í framkvæmdaáætlun, sem mun leggja grundvöllinn að bættum lífskjörum um land allt.

Góðir hlustendur. Störf núv. ríkisstj. einkennast af stórhug. Þau einkennast af festu og sigurvissu í landhelgismálinu, af réttlátari tekjuskiptingu, af atvinnuöryggi og bættum lífskjörum í efnahagsmálum, af róttækum umbótum á öllum sviðum atvinnumála, af viðurkenningu á mikilvægi byggðajafnvægis og skipulagshyggju og af framsókn á öllum sviðum opinberra framkvæmda. Þetta er æðiólíkt íhaldsstefnu viðreisnarstjórnarinnar. En við, sem styðjum þessa ríkisstj. leggjum áherzlu á fleiri og jafnvel enn mikilvægari grundvallarbreytingar. Við viljum gegna skyldum okkar við landið þannig, að við skilum afkomendum okkar betra landi en við tókum við, og við viljum setja markið hátt og stefna að auknum lífsgæðum í víðtækari merkingu öllum til handa, en ekki aðeins að bættum lífskjörum í þröngri merkingu. Það var með þetta í huga, sem fjármagn til náttúruverndar var margfaldað á fjárl. þessa árs. Þá kom íhaldsandinn einna gleggst fram, er málsvari sjálfstæðismanna, Matthías Bjarnason, sem hér talaði áðan, hneikslaðist sem mest á þeirri fjárveitingu í umr. um fjárl. fyrir áramótin.

Ávallt hefur verið ljóst, að stórhuga framfarastefna getur verið erfið í framkvæmd. T.d. getur verið erfitt að nú jafnvægi í efnahagsmálum með auknum kaupmætti og atvinnuöryggi og mikilli samneyzlu, enda skal það viðurkennt, að ekki hefur tekizt að ná þeim tökum á dýrtíðinni, sem að er stefnt.

Ég vil taka það fram, að ég var ekki hlynntur gengisfellingunni fyrir áramótin. Hins vegar viðurkenni ég, að það var litill munur á þeim bráðabirgðaráðstöfunum, sem þá komu til greina. Hið mikilvæga er, að samstaða náist á n.k. hausti um róttækar aðgerðir í dýrtíðar- og efnahagsmálum. Flestum mun nú vera orðið ljóst, að ekki verður komizt hjá því, að gera verulegar breytingar á vísitölugrundvellinum. Hinn mikli hraði, sem vísitalan veitir dýrtíðarskrúfunni, er sízt af öllu launþegum til góðs. Slíkt leiðir aðeins til gengisfellinga þriðja eða fjórða hvert ár, ef ekki oftar. Þetta er eitt stærsta viðfangsefnið á næsta leiti. Að því mun verða unnið í fullu samráði við launþega í landinu, og það er sannfæring mín, að sú samstaða mun nást, sem nauðsynleg er, því að hver vill fórna núv. framfarastjórn, stjórn vaxandi kaupmáttar og atvinnuöryggis og batnandi lífskjara og lífsgæða, fyrir nýtt viðreisnartímabil? Hver vill uppgjöf í landhelgismálinu? — Góða nótt.