13.04.1973
Sameinað þing: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3479 í B-deild Alþingistíðinda. (3000)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Við 1. umr. gat ég þess, að ég áliti óviturlegt að vera að tefja umferð með því að taka þessar krónur af mönnum, þegar þeir fara um hraðbrautirnar. Menn komast í illt skap út af því. Og ég álít, að þessi óánægja með veggjaldið sé meira af því en að menn sjái eftir krónunum. Ég lagði þá til, að benzínið yrði selt hærra verði á svæðunum, þar sem þessar hraðbrautir eru, og hærri þungaskatt af bílum, sem nota aðallega þessar hraðbrautir. Það mundi spara tíma og gera innheimtuna einfaldari og vinsælli hjá vegfarendum. Þess vegna segi ég já við dagskránni.