13.04.1973
Sameinað þing: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3479 í B-deild Alþingistíðinda. (3002)

246. mál, samningur um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að gerast aðili að samningi um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara og samningi um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að gerast fyrir hönd Íslands aðili að samningi um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara, sem gerður var í Haag hinn 16. des. 1970, og samningi um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna, sem gerður var í Montreal hinn 23. sept. 1971“.

Ofbeldi og hótanir um ofbeldi, sem beint er gegn stjórnendum loftfara, hefur á síðustu árum ógnað öryggi flugsamgangna. Alþjóðleg samvinna um ráðstafanir til að hamla gegn þessu vandamáli hefur borið þann árangur, að gerðir hafa verið 3 alþjóðasamningar um þetta efni. Hinn 14. sept. 1963 var gerður í Tokyó samningur um refsiverða hegðun og tilgreinda aðra hegðun í loftförum, hinn 16. des. 1970 var gerður í Haag samningur um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara, og hinn 23. sept. 1971 var gerður samningur í Montreal um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna. Ísland gerðist aðili að Tokyósamningnum árið 1970, og tók hann gildi hér á landi hinn 14. júní 1970, sbr. auglýsingu nr. 11 1970 í C-deild Stjórnartíðinda.

Til að Ísland geti orðið aðili að hinum tveimur samningunum, sem gerðir voru í Haag og Montreal, er nauðsynlegt að breyta ákvæðum íslenzkra hegningarlaga. Fyrir Alþ. hefur legið frv. til l. um breyt. á almennum hegningarl., n. 19 12. febr. 1940, og hygg ég, að það sé nú orðið að lögum. Í aths. við lagafrv., sem hegningarlaganefnd hefur samið, er gerð ítarleg grein fyrir samningum þessum, og eru þeir báðir birtir sem fskj. með frv. Telja verður æskilegt, að Ísland gerist aðili að umræddum samningi, og er því hér með leitað heimildar Alþ.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. utanrmn. og síðari umr.