06.11.1972
Neðri deild: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja fáein orð um þetta frv. Það hefur nú verið flutt í dálítið öðru formi en á síðasta þingi. Núna nær það til allra mjólkursamlaga og landsins alls, en í fyrra var það Mjólkursamsalan ein, sem mér virtist þá vera miðað við. Nú er einnig sú breyting gerð á, að alls staðar skuli n. skipaðar með sérstökum hætti til þess að fjalla um mjólkursöluleyfi, en hlutaðeigandi samlag eða samsala á ekki að hafa með það mál að gera utan það eitt að eiga einn mann af 7 í slíkum n. Ég mun nú ræða um þetta frv. með örfáum orðum til að lýsa afstöðu mínni til þess, og þá er Mjólkursamsalan í Reykjavík mér efst í huga, þegar ég ræði um málið, enda snertir, að ég hygg, frv. hana mest, og það snertir einnig mig sjálfan persónulega að tala um málið, vegna þess að ég hef um alllangt skeið átt sæti í stjórn Mjólkursamsölunnar, og þar af leiðandi tel ég mér skylt að segja örfá orð um málið.

Mér dettur ekki í hug að efast um það, að flm. frv. gangi gott til með því að flytja þetta mál. En mér finnst, að þeir geri sér ekki grein fyrir nema einum þætti þessa máls og miði till. sínar við þann þátt einan út af fyrir sig. Og það er aðeins sá þáttur, sem snýr að því að geta orðið við óskum kaupmanna um það að fá mjólk í allar matvörubúðir. Mér sýnist, að frv. hafi þennan tilgang einan og í raun og veru ekki annan tilgang. Auðvitað hafa líka heyrzt raddir um það og kom raunar fram í ræðu hv. 1. flm., að komið hafi kröfur um það frá neytendum að fjölga útsölustöðum mjólkur. En ég verð að segja það, að það hefur tiltölulega mjög lítið orðið vart við þessar kröfur. En ég vil líka láta þess getið í sambandi við það, að borið hefur við, að samsalan hér í Reykjavík hafi orðið að hætta við að leggja niður mjólkurbúð, sem hún vildi leggja niður og láta kaupmann þar á staðnum hér í bænum hafa mjólkursöluna, en þá risu neytendur á því svæði upp og mótmæltu þeirri breytingu kröftuglega, sem samsalan hafði hugsað sér að gera með því að hætta rekstri mjólkurbúðar sjálf og láta kaupmann hafa þessa vöru til sölu, svo að það er ekki eindregin vilji neytenda, skilst mér, að þær breytingar séu gerðar, sem farið er fram á.

Sannleikurinn er sá, að ég held, að það orki ekki tvímælis, að skipulag Mjólkursamsölunnar hefur reynzt vel. Það hefur verndað neytendurna fyrir hærri álagningu en þeirri, sem rétt nægir fyrir brýnasta kostnaði við söluna. Önnur álagning hefur ekki verið en það, sem aðeins tæplega nægir, og ýmsar mjólkurbúðir Mjólkursamsölunnar eru reknar með halla, þó að aðrar séu reknar með nokkrum hagnaði, og vegur það upp á móti hallanum á hínum. Og það hefur tryggt, þetta skipulag, að allir hefðu sæmilega aðstöðu til þess að fá mjólk og mjólkurvörum í næsta nágrenni við bústaði sina yfirleitt.

Nú dettur mér ekki í hug, að þetta skipulag Mjólkursamsölunnar eða yfirleitt nokkurt annað skipulag sé svo gott, að það megi ekki breyta því á einhvern hátt og bæta það, og þar er skipulag Mjólkursamsölunnar vitanlega ekki undanþegið. Ég geri ráð fyrir því, að það muni alltaf liggja undir gagnrýni, þetta fyrirtæki, Mjólkursamsalan eða mjólkursalan yfirleitt í landinu. Og ég held, að það sé kannske gott og hún eigi að gera það, því að þeim mun hægara er fyrir þá, sem stjórna slíkum fyrirtækjum, að finna, hvað skortir á, og bæta úr því. En ég álít, að það eigi ekki að leggja fram brtt. eingöngu breytinganna vegna, ekki til þess að breyta a.m.k. þeim þáttum, sem vel hafa gefizt.

Nú segja flm. og sumir aðrir auðvitað, að umbúðir og geymsluþol mjólkurinnar hafi tekið svo miklum breytingum til batnaðar, að það megi og sé óhætt að hafa þessa vöru alls staðar, og það gæti einnig orðið til þess að auka neyzlu hennar. Í þessu er vitanlega mikill sannleikur, en þó að í þessu sé mikill sannleikur, þá stendur það þó enn óhaggað, því miður, vil ég segja, að það er engin matvara, sem ég þekki, sem er eins vandmeðfarin og hættuleg, ef út af ber, eins og mjólkin. Þar um veldur, hversu hún er auðveldur akur fyrir alls konar gerla- og sýklagróður og næm fyrir því að taka í sig hvers konar óhreinindi. Þess vegna er þessi matvara undir hinu strangasta heilbrigðiseftirliti, sem hægt er að hafa. Ég get t.d. upplýst það, að heilbrigðiseftirlitið hér í Reykjavík er svo strangt, að það er ævinlega maður frá heilbrigðiseftirlitinu viðstaddur í Mjólkursamsölunni hér í Reykjavík, er mjólkin kemur til samsölunnar, til þess að fylgjast með því, hvernig hún er og hvernig meðhöndlun hennar er þar á staðnum. Og það hefur komið fyrir oftar en einu sinni og kemur oft fyrir, næstum á hverju ári, að mjólkurbílar hlaðnir af nýmjólk verða að fara til baka með farminn, af því að aðeins er grunur um það, að mjólkin standist ekki fyllsta geymsluþol eða gerlagróður kunni að vera aðeins yfir því marki, sem krafizt er, svo að hér er áreiðanlega á ferðinni, sem betur fer, vil ég segja, mjög strangt eftirlit, og það þarf að vera og hlýtur að verða gengið eftir því, að svo verði framvegis.

Samkv. lögum hefur Mjólkursamsalan skyldur við neytendur um það að hafa næga mjólk á boðstólnum og tryggja gæði hennar, og hún ber ein alla ábyrgð, ef út af ber. Þetta er mjög erfitt starf, og það kostar mikið og til þess að rækja það hefur Mjólkursamsalan m.a. komið upp dýrri rannsóknarstofu með nóg af starfsfólki og rekur þetta rannsóknarstarf og eftirlitsstarf á sinn kostnað án aðstoðar frá bæjarfélagi eða ríki.

Ég varð dálítið hissa, þegar ég sá till. í frv. um þá nefndarskipun, sem gert er ráð fyrir í frv. þar sem seljendur mjólkurinnar eiga aðeins að fá einn eða kannske í hæsta lagi tvo menn af þessum 7, sem gert er ráð fyrir, að skipi n. til þess að fjalla um og veita mjólkursöluleyfi. Þar með er auðvitað valdið í þeim málum alveg að fullu af þeim tekið, en eftir sem áður eiga þeir að bera alla ábyrgðina á meðferð vörunnar, sjá um að koma henni í búðirnar og að innheimta verðið, en þeir eiga aðeins að fá einn, eða kannske má segja tvo, sem gætu verið þeirra málstað hlynntir, til þess að eiga sæti í n. Ekki eru heldur í þessu frv. nein ákvæði um það, að smásalarnir verði að hlíta neinum fyrirmælum um hófleg sölulaun. Það hefði þó verið ástæða til þess fyrir flm. að taka þann þátt málsins einnig eitthvað til meðferðar og gera þar um tillögur.

Ég get ekki betur séð en af þessari breytingu, sem hér er ráðgerð, mundi, þegar fram í sækti, leiða mjög hækkaðan dreifingarkostnað á mjólk og jafnvel geti þetta leitt til mjólkurskorts á sumum landssvæðum. Hérna á Reykjavíkursvæðinu getur þessi breyting, að ég held, leitt til þess, að Mjólkursamsalan verði að hætta að reka þær húðir, sem bezt bera sig, og að hún sæti svo eftir með þær búðir á svæðum, þar sem kaupmenn vilja ekki eða geta ekki rekið matvöruverzlanir, — þar sæti Mjólkursamsalan eftir með sínar búðir, en á ýmsum slíkum svæðum eru mjólkurbúðir núna reknar með tapi. En þá yrði mjólkursamsalan af eðlilegum ástæðum, þar sem mjólk væri komin í allar matvöruverzlanir í bænum, búin að leggja niður þær búðir, sem hafa fram að þessu borið uppi tapið á búðunum, sem eru á lakari stöðum í borginni eða í nágrenni borgarinnar, því að hér á ég við allt Stór-Reykjavíkursvæðið.

Ég tel, að ef frv. yrði samþ. og framleiðendur þannig sviptir rétti til þess að ráða sjálfir yfir sölu framleiðslu sinnar, yrði að undanþiggja þá einnig lagaskyldunni til þess að fullnægja kröfum markaðarins um það, að alltaf sé til nóg magn til sölu af mjólk, og að ábyrgðinni á meðferð vörunnar við sölu hennar yrði einnig létt af Mjólkursamsölunni. Ég vil leiðrétta þann misskilning, sem mér sýnist gæta í grg. frv., þar sem vitnað er til breytinga, sem nýlega hafa verið gerðar í Danmörku á sölu og dreifingu mjólkur og skilja má svo, að þar hafi verið líkt fyrirkomulag og hér. Það er hinn mesti misskilningur. Í Danmörku hefur aldrei verið neitt svipað fyrirkomulag á dreifingu og sölu mjólkur og hér. Danskur mjólkuriðnaður hefur aldrei haft með það að gera að dreifa eða selja mjólk í smásölu til neytendanna. Það voru aðrir aðilar, sem það gerðu. Ég lýsti því nokkuð hér við umr. í fyrravetur, hvernig það fyrirkomulag hefði verið þar. Ég álít, að það fyrirkomulag hafi ekki verið til fyrirmyndar, og ég er viss um, að við hefðum aldrei sætt okkur við það, Íslendingar, að það opinbera, eins og var í Danmörku, seldi vissum aðilum á leigu svæði, þar sem þeir hefðu mjólkursöluna. Það er ósköp svipað fyrirkomulag og danska ríkið hafði fyrr á öldum, þegar það seldi á leigu verzlunaraðstöðu á vissum svæðum danska ríkisins, m.a. seldi einokunaraðstöðu hér á Íslandi. Þetta fyrirkomulag þótti orðið óhæft í Danmörku og var tekið þar upp núna nýlega annað fyrirkomulag í þessum efnum. Ég er ekki vel kunnugur því, hvernig það fyrirkomulag hefur gefizt, en mun fá mjög fljótlega nákvæma skýrslu um það, hvernig danski mjólkuriðnaðurinn a.m.k. lítur á, að það fyrirkomulag hafi gefizt. Hins vegar var í Svíþóð mjög svipað fyrirkomulag og er hér, að framleiðendurnir báru ábyrgð á mjólkurdreifingunni og mjólkursölunni og ráku sínar eigin mjólkurbúðir. En þessu fyrirkomulagi var breytt 1966, fyrir 6 árum, og þá var mjólkin látin í hendur allra þeirra kaupmanna og annarra, sem kusu að hafa mjólk til sölu. Rökin fyrir því voru svipuð og í Danmörku, trúin á svokallaða „súper“-markaði. Það var trúin á þessa „súper“-markaði, sem olli þeim breytingum, sem gerðar voru í báðum þessum löndum. Sænska ríkið sá um, að framleiðendur fengju fullt verð fyrir mjólkurbúðir sínar í sambandi við þessa breytingu. Það taldi sig ekki geta tekið mjólkursöluna af framleiðendum upp á annað en sjá þeim fyrir fullu verði fyrir mjólkurbúðirnar, sem þeir höfðu byggt og ráku í borgunum.

Í báðum þessum löndum, sem ég hef minnzt á, í Danmörku og eins í Svíþjóð, hafa verið tekin gjöld fyrir hverja afgreiðslu til verzlunar. Ég get upplýst það, að í fyrra a.m.k., — ég hef ekki alveg nýjustu tölur um þetta, en í fyrra voru teknar kr. 2.80 sænskar í Svíþjóð fyrir hverja afgreiðslu og 8 kr. danskar í Danmörku fyrir hverja afgreiðslu. Slík gjöld eru einnig tekin í Noregi, en mér er ekki fyllilega ljóst, hvað þau eru há þar. Þetta er gert í þessum löndum öllum til þess að fækka þeim, sem taka við mjólk til sölu, og gjöldin eru höfð þetta há til þess að reyna a.m.k. að útiloka hina smærri aðila, og það er reynt að beina mjólkursölunni í þá farvegi, að það séu hinir stærri markaðir, hinir svokölluðu „súper“-markaðir, sem aðallega hafi með mjólkursöluna að gera. Og mér er kunnugt um það, að smákaupmennirnir, sem ætluðu sér að ná mjólkinni til sölu, hafa orðið útundan af þessum sökum. Þessi aðferð er enn fremur notuð í þessum löndum til þess, að dreifingin hjá dreifingaraðilum, þ.e. framleiðandanum, sem ekur mjólkinni til afgreiðslu í búðirnar, sé viðráðanlegri og innheimta verksins einnig, því að hvort tveggja þetta kostar miklu meira, ef þarf að eltast við þetta í marga staði. Þetta er nokkuð annað en frv. það, sem hérna liggur fyrir, miðar að, því að það vill fjölga mjólkursölustöðum sem allra mest, en það hefur alls ekki verið meiningin hjá nágrannaþjóðum okkar, sem hafa farið út í þessar breytingar, að fjölga útsölustöðunum sem mest. Ég mun nú innan fárra vikna, — ég geri ráð fyrir jafnvel, að það verði áður en þessi mánuður er er liðinn, — fá bæði frá Svíþjóð og eins frá Danmörk nýjar skýrslur um mjóikurdreifinguna á Norðurlöndum og skal þá sjá svo um, að sú n., sem fær þetta frv. til athugunar, fái að sjá þær skýrslur.

Frv. það, sem flutt var hér á Alþ. í fyrra, var mjög til umræðu meðal bænda í fyrravetur, eftir að það kom fram, og sætti mikilli gagnrýni þá á ýmsum fundum, sem haldnir voru meðal mjólkurframleiðenda. Núna nýlega var haldinn fundur hér í Mjólkursamsölunni í Reykjavík, sem hún hafði boðað til og var búin að boða til, áður en þetta frv. kom fram, — hann var haldinn með stjórnum mjólkursamlaganna í Mjólkurbúi flóamanna og Mjólkursamlaginu í Borgarnesi. Fundurinn var boðaður um ýmis innri málefni þessa félagsskapar, Mjólkursamsölunnar og þessara samlaga, og var haldinn núna fyrir nokkrum dögum, en þá var þetta frv., sem hér er til umr., komið fram, svo að það barst einnig þarna í tal og var rætt á fundinum. Og þar vildu menn endilega, að fundurinn léti frá sér heyra um málið, og það var gerð þar ályktun í þessu máli, sem ég vil leyfa mér, ef forseti leyfir, að lesa hér. Sú ályktun hljóðar þannig:

„Sameiginlegur fundur stjórnar Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, stjórnar Mjólkurbús Flóamanna og stjórnar Mjólkursamlags Borgfirðinga, haldinn í Reykjavík 2. nóv. 1972 til að ræða framleiðslu- og sölumál mjólkur, ályktar:

Fundurinn telur, að hugmyndir þær til breytinga á mjólkursölu, sem felast í frv. til l. um breyt. á l. um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl., sem flutt hefur verið í Nd. Alþingis, 36. mál, sé ekki líklegt til þess að bæta skipan mjólkursölumála frá því, sem nú er. Af þeirri breytingu, ef samþykkt yrði, mundi leiða stórhækkaðan kostnað við mjólkurdreifinguna í landinu. Þá er líklegt, að einnig mundi fylgja henni minnkuð vörugæði og skortur á mjólk á sumum landssvæðum. Augljóst er, að umrædd breyting raskaði því grundvallaratriði, að framleiðendur hefðu lagalega skyldu til þess að fullnægja kröfum markaðarins um, að jafnan sé nægjanlegt magn mjólkurvara til sölu um landið allt. Verði framleiðendur sviptir rétti til þess að ráða sölu framleiðsluvara sinna, þá hljóta þeir að verða undanþegnir slíkri skyldu. Fundurinn varar því alvarlega við samþykkt umrædds frv. og mótmælir því, að skipulagsbreyting verði gerð á mjólkursölumálum án samráðs við sölusamtök landbúnaðarins, Framleiðsluráð landbúnaðarins og Stéttarsamband bænda.“

Þannig hljóðar ályktunin sem þessi fundur gerði. Ég vil geta hennar hér og koma henni inn í Alþingistíðindin, svo að menn, þeir sem það kunna að vilja, eigi þar aðgang að þeim sjónarmiðum, sem þarna voru ráðandi.

Ég vil minna á það, sem mér finnst alveg full ástæða til þess að menn viti, og það er, að mjólkurframleiðslan, a.m.k. hér á Suðurlandi, þar sem ég er einmitt kunnugastur, er í verulegri hættu. Það hafa ýmsir atburðir gerzt í atvinnulífi þjóðarinnar, sem valda því, að fjöldi fólks hverfur nú frá þessari framleiðslu. Það er búið að loka fjölda af fjósum á Suðurlandi, mörgum þeirra nýbyggðum, og þar er hætt að framleiða mjólk. Það er margt, sem kemur þarna til greina, þar á meðal vinnutímastytting. Hún á sinn þátt í þessu. Og mönnum þykir þetta starf mjög bindandi, að framleiða mjólk, og það er orðinn gífurlegur stofnkostnaður við það að koma sér upp búi af þeirri stærð, sem þarf til þess að geta lifað sómasamlegu lífi af mjólkurframleiðslu. Nú er ég ekki að kvarta undan því, að sá, sem hefur komið sér vel fyrir við búskap fyrir mörgum árum eða áratugum kannske, geti ekki lifað sómasamlega af þessari framleiðslu. En ég held, að sá, sem byrjar núna búskap, efnalitill e.t.v., og á ekki aðgang að lánsfé nema að takmörkuðu leyti, og jafnvel þó að hann ætti aðgang að lánsfé, þá er þetta fjármagn svo dýrt og fjármagnskostnaðurinn svo mikill, að ég held, að það sé útilokað, að menn sæki í þessa framleiðslugrein á næstu árum. Og mér finnst, að þetta sé mjög augljóst á Suðurlandi. Fyrir nokkrum árum voru þar nokkuð á tólfta hundrað framleiðendur mjólkur, sem fluttu mjólk til Mjólkurbús Flóamanna. Núna eru þeir komnir talsvert niður fyrir 900 að tölu, og mjólkin vex ekki hjá okkur neitt að ráði. Ég get sagt sem dæmi, að í sept. s.l. var mjólkurframleiðsla talsvert minni en hún var á sama tíma í fyrra. Og ég hygg, að þetta stóra fjölbýlissvæði hér við Faxaflóa, sem telur nú talsvert mikið yfir helming þjóðarinnar, verði að gæta sín að því leyti til að gera ekkert það, sem orsakað geti meiri flótta frá þessari framleiðslu heldur en verið hefur, því að á mjólkinni og mjólkurafurðunum verðum við að verulegu leyti að fóstra þjóðina, í framtíðinni alveg eins og hingað til. Þess vegna finnst mér, að það verði að fara mjög varlega og af mikilli gætni í allar þær breytingar, sem mönnum finnst. að þurfi að gera á þessum málum. Ég er alls ekki að halda því fram, að það megi ekki gera einhverjar tilfærslur og breytingar í mjólkursölumálum, ef það skaðar ekki á nokkurn hátt markaðinn, skaðar ekki neytendurna og ekki heldur framleiðendurna. En breytingarnar þurfa að verða til mikils hagræðis, til þess að það borgi sig að leggja út í þær.

Núna eftir næstu áramót er Mjólkursamsalan 38 ára að aldri. Hún var stofnuð fyrir 38 árum til þess að koma á betra skipulagi um sölu og dreifingu mjólkur hér, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit, að hér eru inni margir hv. alþm., sem muna vel þá baráttu, sem var um þetta fyrirtæki á þeim árum, og þær deilur, sem þá urðu um þetta, og það var að mörgu leyti eðlilegt, að það yrðu deilur um það þá. Þetta var nýtt fyrirkomulag, sem var verið að taka upp. Það var verið að hverfa frá aldagömlu fyrirkomulagi, þar sem menn drukku mjólkina upp úr döllum og brúsum, en það voru að koma til sögunnar nýir tímar. Þegar Mjólkursamsalan var stofnuð hér, var það ekki sízt ástæðan fyrir stofnun hennar að fækka útsölustöðum mjólkur hér í höfuðborginni. Þá þótti mönnum mjólkursalan vera á hendi allt of margra aðila og hið mesta ófremdarástand ríkti hjá mörgum þessum söluaðilum hér í borginni. ég gæti haldið um það talsverða tölu að lýsa því, hvernig ástandið var. En ég ætla nú að sleppa því. — Og sölukostnaðurinn var miklu hærri en eðlilegt var. Bæjarstjórn Reykjavíkur hafðist þó ekkert að annað í mjólkursölumálunum heldur en fjölga búðunum, sem máttu selja mjólk. Þáv. bæjarstjórn í Reykjavík virtist vera á bandi þeirra, sem vildu hafa mjólkurbúðirnar út um allt og sem allra flestar. En þá var það, sem hafið var þetta skipulag, sem síðan hefur gilt. Sá maður, sem þá var áreiðanlega kunnugastur mjólkursölumálum hér í Reykjavíkurborg, var Eyjólfur Jóhannsson, þáverandi forstjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur. Ég hygg, að það hafi enginn maður þá þekkt betur til mjólkursölumála hér í borginni. Hann sagði í grein, sem hann ritaði í Morgunblaðið 21. des. 1933, eða tveimur árum áður en Mjólkursamsalan var stofnuð, að hæfilegt væri þá að hafa 25 mjólkurbúðir í Reykjavík, en þegar hann ritaði þessi orð, voru mjólkurbúðirnar hér 100 að tölu. Það var þess vegna fyrsta skrefið, sem gert var, þegar Mjólkursamsalan var stofnuð, að fækka mjólkurbúðunum. Og Mjólkursamsalan hóf starf sitt hér í borginni með 28 mjólkurbúðum. Ég þarf ekki að rekja það, að framleiðslu- og sölusvæði Mjólkursamsölunnar nær frá Skeiðarársandi og vestur að Gilsfirði, og á því svæði eru núna 160 útsölustaðir mjólkur og mjólkurvara. Þar af eru 80 hér í Reykjavík, 12 í Kópavogi, 9 í Hafnarfirði og 3 á Seltjarnarnesi, eða 104 útsölustaðir orðnir nú samtals á því svæði, sem stundum er kallað Stór-Reykjavíkursvæðið. Af þessum útsölustöðum, sem ég hef nefnt hér, öllum, rekur Mjólkursamsalan sjálf 75 mjólkurbúðir eða 46%. Kaupmenn, bakarar og kaupfélög hafa 84 búðir eða útsölustaði, og það er um 54% af útsölustöðunum, svo að aðrir en Mjólkursamsalan eru þarna í verulegum meiri hluta um dreifingaraðild eða söluaðild að mjólkinni. Hins vegar skal ég einnig skýra frá því, að Mjólkursamsalan mun vera í nokkrum meiri hluta með vörumagnið, sem selt er. Um það hef ég ekki nýjustu tölur, svo að ég ætla ekki að fara með neinar tölur um það, sem em ekki alveg nýjar og nákvæmar.

Það er ætlazt til þess og í raun og veru skylt, að þeir, sem hafa nýmjólk til útsölu, hafi einnig allar aðrar mjólkurvörur í búðum sínum, sem eru nú orðnar mjög margar tegundir mjólkurvara, margar tegundir af ostum, og nú eru að koma alltaf á markaðinn nýjar tegundir, sem mjólkuriðnaðurinn er að framleiða. Það er t.d. svokallað „yougurt“, súrmjólk, berjaskyr, sem er nýjasta framleiðslan, — skyr, sem er framleitt með bláberjum, bláberjamauk hrært saman við skyrið og þykir mjög góður réttur, — og fleira er á framleiðslustigi og mun koma smátt og smátt á markaðinn af þessu tagi. En við athugun, sem hefur verið gerð, — að vísu á vegum Mjólkursamsamsölunnar, því að hún verður að fylgjast með þeim mjólkurbúðum, með öllum þeim útsölustöðum á svæðinu, sem ég hef nefnt, þá hefur verið gerð athugun á því, hvaða vörur aðrar eru til sölu í þessum búðum og hvort þau skilyrði eru uppfyllt, sem ég hef talað um, að allar aðrar mjólkurvörur séu þar á boðstólum. Þessi skilyrði eru mjög misjafnlega uppfyllt af hinum ýmsu verzlunum, og hlutfallssala Mjólkursamsölunnar sjálfrar í hennar eigin búðum er miklu hærri á öðrum mjólkurtegundum heldur en á nýmjólk. Margir þessir söluaðilar virðast fyrst og fremst hugsa um að hafa nýmjólk í búðum sínum, en kæra sig minna um að hafa aðrar vörur þar til sölu, osta og aðrar þær vörur, sem ég hef verið að nefna. Þetta er vitanlega mjög mikill galli og hlýtur að vera mjög alvarlegt frá sjónarmiði þeirra, sem reka Mjólkursamsöluna, því að þeim er alveg eins mikið í mun að koma í verð og selja ýmsar aðrar vörur úr mjólk heldur en nýmjólkina sjálfa. Og það er líka mikill hagur fyrir þjóðfélagið, að þessar vörur seljist sem mest á innlendum markaði, heldur en það þurfi e.t.v. að fletja einhvern afgang af þessu út og borga með því útflutningsuppbætur. Auk þess er það sannað mál, að þessi framleiðsla er fólkinu holl, þetta er holl fæða og ódýr, þegar á allt er lítið mjög ódýr, sem ber að leggja áherzlu á, að sem mest sé neytt af.

Ég hef verið kannske nokkuð langorður um þetta málefni, en mér fannst ég þyrfti að gefa á þessu ýmsar skýringar. Ég verð að segja það, og það hefur komið fram raunar af máli mínu, að ég er andvigur þeim breytingum, sem þarna eru fyrirhugaðar. Ég mundi alls ekki hafa neitt við það að athuga, að það væri rannsakað af einhverjum þar til hæfum aðilum, hvort slíkar breytingar væru nauðsynlegar, að það væri kynnt sér nákvæmlega, hvernig þessum málum er háttað hjá nágrannaþjóðum okkar, og reynt að hafa þeirra reynslu til hliðsjónar. Eins og ég sagði áðan, á ég nú von á því innan tíðar að fá skýrslu um það, hvernig breytingarnar hafa reynzt t.d. í Svíþjóð. Það er komin 6 ára reynsla á þetta þar, og mér finnst, að við eigum að fylgjast með því, sem gerist hjá nágrannaþjóðunum, og ég vil, alls ekki vera lokaður fyrir ýmsum breytingum, sem til hagsbóta geta orðið, ef þar geta farið saman hagsmunir bæði neytenda og framleiðenda, sem ég get ekki betur séð en hljóti að eiga og verða að fara saman í þessum efnum.