13.04.1973
Efri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3493 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðason):

Herra forseti. Á þskj. 702 er frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt. Að stofni til er þetta frv. flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út á s.l. sumri um hækkun á frádrætti fyrir aldraða, sem þá var gerð. Í hv. Nd. var frv. svo að till. fjmrn. og einnig hv. fjh.- og viðskn. breytt nokkuð frá því, sem upphaflega var og sérstaklega bætt þar við. Í fyrsta lagi voru ákvæðin í sambandi við undanþágu sjómanna, sem þeir hafa samkv. lögum, gerð skýrari. Í öðru lagi var ákvæði um skattskyldar eignir, en þar er talið bæði lausafé og fasteignir, líka gert skýrara. Þá var og í þriðja lagi nokkuð aukið við þann frádrátt, sem aldraðir höfðu samkv. brbl., og sett inn það ákvæði, að það skyldi háð verðlagi eða skattvísitölu. Umfangsmestu breytingarnar, sem gerðar voru, eru þær, að gera skýrari og ákveðnari ýmis viðurlög og að skatteftirlitið hafi greiðari aðgang að því, sem skoða þarf, til þess að upplýsa skattsvik, ef um þau er að ræða, og þá jafnframt að skilgreina betur en var fyrir í l. sönnunarskyldu framteljenda. Í þessu frv. er einnig gert ráð fyrir því, að rýmka heimild fjmrh. í sambandi við fyrirframgreiðslu til þess að nálgast staðgreiðslukerfið eins og frekast er unnt, án þess að taka þá áhættu, sem í ljós hefur komið í sambandi við það, t.d. á öðrum Norðurlöndum, sérstaklega í Danmörku, þar sem framkvæmdin hefur reynzt mjög erfið. Þá er og tekin upp 52. gr. l. og hún gerð skýrari og augljósari, en þar er um að ræða þær undanþágur, sem skattþegn getur fengið vegna ýmissa óhappa, sem hann kann að verða fyrir, eins og veikinda, slysa og annarra hluta, sem nauðsyn ber til, að séu skýr í skattalögum.

Um þetta frv. varð samstaða í hv. Nd. og það var afgreitt út úr d. með shlj. atkv., enda höfðu þeir, sem í fjh.- og viðskn. unnu, reynt að samræma sín sjónarmið eins og tök voru á.

Ég treysti því, að í þessari hv. d. verði það einnig svo, því að nauðsyn ber til að afgreiða þetta mál nú, og legg ég til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.