13.04.1973
Efri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3494 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. 1. minni hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur verið lýst, náði landbn. ekki samstöðu um frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. 1. minni hl. n., við tveir þm. Sjálfstfl., hefur ekki getað fallizt á það í því formi, sem það er, og við höfum ekki náð fram því, sem við óskuðum eftir, þegar málið var til umr. í n. Ef ég ætti að skilgreina í sem fæstum orðum, hvað við höfum fyrst og fremst við þetta frv. að athuga, er það það, að þessu frv. er ætlað að koma að nokkru leyti í staðinn fyrir eldri lög um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. En eins og tekið er fram í nál. okkar í 1. minni hl., þá er fjarri því, að þetta frv. spanni yfir allt það verksvið, sem fyrri lög gera. Í aths. með þessu frv. er þess getið, að ákveðið hafi verið að leggja fram um leið frv. að lögum og lagabálkum, sem ættu að ná til þeirra hluta og verkefna, sem aðrir kaffar l. um stofnlánadeild og landnám ná til. Það var okkar skoðun, og ég hygg, að mönnum þyki hún ekki óeðlileg, að það sé óaðgengilegt og raunar óafsakanlegt að ákveða að fella úr gildi um næstu áramót lög, sem eru mikilvæg fyrir heilan atvinnuveg, án þess að koma með á sama tíma neina rökstudda hugmynd um, hvað á að koma í staðinn.

Eins og ég hef tekið fram, er ráð fyrir því gert í 30. gr. þessa frv., að 1. kafli þessara l. öðlist gildi 1. júlí 1973, önnur ákvæði l. öðlist gildi 1. jan. 1974 og frá 1. jan. 1974 falli úr gildi lög nr. 45 frá 16. apríl 1971, en það eru þau lög, sem ég gerði að umræðuefni áðan og taka yfir landbúnað, Landnám ríkisins o.fl. Af þessu má sjá, að það er ekki nema nokkur hluti þessa frv., sem liggur á að lögfesta. Ef maður les frv. yfir með nokkurri athygli og ber það saman við eldri lög, er í raun og veru ekki nema eitt lítið atriði í því, sem nokkur veruleg breyting er á frá eldri l., en það er fjáröflunargreinin, 4. gr., sem gerir ráð fyrir auknu fjármagni til stofnlánadeildarinnar. Það varð því okkar niðurstaða að leggja til, að þessi 4. gr. yrði lögfest og felld inn í gildandi lög um stofnlánadeild landbúnaðarins, og teljum við, að með því sé náð því höfuðviðfangsefni, sem við er glímt í þessu frv. Það er svo margt, sem okkur sýnist, að sé í mikilli óvissu, þegar við höfum ekki getað kynnt okkur nægjanlega þau frv., sem eiga að koma í stað síðari hluta laganna um stofnlánadeild landbúnaðarins. M. a. er það, að það er alveg örugglega á næsta leyti að efla til muna skipulagningu í strjálbýli út um allt land og eftir gildandi l. hefur Landnámi ríkisins verið fengið það verkefni. Það er mjög eðlilegt, að skipulagningu á landinu verði skipt að því leyti til, að skipulagi ríkisins verði falið að skipuleggja í þéttbýli, en annarri stofnun, t.d. Landnáminu, skipulagningu á öðru landi.

Ég vil minna á það, að að þessu hefur verið unnið hjá Landnáminu bæði fyrr og síðar. Má sérstaklega benda á, að nú síðast hefur verið unnið að því að gera svokallaða Inndjúpsáætlun, sem er hugsað til þess, að efla byggð við Ísafjarðardjúp, bæði til þess, að byggð grisjaðist þar ekki meira en orðið er og hún yrði um leið fær um að þjóna þéttbýlinu á Ísafirði og víðar, svo sem framast má verða og landkostir geta leyft. Það er m.a. verkefni af þessu tagi, sem ég tel mikilvægt að verði unnin af einhverri opinberri stofnun í landinu, og fyrst þessi störf hafa verið unnin af Landnámi ríkisins á undanförnum árum, þykir mér eðlilegt, að því yrði haldið áfram, ellegar maður fengi að sjá, með hverjum hætti þetta yrði fengið annarri stofnun.

Ég nefni þetta sem dæmi um verkefni Landnámsins. Að sjálfsögðu er fleira, sem vert væri að minnast á, en ég ætla að spara mér það að þessu sinni. En ég vil leggja á það ríka áherzlu, að ég tel hlutverk Landnámsins hafa verið hið mikilvægasta og ég get ekki staðið að því að ákveða að fella það niður, á meðan ég sé ekki, hvað á við að taka.

Þegar við vorum að ræða þessi mál í landbn. og við í 1. minni hl. vorum að ganga frá okkar nál., höfðu enn ekki verið lögð fram fyrir alþm. þau frv., sem eiga að leysa þessi verkefni, sem Landnámið hefur haft. Þau hafa að vísu verið lögð á borð okkar síðan hér í Alþ., en af eðlilegum ástæðum er ekki nokkur tími til að kynna sér þau sem skyldi. Það má því segja, að það sé sama og þm. viti ekki, hvað í þeim stendur, þó að þeir hafi séð, hvað frv. heita, og lauslega kynnt sér meginefni þeirra, en annað er það ekki. Fyrst og fremst eru það frv. til jarðalaga og frv. um heykögglaverksmiðjur ríkisins, sem mér virðist að eigi að leysa verkefni Landnámsins, en get ekki áttað mig á enn, hvernig með það verður farið. Ég geri ráð fyrir, að það verði umdeilt, hvernig ætlað er að skipa þeim málum. Sum af verkefnum Landnámsins, og æðimörg þeirra, virðast mér eiga að fara inn í landbrn. sjálft, en önnur virðist eiga að setja undir aðra opinbera stofnun. Landnám ríkisins verður sem sagt lagt niður, en önnur opinber stofnun stofnuð, sem er þá stjórn Heykögglaverksmiðja ríkisins. Til þess að geta metið þetta til nokkurrar hlítar þarf að kynna sér þessi frv. miklu betur. Ég vil því halda því fram núna, eins og ég gerði, þegar við vorum að ræða þessi mál í landhn., að það sé alls ófært að fella úr gildi kaflann um Landnám ríkisins, þegar málum er ekki lengra komið en svona. Það rekur engin nauður til þess að haga vinnu á þann hátt, allra sízt þegar Alþ. er svo störfum hlaðið sem það er þessa síðustu daga.

En af maður lítur á ákvæði þess frv., sem hér er til umræðu, sem er frv. um stofnlánadeild landbúnaðarins, kemur það í Ijós, að þar er ekki ýkjamargt um nýmæli og tiltölulega fátt, — ég segi tiltölulega fátt um ágreiningsatriði. Það eru nokkur atriði, sem ég tel að þurfi að laga, ef meiningin væri að lögfesta þau, og ég mun koma örlítið að því síðar. En áður en ég vík að því, vil ég geta þess, að það hefur verið rík venja hjá Alþ., þegar um hefur verið að ræða lagabálka, sem legið hafa fyrir þinginu og varðað hafa atvinnuvegina, að senda þá til umsagnar þeirra aðila, sem þeirra eiga að njóta og þeir varða sérstaklega. Og þegar það hefur fallið niður, hefur það venjulega verið gagnrýnt af stjórnarandstöðu og ekki þótt vænlegt að haga málum á þann hátt. Þegar þetta frv. var rætt á landbn.-fundi, spurðist ég fyrir um það, hvort frv. hefði t.d. verið borið undir Stéttarsamband bænda, legið fyrir Búnaðarþingi eða sýnt stjórn Búnaðarfélags Íslands. Ég fékk þau svör, að þetta hefði ekki verið gert, tími væri naumur til stefnu og þess því ekki að vænta, að umsagnir gætu borizt á svo skömmum tíma. En til þess að koma nokkuð til móts við þessar óskir mínar um athugun af hálfu þessara aðila, var kallaður á fund til okkar formaður Stéttarsambands bænda. Svo vel vill til, að formaður Búnaðarfélags Íslands er form. landbn., og voru því hæg heimatök að hafa tal af honum um þessi efni á fundinum sjálfum.

Ég hefði getað ætlað, að þegar framsóknarmenn höfðu tækifæri til að gera athugun, endurskoðun og umbreytingu á stofnlánadeildarl., sem upphaflega var stofnað til 1962, hefðu þeir e.t.v. troðið einhverjar nýjar brautir eða ekki endilega fylgt sama slóðanum og þá var gert. Flestir þeir, sem komnir eru til vits og ára, kannast við það, að þegar lögin um stofnlánadeild voru hér til umr. á þingi 1962, mættu þau nokkuð snarpri andstöðu af hendi þáv. stjórnarandstöðu, sem Framsfl. var í á þeim tíma.

Ég hef til þess að glöggva mig á þeim hlutum og þeirri afstöðu aðeins litið yfir nál. minni hl. landbn. í Ed., þegar stofnlánadeildarlögin voru hér til umr., og ég tek eftir því, að það eru þar 5 atriði sérstaklega, sem varða stofnlánadeildina sjálfa, sem nm. höfðu áhuga fyrir að fá breytt. Minni hl. n. segir: „Við leggjum til, að miklar breytingar verði gerðar á frv. og það fært í þetta horf: 1) Að stofnlánadeild veiti ekki lán framvegis með gengisákvæði“. Ég geri ráð fyrir því, að þeir, sem framsóknarmenn telja sig vera umbjóðendur fyrir nú, hefðu vænzt þess, að þeir hefðu reynt að standa við þetta, en því fer fjarri. Í þessu frv. er blátt áfram tekið fram, að stofnlánadeild landbúnaðarins sé eigi heimilt að endurlána erlent lánsfé, nema með gengisákv. Í annan stað var það ein af þeim breytingum, sem nm. óskuðu eftir að gerð yrði á frv. að felld yrðu niður úr því ákvæði um sérstakan skatt á bændastéttina og enn fremur ákvæði um sérstakt álag á útsöluverð landbúnaðarafurða, en stuðningur ríkissjóðs við stofnlánadeildina aukinn frá því, sem lagt var til í frv. Þessi breyting, sem nm. óskuðu eftir að gerð yrði á frv. er ekki tekin til greina að þessu sinni, heldur eru bæði þessi ákvæði áfram í frv. og gert ráð fyrir að hækka annan liðinn, en halda hinum í horfinu lengur en ætlazt er til í gildandi lögum. Í þriðja lagi lögðu þeir áherzlu á, að upphæð lána til íbúðarhúsa í sveitum mætti nema allt að 75% af kostnaðarverði þeirra. Ekki er farið að ráðum þessum í því frv., sem hér er til umr., því að í þeirri gr., sem fjallar um lánsupphæðir, eru þessi orð: „Upphæð lána má að jafnaði vera allt að 60% kostnaðarverðs, eins og meðalkostnaður sambærilegra framkvæmda er talinn ár hvert. Heimilt er þó, ef sérstaklega stendur á, að veita hærri lán eða allt að 70%, ef ástæða þykir til að örva ákveðna framleiðslugrein á einstöku landssvæði.“ Það er ekki heldur farið eftir till. nm. í þessu efni. Þá er í fjórða lagi lögð á það áherzla, að viðreisnarvextirnir af stofnlánum til landbúnaðar verði lækkaðir og vextir lögbundnir 31/2% af lánum til íbúðarhúsa og 4% af öðrum lánum stofnlánadeildar. Ekki er heldur farið eftir þessum ráðleggingum hv. nm., heldur eru ákvæði gildandi laga tekin upp, ég held alveg orðrétt. Það er á valdi stjórnar Seðlabanka Íslands, ríkisstj. og stjórnar stofnlánadeildarinnar, hver vaxtakjör verða við deildina, aðeins tekið fram, að lán til byggingar íbúðarhúsa skuli vera a.m.k. hálfu prósenti lægri en af almennum lánum deildarinnar. Í fimmta lagi er gerð til þess krafa, að aukið verði að miklum mun fé veðdeildar Búnaðarbankans frá því sem lagt er til í frv., og má segja, að einnig sé um það rætt, að ríkið eigi að leggja fram miklu meira fé en gert er ráð fyrir í því frv., sem rætt var 1962. Það má segja, að slíkar frómar óskir séu skiljanlegar og venjulegar, og því mátti ætla, að við þeim yrði orðið þegar þessi lög voru endurskoðuð. Sannarlega er gert ráð fyrir því, að stofnlánadeildin fái til ráðstöfunar miklu meira fé en hún hefur í ár, þó sýnist mér, þegar ég ber saman eigið ráðstöfunarfé stofnlánadeildarinnar á nokkrum árum, að þetta komi út. Árið 1968 er eigið ráðstöfunarfé stofnlánadeildarinnar 45,2% af útlánum deildarinnar. Ef ég tek svo 1970, þá er eigið fé deildarinnar 45% af útlánum. Ef við litum svo á árið 1973 og miðum við þá fjáröflun, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og miðum þar við ársgrundvöll, þá sýnist mér, að eftir þá fjáröflun muni stofnlánadeildin hafa til ráðstöfunar af eigin fé um 45% af áætlaðri útlánaþörf á árinu 1973, þó skilst mér, að á þessum árum, frá 1968 til 1973, hafi eigið fé stofnlánadeildarinnar vaxið úr um 60 millj. upp í um 280 millj., ef miðað er við ársgrundvöll. Það má segja, að í raun og veru hafi ríkissjóður ekki með þessu frv. stóreflt stofnlánadeildina fjárhagslega, vegna þess að byggingarkostnaðurinn hefur hækkað svo geipilega og þá sérstaklega núna á síðustu árum, að þessar hækkanir, sem gerðar eru, gera ekki nema rétt að hamla við þeirri verðþenslu, sem orðið hefur á þessum tíma. Og það er ekki undravert, þegar maður lítur til þess, að á miðju ári 1971, mun byggingarvísitalan hafa verið eitthvað um 535 stig, en mun sennilega á miðju árinu 1973 verða komin upp undir eða alveg í 800 stig.

Þetta sannar okkur aðeins, að það er ekki alltaf hægt að fara eftir óskalistanum, sem settur er fram, og það er því vænlegast fyrir framsóknarmenn að hafa færri orð um þetta efni í upphafi. Þetta sannar okkur líka, að sú fjáröflun, sem hér er gert ráð fyrir, er sízt meiri en þörf er á. Þess vegna höfum við lagt til, 1. minni hl. landbn., að þessi tekjuöflunaráform verði samþ., eins og fram kemur á okkar nál.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum fleiri orðum um þetta frv., sem hér er til umr. Það hefði verið ánægjulegt að geta í góðu tómi tekið til endurskoðunar á ný þau ákvæði, sem mestu varða fyrir landbúnaðinn í heild, sem eru lána- og skipulagsmálin, en eins og allir vita, gefst ekkert tóm til slíkra hluta. Við höfum ekki enn þá í höndum það sem við þurfum til þess að geta gert okkur fyllilega grein fyrir því, hvað er verið að leggja til í þeim efnum og hvað ekki. En ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér í upphafi máls míns, að það er ekki ætlun okkar, sem stöndum að 1. minni hl. landbn., að tefja á neinn hátt framgang þessa máls. Við viljum aðeins, að það verði gengið þannig frá þessum málum, að við þurfum ekki að fara að leiðrétta mistök, þegar kemur fram að áramótum. Við viljum, að það sé farið hægara í sakirnar en hér er gert ráð fyrir. Við viljum ekki fara að nema úr gildi þau lög, sem okkur hafa reynzt vera góð og gagnleg fyrir landbúnaðinn, án þess að vita, hvað við tekur um næstu áramót. Á þeirri skoðun okkar er byggð till. okkar á þskj. 705, þar sem við leggjum til, að 4. gr. þessa frv. verði samþ. og hún felld inn í lög um stofnlánadeild landbúnaðarins og aðrir hlutir ekki hreyfðir að þessu sinni. Það virðist vera óþarft, því að aðrar breytingar á stofnlánadeildarlögunum sjálfum eru mjög veigalitlar, eins og ég tók fram áðan, en þetta er aðalatriðið. Ég tel mig hafa lýst fjárhagsástandi stofnlánadeildarinnar á þann veg, að það sé brýn þörf að rétta við í fjárhag hennar, a.m.k. að þessu leyti, sem hér er lagt til, og þess vegna viljum við stuðla að því, að það verði hægt.