13.04.1973
Efri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3501 í B-deild Alþingistíðinda. (3030)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal nú reyna að bregðast því ekki, að forsetinn þurfi ekki að syndga mikið upp á náðina, og vil líka gjarnan að umræðunni ljúki.

Ég vil segja varðandi það, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Reykn., Jóns Árm. Héðinssonar, um aðild nefndarsamtakanna að stjórn þessarar deildar, að hún er miðuð við það, að d. hafi stefnumótandi ákvarðanir. Eitt af því, sem hefur verið mjög í umræðum, ekki sízt hjá hans flokki og fleirum, er, að stefnumótun í landbúnaði þyrfti að verða skýrari en verið hefur. Öllum er ljóst, að hvergi getur stefnumótunin verið ákveðnari en einmitt í sambandi við lánveitingarnar. Af þessum ástæðum er talið eðlilegt, að Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélagið hafi áhrif, þegar mörkuð er stefna í lánamálum landbúnaðarins. Það er megingrundvöllur, að þarna geti stefnumótun átt sér stað. Hún á sér raunverulega alltaf stað og þarf að verða ákveðnari en verið hefur, og þess vegna er þetta ákvæði komið inn.

Ég skal svo, til þess að fara ekki að tefja hér tímann, segja út af því, sem hv. 6. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að það er rétt frá hans hendi, að síðari hluti frv., er snýr að Landnáminu, er ekki eins afgerandi og fyrri hlutinn. En ég vil leggja áherzlu á það, að 1. kafli frv. er ein heild og þess vegna gæti ekki komið til greina till. hans og hv. 2. þm. Vesturl. á þskj. 705, því að þær féllu ekki inn í þá stefnumótun, sem gerð er með þessu frv. I. kafli frv. er algerlega ein heild. Um síðari kaflana má segja það, að þeir hafa öðru hlutverki að gegna.

Um Landnámið vil ég aðeins segja það, að ég get tekið undir með hv. 6. þm. Sunnl. að það hefur haft veigamiklu hlutverki að gegna. En eins og nú er komið málum, tel ég, að betur sé fyrir þeim málum séð með því að þeir aðilar, sem fara með meginþætti búnaðarmálanna hér á landi, sem eru Búnaðarfélag Íslands, Búnaðarbankinn og jarðeignadeild ríkisins, sem hefur umfangsmikil mál í sambandi við jarðeignir ríkisins, fari með þau mál að öllu leyti. Þessir þættir skýrast í þeim málum, sem nú hafa verið lögð hér fram, bæði jarðamálið og heykögglaverksmiðjurnar, sem var nýr þáttur og falinn Landnáminu á því stigi, sem hugsað var í upphafi. Af þeim ástæðum tel ég, að það séu eðlileg vinnubrögð í ríkiskerfinu að sameina eins og auðið er skyld verkefni hjá þeim stofnunum, sem fyrir eru, og reyna þannig að draga úr kostnaði við þá þætti, sem ríkið hefur með að gera. Ég skal svo aðeins undirstrika það, að brýna nauðsyn ber til að auka fjármagn stofnlánadeildarinnar og að auka eins og stefnt er að nú, eigið fjármagn stofnlánadeilda atvinnuveganna yfirleitt. Við tryggjum ekki eðlilega afkomu atvinnuveganna, nema það sé gert. Þess vegna eru þau frv. flutt, sem hér hafa verið til meðferðar í hv. d. í sambandi við fiskveiðasjóð og iðnaðinn, og þetta er þriðji þátturinn, sem gengur í sömu átt. Ekkert er okkur jafnnauðsynlegt og að tryggja fjárhagslega undirstöðu atvinnuveganna. — Svo skal ég ekki orðlengja þetta meira.