14.04.1973
Sameinað þing: 72. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3528 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

19. mál, olíuverslun

Frsm. meiri hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Þegar ég var að tala um flókið mál, átti ég ekki við, að það væri flókið mál að skipa n., það er ákaflega einfalt verk að leggja til að skipa n. Ég átti við, að það væri dálitið flókið mál að taka afstöðu til þess, hvort viturlegt væri að sameina olíufélögin ekki eða hvort nokkuð væri unnið við að gera það. Það er ósköp auðvelt verk að leggja til að skipa n. En ég held nú satt að segja, að það sé alveg nóg af n. í landinu og jafnvel of mikið og hefði jafnvel verið meira þarfaverk að koma með till. um eitthvað af n., sem ætti að leggja niður. Það er e.t.v. nauðsynlegt að hafa eitthvað af n. starfandi, en ég held, að það sé allt of mikið af þeim.

Hv. þm. Pétur Pétursson var að tala um, að það væru 3 dælur sums staðar. Vafalaust er þetta alveg hárrétt. Það eru meira að segja fleiri en 3 dælur, þær skipta mörgum tugum í stærri bæjum, sem betur fer. En er þetta ekki sú þjónusta, sem fólkið vill. Ég get sagt ykkur, að fólk vill t.d. hafa meira en eina verzlun, og það er misjöfn afgreiðsla í þessum dælustöðvum. Ég veit, að í því byggðarlagi, þar sem ég er, er ekkert sambærilegt, hvað sums staðar er auðveldari og betri afgreiðsla en annars staðar, og þetta skapar visst aðhald fyrir þá, sem inna þessa þjónustustarfsemi af hendi, að hafa það ekki allt á einni hendi. En ef það væri á einni hendi, væri hægt að sýna viðskiptamönnunum svo að segja hvað mikla stífni sem væri, þeir gætu ekki farið neitt annað, þannig að einmitt fólkið sjálft vill ekki hafa viðskiptin á einni hendi. Það mætti e.t.v. tölulega segja, að væri einhver vinnusparnaður að hafa ekki nema eina verzlun, t.d. í minni byggðarlögum. En fólkið vill þetta ekki sjálft. Það vill hafa frjálsræði til þess að velja, hvar það eigi viðskipti. Ég er þeirrar skoðunar líka, mér þykir það betra að verða ekki að búa við skilyrðislaust einn stað með þjónustustarfsemi. Við getum bara tekið bankana. Ef á að leggja einhverja lánastofnun niður, er meira og minna deilt um það, og jafnvel enginn vill fallast á það. Það er af því, að fólkinu finnst þessi þjónusta betri á þessum stað en öðrum.

Þetta er ekki einfalt. Hitt er svo annað mál, að ég skil ekki annað en að málinu sé vel borgið. Viðskrh. er búinn að lýsa því yfir, að hann ætli að skipa eina n. enn, hvort sem hún verður til nokkurs gagns eða ekki, það er annað mál. Og eins og ég tók fram, hef ég ekki tekið endanlega afstöðu til málsins. En ég hef satt að segja ákaflega litla trú á því, að verði peningasparnaður að því, þó að þetta verði allt sett á eina hönd, því að það er búið að setja þetta kerfi upp, það verður að athuga það. Svo skulum við líka gæta að því, að það er strangt verðlagseftirlit með þessu og olíufélögin verða að leggja fram sína rekstrarreikninga og viðskrh. og hans trúnaðarmenn hafa þetta alveg í hendi sér. Ríkið annast heildsöluinnkaupin, það er bara dreifingarkerfið, sem menn taka að sér. Og spurningin er þá þessi: Verður sparnaður að því fyrir ríkið að fara að taka þetta eignarnámi, —- sem yrði vafalaust tekið eftir mati af olíufélögunum, — og taka það á eina hendi, og verður þjónustustarfsemin betri? Ég er í vafa um það. Ég er ekkert að vefengja það, að viðskrh. muni skipa þessa n. En hitt er ég í meiri vafa um, hvort hún geri nokkurt gagn eða vinni fyrir mat sínum.