14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3533 í B-deild Alþingistíðinda. (3084)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað frv. þetta á milli 2. og 3. umr., og niðurstaða n. er sú, að hyggilegast muni vera, til þess að mál þetta nái fram að ganga á þessu þingi, að fella niður allt nema I. kafla frv. Brtt. á þskj. 736 eru miðaðar við það, að aðeins 1. kafli frv. nái fram að ganga og brtt. okkar er því miðuð við breytingar á gildandi löggjöf um stofnlánadeild landbúnaðarins og byggingar í sveitum. Auk þessa leggur meiri hl. n. til, að gerðar verði orðalagsbreytingar á 5. gr. frv., þ.e. að þar komi tveir nýir liðir, sem eru orðaðir til samræmis við fyrstu 3 liði till., sem þar eru, þannig að orðin „enn fremur skal“, sem síðar eru í þessari gr., falli niður, en sama orðalag á öllum liðum till., þ.e.a.s. að stofnlánadeildin veiti lán til eftirtalinna verkefna: til jarðakaupa, til nýbygginga, til ræktunar, til vinnslustöðva og til heykögglaverksmiðja. Þarna er enginn orðalagsmunur á.

Þá er enn fremur tekið upp ákvæði til bráðabirgða, og það er varðandi 1. lið 5. gr. 1. liður 5. gr. I. kafla l. kemur ekki til framkvæmda, fyrr en ákvæðum laganna um veðdeild Búnaðarbanka Íslands hefur verið breytt til samræmis við lög þessi.

Ég hef þá lýst þeim breytingum, sem n. leggur til, og ég vænti, að hv. þd. geti fallizt á að samþ. þær.