14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3535 í B-deild Alþingistíðinda. (3092)

220. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur haft mál þetta til meðferðar og er sammála um að mæla með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að fylgja og flytja brtt. Auður Auðuns var fjarstödd afgreiðslu málsins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að skýra þetta frv. ítarlega nú, það hefur þegar verið gert. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að meginbreytingar frá gildandi l. samkv. þessu frv. eru þessar: Í fyrsta lagi: Lagt er til, að l. taki einnig til þeirra opinberra starfsmanna, sem ráðnir eru með skemmri en 3 mánaða uppsagnarfresti, þ.e.a.s. til svokallaðra lausráðinna starfsmanna. Í öðru lagi: Lagt er til, að heildarsamtök opinberra starfsmanna, sem hlotið hafa viðurkenningu fjmrh., hafi samningsaðild og geri aðalkjarasamninga. Hér er talað um aðalkjarasamninga, þ.e.a.s. það er gert ráð fyrir, að heildarsamtökin geri nokkurs konar rammasamninga. Þriðja meginbreytingin er fólgin í því, að einstök aðildarfélög semji um skipan manna og starfsheita í launaflokka og nokkur önnur atriði. Þarna er því aðildarfélögunum fengið vald í hendur til þess að semja um skipan manna og starfsheita í launaflokka.

Það er ekki tekið fram í þessu frv., hvaða heildarsamtök opinberra starfsmanna fái samningsrétt. Samkv. gildandi l. hefur einungis Bandalag starfsmanna ríkis og bæja samningsréttinn. En það er gert ráð fyrir, að með samþ. þessa frv. verði Bandalagi háskólamanna einnig veitt samningsaðild, þó að það sé ekki tekið fram í frv. sjálfu. Um margra ára skeið hefur það verið baráttumál Bandalags háskólamanna að fá sérstakan samningsrétt. Þessi samtök hafa ekki talið sig eiga samleið með Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og fært sterk rök fyrir því sjónarmiði, sem nú hafa verið viðurkennd af fjmrh. með framlagningu þessa frv.

Ég tel fyrir mitt leyti, að hér sé um verulega bragarbót að ræða frá gildandi l., og fagna því, að þessi samtök háskólamanna skuli nú eygja þann möguleika að fá samningsrétt og hafi í raun og veru fullkomið loforð fyrir því, eins og fram hefur komið í ummælum í fjmrh. á Alþ. við umr. um þetta mál.

Það er rétt að vekja athygli á því, að í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir, að Læknafélag Íslands fái rétt til þess að semja fyrir sína félagsmenn. Er þetta ákvæði undantekning frá hinni almennu reglu, um að það verði aðeins tvö heildarsamtök, sem hafi samningsréttinn fyrir aðalsamninga. Bandalag háskólamanna mun hafa lagt áherzlu á það, að öll sérfélög bandalagsins fengju þennan sérstaka samningsrétt, en á það var ekki fallizt, og mun þetta ákvæði um Læknafélag Íslands vera nokkurs konar málamiðlunarleið í þessu efni.

Í grg. með frv. þessu er gerð grein fyrir n. þeirri, sem samið hefur frv., og hlutverki þessarar n. Það kemur í ljós, að n. hefur ekki lokið störfum sínum. Það má benda á eitt atriði, sem gert er ráð fyrir, að n. taki til meðferðar, en hún hefur ekki enn þá skilað áliti um, en það er að veita opinberum starfsmönnum fullan verkfallsrétt, eins og það er orðað í málefnasamningi ríkisstj. Mér skilst, að það hafi verið erfitt að vinna að þessu máli vegna þess að það hafi ekki komið fram enn, hvað er meint með fullum verkfallsrétti. Málið er flókið á margan hátt,

því að ýmsir þeir, sem vilja fá verkfallsrétt til handa opinberum starfsmönnum, munu vilja halda því skipulagi, að embættismenn ríkisins fái æviráðningu. Öðrum finnst hins vegar, að ef verkfallsréttur er veittur, verði að hverfa frá þeirri skipan, sem nú er, og ráða embættismenn ríkisins heldur til ákveðins tíma, styttri tíma.

En það veldur hæstv. ríkisstj. sjálfsagt nokkrum höfuðverk, hvernig hún hyggst framkvæma þessi óljósu fyrirheit, sem ekki fást nú upplýsingar um, hvað þýða í raun og veru. En ég skal ekki fara að fjölyrða um það hér. Nóg er af slíkum vandamálum, þótt þetta sé látið kyrrt liggja í bili. Ég ítreka það, að n. er sammála um að mæla með samþykkt frv.