14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3538 í B-deild Alþingistíðinda. (3095)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Heilbr: og trn. hefur fjallað um frv. til l. um heilbrigðisþjónustu. Það hefur staðið stutt við í n. af eðlilegum ástæðum. Það er nýkomið til þessarar hv. d., en hefur verið til þeim mun rækilegri athugunar í Nd. N. var það fullljóst, að það var mjög áríðandi, að n. skilaði sem fyrst frá sér nál., svo að frv. gæti sem fyrst komið til 2. umr.

Þar sem þetta frv. er öllum þdm. mætavel kunnugt, skal ég ekki hafa um það langa framsögu, sér í lagi vegna þess, að það er sérstakt áhugamál, að þetta frv. komist í gegn, og þá einnig, að það taki ekki breytingum í þessari d., — það er mitt sjónarmið, — svo að því sé ekki stefnt í tvísýnu með þeim hætti. N. afgreiddi þetta mál hins vegar frá sér á þann hátt að mæla með samþykkt frv., en einstakir nm. áskildu sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kæmu.

Það er staðreynd, að þetta frv. er sérstaklega vel undirbúið, og það er einnig staðreynd, að um það hafa mjög margir fjallað nákvæmlega. Og það fer ekkert á milli mála, að þetta frv. er með merkustu málum þessa þings, svo að ekki sé meira sagt.

Þessu frv. til grundvallar liggur vitanlega það alvarlega ástand mála, sem ríkt hefur, einkanlega víða úti á landsbyggðinni, og að því þarf ekki orðum að eyða. Í þessu frv. er verið að leggja út á nýja braut, sem á, ef vel tekst til, að geta valdið umskiptum, en að því er einmitt stefnt með þessu frv.

Ég held, að það sé orðið öllum fullkomlega ljóst, að hið fyrra kerfi heilbrigðismála var ekki lengur nothæft, það fylgdi ekki lengur tímans rás. Hér er því verið að gera tilraun til þess að byggja upp nýtt kerfi, heilsugæzlustöðvar með tilheyrandi starfsliði, sem eru hiklaust betur færar um að gegna hlutverki sínu í nútíma heilbrigðisþjónustu en núgildandi skipan héraðslækna gerir ráð fyrir. Það er alkunn staðreynd, að allt framtíðarstarf í heilbrigðismálum miðast nú einmitt að því að reyna að koma í veg fyrir sjúkdómana, komast fyrir þá með fyrirbyggjandi aðgerðum, í stað þess að fást fyrst og fremst við lækningu sjúkdóma.

Þetta frv. er samið í anda þessarar stefnu, sem nú er stefnt að í enn ríkari mæli en nokkru sinni fyrr. Á heilsugæzlustöðvunum er einmitt ætlunin að hafa eins gott eftirlit með fólki og frekast er hægt, til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma. Nú er ég ekki með þessum orðum að segja, að héraðslæknarnir okkar hafi ekki sinnt þessu hlutverki sínu á þann máta, sem þeir hafa bezt getað, en ég tel alveg einsýnt, að heilsugæzlustöðvarnar, sérstaklega með sínu aukna starfsliði, muni á allan hátt geta betur staðið að þessum málum en hingað til hefur verið.

Ég ætla mér ekki að fara að tíunda ástandið í heilbrigðismálum landsbyggðarinnar. Það er víða hörmulegt og á sér margar ástæður. Ég held t.d., að þar geti sjálf læknastéttin ekki skotið sér undan ábyrgð. Ríkisvaldið hefur e.t.v. einnig verið fullseint á sér að fylgjast með þeirri þróun, sem orðið hefur í þessum efnum. Og vel kann svo að vera líka, að heimaaðilar hafi ekki verið nógu vökulir til framfara og umbóta, og svo mætti lengi telja. Það er hins vegar vitað, að eftir samþykkt þessa frv. er víða beðið með óþreyju. Ég vona það eitt, að það verði nú að lögum og að síðan megi í kjölfarið fylgja framkvæmdir eftir anda laganna, og að því er einnig stefnt.

Ég skal ekki orðlengja um efni frv. Ég vil aðeins geta þess, að n. kynnti sér umsagnir og athugasemdir um frv. frá því að það var til umr. í Nd. Ég vil geta þessara umsagna og athugasemda.

Félag ísl. sjúkraþjálfara sendi álit til okkar, þar sem þeir óskuðu eftir því, að orðið sjúkraþjálfun yrði sérstaklega tekið inn í 21. gr. ásamt annarri smábreytingu.

Félag yfirlækna sendi okkur töluvert mikla umsögn um nánari skilgreiningu á hlutverki yfirlækna, ásamt ýmsum öðrum breytingum. Skoðun mín er sú, að hafi bæði þessi atriði — ég hef ekki kynnt mér það nægilega vel, — ekki þegar komið fram í Nd. að einhverju eða öllu leyti, séu þau býsna seint á ferðinni. Ég furða mig á því, ef þessi tilteknu atriði hafa ekki verið komin fram. Ég sá ekki, að svo hefði verið, N. tók ekki afstöðu til þessara athugasemda og tók þær ekki heldur upp sjálf.

Fjórðungssamband Norðlendinga sendi inn töluverða umsögn um þetta mál, en sú umsögn var í raun og veru aðallega athugasemdir við brtt. hv. heilbr.- og trn. í Nd. Ég satt að segja sá ekki mikla ástæðu til þess að fara nákvæmlega yfir það, en þær lutu einna helzt að ýmsum breytingum varðandi aukna aðild heimamanna að stjórn heilsugæzlustöðva.

Eins var send inn beiðni til okkar um orðalagsbreytingar frá Elínu Eggerz Stefánsson. Þar eru mörg atriði, sem sum eru að vísu óskyld þessum l. að nokkru.

Ég vil aðeins geta þessara umsagna hér, til þess að þær komi fram. Við höfðum að sjálfsögðu ekki tíma eða tök á því að kynna okkur þá miklu bunka, sem lágu fyrir af umsögnum og athugasemdum við frv. frá Nd. og heilbr: og trn. þeirrar deildar var búin að fjalla ákaflega vel um. Ég segi fyrir mig, að ég treysti því ágæta fólki, sem þar er, fullkomlega til þess að hafa farið í gegnum þær nægilega og sá ekki, að við í þessari n. gætum nokkuð bætt þar úr með lauslegri skyndiyfirferð á þeim umsögnum og athugasemdum.

Aðalsjónarmið mitt í n. var og er enn að koma málinu fram. Ég get engan veginn dulið þann ótta minn, að ef breytingar verða gerðar á þessu frv. hér, þarf að endursenda það til Nd. aftur og svo kannske enn til okkar, og þá tel ég því teflt í nokkra tvísýnu. Ég dreg enga dul á það, að ég sé t.d. út af fyrir sig alls ekki ástæðu til breytinga, allra sízt á þeim atriðum, sem tilmæli bárust sérstaklega um til n., þar sem ekki fólust nein stórvægileg nýmæli. En nm. hafa sem sagt óbundnar hendur. Ég er hér aðeins til þess að flytja eða fylgja brtt., og brtt. hafa skiptingu í rn. og menntun ráðuneytisstjóra, þegar komið fram.

Mig langar aðeins til að benda á það í sambandi við þetta, að í Nd. voru útkljáð mörg mjög afgerandi atriði varðandi þetta mál. Þar voru t.d. útkljáð atriði eins og spurningin um deildaskiptingu í rn. og menntun ráðuneytisstjóra, þar sem frv. var breytt. Það er alls ekki ætlunin að taka þau atriði á nokkurn hátt aftur upp í þessari d. Þar var einnig samþ., að þær heilsugæzlustöðvar, þar sem lakast ástand væri, skyldu hafa forgang. Og þar kom einnig inn heimild fyrir ráðh. að fjölga heilsugæzlustöðvum með reglugerð, ef þróunin leiddi í þá átt, — heimild, sem að mínu viti, ætti að róa þá órólegustu í þessum efnum. Og síðast, en ekki sízt, var samþ. í Nd., að fresta gildistöku annars kafla laganna.

Ég vil einnig láta það koma hér fram í sambandi við þetta, að ráðh. lýsti því yfir í Nd., að endurskoðun á II. kafla l. yrði unnin í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, áður en það yrði lagt fyrir Alþ. á nýjan leik. Ég vil einnig minna alveg sérstaklega á þá yfirlýsingu hæstv. heilbr. og trmrh. í Nd., að þar sem ljóst væri, að í nokkrum héruðum væri langt til heilsugæzlustöðva, yrði sett reglugerð um það, hvernig læknisþjónustu fyrir þau héruð yrði sem bezt fullnægt og hvernig læknar ættu að annast þjónustu við þau héruð. Og það kom einnig fram í yfirlýsingu ráðh. þá, að reyndist læknisþjónusta ekki fullnægjandi, yrði beitt ákvæði um fjölgun heilsugæzlustöðva. Þessar yfirlýsingar tel ég mjög mikilvægar, einmitt með tilliti til brtt. um einstakar stöðvar, og reyndar fleiri brtt., sem hafa komið fram.

Ég verð aðeins að láta þá skoðun í ljós, þó að ég ætli ekki að fara að leggja dóm á neina einstaka brtt., sem hér hefur komið fram, að í samræmi við þá afstöðu mína, sem ég lýsti áðan, að ég teldi frv. teflt í tvísýnu með hverri þeirri breytingu, sem hér kynni á að verða, mun ég að sjálfsögðu greiða atkv. gegn þessum brtt. Ég vil aðeins segja það, að það er mín skoðun, að það sé vafasamt, að nokkrum sé greiði gerður með fjölgun stöðva, sem ekki eiga sér í raun og veru raunhæfan grundvöll. Við vitum það, að lögin hafa átt að vera í þjónustu þessara sömu staða, en hafa bara ekki gagnað. Þau hafa aðeins verið sem dauður bókstafur í sumum þessara héraða um fjölda ára. Því væri auðvitað skynsamlegra, þar sem læknir fæst ekki, að reyna að fá lækna frá heilsugæzlustöðvunum, sem yrðu að þjóna þessum héruðum sem allra bezt, og síðan að fylgja þróuninni eftir, ef möguleiki væri að halda þessu opnu og byggja þá þessar stöðvar upp í framtíðinni, ef þróunin leiddi í ljós, að mögulegt væri að fá þangað lækna. Ekki efa ég, að hver heilbrrh., sem um þessi mál á eftir að :fjalla, mundi eindregið stuðla að því, að svo mætti verða, þegar það lægi ljóst fyrir, að til þessara héraða fengjust læknar, og hægt væri að byggja upp heilsugæzlustöðvar með raunhæfum hætti. Ég ætla engum heilbrrh. annað en að leggja áherzlu á það og gera það.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa framsögu mína hér miklu lengri. Ég lýsi yfir eindregnum stuðningi mínum við þetta frv. Ég er sannfærður um, að hvað sem þróun þessara mála á eftir að leiða í ljós og hvernig sem þessi mál eiga eftir að þróast, — að sjálfsögðu munu þau gera það, á meðan á framkvæmd þeirra stendur verði þau að l., — að hér er verið að stíga stórt spor í þá átt að reyna að tryggja landsbyggðinni betri þjónustu en hún hefur haft og ráða bót á því neyðarástandi, sem víða hefur verið. Ég ítreka það svo aðeins, að n. mælir með samþykkt frv., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.