14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3544 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að ræða efnislega þetta frv., sem hér er til meðferðar, þó að það væri vissulega freistandi. Hér er um mjög merkilegt mál að ræða, og þó að ýmislegt megi vitanlega að því finna, eins og öllum mannanna verkum, hygg ég, að taka megi undir það með hv. frsm. heilbr.- og trn., að það feli í sér merkilega stefnu. Eftir endurbætur þær, sem voru gerðar á frv. í Nd., þar sem nokkuð voru lagfærðir ótvíræðir gallar, sem á frv. voru, verður að telja, að það hafi færzt í jákvæðara horf.

Hugsunin um heilsugæzlustöðvar er auðvitað algerlega rétt. Það hefur sýnt sig í þróun þessara mála, að það getur verið illmögulegt að byggja upp fullkomna læknisþjónustu víðs vegar um landið og fá lækna til að sinna þar ýmsum mikilvægum störfum, ef þeir hafa ekki slíka aðstöðu sem heilsugæzlustöðvar veita og geta ekki unnið þar saman, eins og er gert ráð fyrir. Ég held hins vegar, að það hafi verið dálítið hæpið, og um of kaldranalega að því gengið, þegar læknishéruðum og þessum svokölluðu heilsugæzlustöðvum var raðað niður. Þótt það verði nokkur breyting gerð á því, enda var það nokkuð gert í hv. Nd., held ég ekki, að það eigi að þurfa að tefla þessari löggjöf eða því kerfi, sem hún byggir á, í hættu. Það mun þá sýna sig með þessa framkvæmd eins og þá fyrri, hvort auðið er að fá lækna á þessa staði. Þetta er geysilegt tilfinningamál víða, og ég held, að þetta hafi ekki verið litið þeim augum, sem rétt hefði verið, með hliðsjón af hugsunarhætti og kvíða fólksins í þeim umdæmum, sem gert er ráð fyrir að leggja niður. Ég held því, að það eigi ekki að geta teflt þessu máli neitt í hættu, þó að smávægilegar breytingar séu gerðar á umdæmum, og trúi því ekki, að það sé svo naumt með þetta mál, enda er hv. Nd. búin að hafa það svo lengi til meðferðar, að hún ætti ekki að þurfa að fara að fást við það aftur. Það er frekar hægt að ætlast til, að hún láti það afskiptalaust, en að við hér í Ed. leyfum okkur ekki að gera á því smávægilegar breytingar, eftir að hafa haft það hér aðeins í fáeina daga til meðferðar. Eftir að hafa séð þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í Nd., finnst mér ekki ósanngjarnt, þó að við ætlumst til þess, að skoðaðar séu og raunar samþykktar vissar lagfæringar, sem við teljum nauðsynlegt að gera á málinu. Það er áreiðanlega ekki í huga neins okkar, sem að þessum till. standa, að vega að málinu í heild sem slíku, síður en svo, heldur aðeins að lagfæra á því annmarka, sem gætu bæði valdið vandræðum og orðið til stórfelldra leiðinda og tjóns.

Við 4. þm. í þessari hv. d. höfum leyft okkur að flytja hér eina brtt., sem ég vek athygli á, á þskj. 717, en hún er um það að taka inn Kópaskersumdæmi. Það er gert ráð fyrir, að heilsugæzlustöð sé á Húsavík og svo ekki fyrr en austur á Þórshöfn. Hér er um geysilega víðáttumikið umdæmi að ræða, en samgönguerfiðleikar eru því miður enn þá miklir þarna. Að vísu hafa samgöngur úr Kelduhverfi til Húsavikur batnað en engu að síður er það svo og getur verið langtímum saman, að ófært sé austur í Kelduhverfi og Axarfjörð. Því er það skoðun, ekki aðeins okkar, heldur fólks heima fyrir, að það væri mjög uggvænlegt, ef Kópaskersumdæmi sem slíkt yrði lagt niður. Það merkir auðvitað ekki, að fólk úr slíkum umdæmum geti ekki, meðan þar fæst ekki læknir, leitað til nágrannaheilsugæzlustöðva, enda gert ráð fyrir því í frv., og að sjálfsögðu verður engin breyting í því efni. En við leyfum okkur að leggja það til og væntum þess, að hv. d. geti á það fallizt, að Kópaskersumdæmi verði ekki fellt niður.

Við leggjum ekki til, að Raufarhafnarumdæmi sé tekið upp aftur, vegna þess að samgöngur til Þórshafnar hafa batnað að miklum mun með nýlegum vegagerðum þar, þannig að hér er vissulega ekki sýnd nein ósanngirni varðandi þá lagfæringu, sem við leggjum hér til. Það er ekki gerð krafa um að fara að taka upp aftur öll læknishéruð, sem um ræðir á þessu svæði.

Ég skal taka það fram, að í Kópaskeri er ágæt aðstaða. Þar er læknisbústaður mjög prýðilegur og aðstaða öll í bezta lagi, þannig að það er ekki neinn sérstakur kostnaður, sem þyrfti að leiða af því, að þetta umdæmi væri látið halda sér. Það hefur verið ýmist, að læknir hefur setið á Raufarhöfn eða á Kópaskeri, en hins vegar verið mikil nauðsyn, að læknir væri á öðrum hverjum staðnum og úr því að Raufarhafnarumdæmi er lagt niður, er það ótvírætt. Það gæti valdið, vil ég fullyrða, miklum vandræðum, ef ekki væri opinn möguleiki til þess, ef til þess fengist læknir og tilsvarandi starfslið, að Kópasker yrði viðurkennt sem heilsugæzlustöð í þessum lögum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta frekar. Þetta skýrir sig mjög sjálft, og ég veit, að allir hv. þdm. eru það kunnugir staðháttum á þessu norðausturhorni landsins, þar sem fólk á vissulega á margan hátt við örðugleika að stríða í samgöngum og á annan hátt, að ég treysti því, að hv. d. geti fallizt á þá brtt. okkar, sem ég hef gert að umtalsefni.