14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3547 í B-deild Alþingistíðinda. (3100)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég er komin hingað í pontuna til þess að gera grein fyrir lítilli brtt., sem ég ásamt hv. 1. landsk. þm., Eggert G. Þorsteinssyni, flyt við heilbrigðisþjónustufrv. Ég skal ekki lengja hér umr. með því að ræða um sjálft frv. í heild né heldur í einstökum atriðum. Það er að sjálfsögðu erfitt að semja slíkt frv., svo að allir telji sig mega vel við una, og þarf engan að furða, þó að fram komi ýmsar brtt. við það. Ég vil þá um leið lýsa ánægju minni yfir þeim breytingum, sem frv. tók í Nd. Alþ., þar sem sniðnir voru af því verulegir vankantar, sem voru líka mikið ágreiningsmál. En ég skal svo ekki eyða fleiri orðum að frv. sjálfu almennt, en snúa mér að brtt.

Þegar málið var til umr. og meðferðar í hv. Nd., var gerð sú breyting á 26. gr. frv., sem nú er, að vikið var við orðalagi og bætt aftan við hana ákvæði um það, að í reglugerð þeirri, sem um ræðir í 26.2, skuli ákveðið, að í hverju læknishéraði skuli vera a.m.k. eitt sjúkrahús samkv. 2. tölul. í 26.1, þ.e.a.s. deildaskipt sjúkrahús, að geðdeild undanskilinni. Þetta ákvæði um að undanþiggja geðdeild mun af þeim hv. þm., sem fyrstur flutti brtt. um þetta í Nd., hafa verið sett inn af ótta við það, að ef ætti að fastbinda það, að einnig væru geðdeildir í sjúkrahúsunum, þá mundi það tefja fyrir, að upp kæmust slík deildaskipt sjúkrahús. Út af fyrir sig get ég fallizt á þá skoðun, að það eigi ekki að gera það að skilyrði, að geðdeild sé við þessi sjúkrahús. En að útiloka þær, eins og gert er með þessu orðalagi, það tel ég og við fleiri ekki vera rétta stefnu, þó að hins vegar sé ekki alls staðar hægt að koma því við að hafa slíkar deildir. Við höfum þess vegna flutt þessa brtt. á þskj. 710 um, að niður falli orðin: „að geðdeild undanskilinni“ og í staðinn komi: með þeim deildum, sem þar eru taldar og við verður komið, — þ.e.a.s. með þeim deildum, sem taldar eru í 26.1 tölulið 2. Það eru — er manni sagt og erfitt fyrir leikmenn um að dæma þar um — skiptar skoðanir um það, hvort geðdeildir skuli vera við almenn sjúkrahús eða hvort geðlækningar skuli fara eingöngu fram í sérhæfðum sjúkrahúsum. Þess er skemmst að minnast, að það varð töluvert hitamál hér í Reykjavik, þegar keypt var húseign inni í íbúðarhverfi til afnota fyrir geðsjúkrahús, þ.e.a.s. fyrir sjúklinga, sem talið var, að ættu ekki að þurfa að dveljast inni í spítölum, en vera þó að vissu leyti undir eftirliti geðsjúkrahúss eða geðsjúkralæknis. Þetta vakti töluverðar deilur og fólk í nágrenninu undi því illa að fá þetta vistfólk í bústað í íbúðarhverfinu. Það hafa verið sögð mörg orð og hörð um þessa þröngsýni o.s.frv. En það hefur nú kannske ekki verið ástæða til þess fyrir alla að vera mjög harðorðir, því að öll erum við áreiðanlega haldin nokkrum fordómum einmitt varðandi geðsjúkdóma, en sem betur fer eru þeir fordómar á undanhaldi að maður vonar, enda barizt fyrir því líka, að svo verði. Um þá stefnu í heild má segja það, að hún er dæmi þeirrar viðleitni, sem skýtur víða upp kollinum og vinnur óðum fylgi, að einstaklinga, sem eru á einhvern hátt afbrigðilegir, eigi ekki að setja inn á sérstofnanir, nema þar sem slíkt er nauðsynlegt, svo sem auðvitað er í ýmsum tilfellum.

Ég vænti þess, að menn geti fallizt á þessa litlu brtt., og ég sé ekki, að hún geti valdið nokkrum ágreiningi. Ég hef rætt við hv, þm. Karvel Pálmason, sem fyrstur flutti brtt. um þetta í Nd., og hann út af fyrir sig kvaðst vera því fyllilega samþykkur, að slík breyting sem þessi yrði gerð, því að fyrir honum hefði vakað þetta, sem ég gat um í upphafi, að ef fortakslaust ætti að ákveða, að geðdeild væri við sjúkrahúsin, þá gæti það tafið fyrir því, að þau kæmust upp.

Við flytjum þessa brtt. nú við 2. umr. En vegna þess að það var ráð fyrir því gert, að n. liti eitthvað nánar á frv. milli 2. og 3. umr., vildum við flm. kynna till. við þessa umr., en tökum hana aftur til 3. umr. og þá væntanlega til athugunar í heilbr.- og trn. milli umr.