14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það, að hér er á ferðinni hið merkilegasta frv., sem skiptir sköpum á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustunnar, en um leið dylst mönnum ekki, að um er að ræða mjög viðkvæmt mál, sem fólk lætur sig miklu skipta, hvernig fer um. Ég ætla ekki að ræða hér almennt um frv., heldur fyrst og fremst ræða hér um eitt atriði þess, þ.e.a.s. heilbrigðisþjónustuna í Austur-Húnavatnssýslu. Ég get farið fljótt yfir sögu með því að segja, að það veldur ýmsum áhyggjum þar um slóðir, að ekki er gert ráð fyrir því, að neinn læknir sé staðsettur á Skagaströnd, heldur sé aðeins heilsugæzlustöð á Blönduósi. Hér er um mjög stórt byggðarlag að ræða, sem hefur haft lækni allt fram undir síðustu ár. Það eru aðeins örfá ár síðan læknir var þar síðast, og þar eru auk þess tveir sveitahreppar, sem njóta þjónustu og ættu að njóta þjónustu frá læknissetri á Skagaströnd. Þar við bætist, að hér er um að ræða snjóþungt svæði, þar sem mjög oft er erfitt að komast um að vetrarlagi, og það er að sjálfsögðu alveg sérstaklega varhugavert, að ekki sé gert ráð fyrir læknisþjónustu á Skagaströnd eða staðsetningu læknis þar, þegar þar við bætist, að þar er um að ræða eina helztu höfn þessa svæðis og talsverða útgerð og oft um það að ræða, að læknir þurfi að sinna veikindum meðal skipshafna. Í þessu efni eru fyrst og fremst tvær leiðir, sem koma til greina, þ.e. að sett sé upp heilsugæzlustöð af minni gerðinni á Skagaströnd eða þá í öðru lagi að gert sé ráð fyrir því, að læknir sé ráðinn að Blönduósstöðinni með búsetu og starfsaðstöðu á Skagaströnd. Eins og mál eru nú komin og að vandlega hugsuðu máli hef ég kosið að reyna að stuðla að því,að hin síðari leið verði farin, og hef flutt till. um það efni. Ég hef flutt þá till., að það sé heimilt að ráða lækna að heilsugæzlustöð með búsetu og starfssviði utan stöðvarinnar, þar sem núverandi aðstaða leyfir.

Nú hefur verið felld till. í Nd. um að staðsetja heilsugæzlustöð á Skagaströnd, og þar sem mér virðist ljóst, að ef till. um það efni verður samþ. hér í d., þá geti hafizt togstreita milli deilda út af þessu máli og þá geti frv. verið í mikilli hættu, hef ég m.a. þess vegna eindregið valið hina síðari leið. Í þessu frv. eru, eins og ég gat um áðan, ýmis önnur mjög mikilvæg ákvæði, og ég vil síður en svo verða til þess að bregða fæti fyrir frv. með því að stuðla að því, að d. geti ekki komið sér saman um efni þess og það dagi því uppi. Auk þess verð ég að segja, að ég tel mig ekki geta verið í raun og veru þekktan fyrir að knýja fram á þessu stigi málsins heilsugæzlustöð á Skagaströnd, en neita á sama tíma að samþykkja heilsugæzlustöðvar t. d. á Kópaskeri, Bíldudal, Hveragerði, Eyrabakka eða á fjöldamörgum öðrum stöðum, þar sem óneitanlega hlýtur sterklega að koma til greina, að slík þjónusta sé staðsett. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að aðstæður í Austur-Húnavatnssýslu eru ekki þess eðlis, að þar sé þetta mest vandamál á öllu landinu, og það væri því fullkomlega órökrétt að fara að samþykkja heilsugæzlustöð á Skagaströnd, en neita stöðum, sem kannske búa við enn alvarlegri vandamál í þessum efnum, um sömu þjónustu. Auk þess er það ljóst, að ef farið yrði að samþykkja mjög margar heilsugæzlustöðvar til viðbótar við þær, sem samkomulag hefur náðst um, þá væri sem sagt verið að rifta því samkomulagi, sem er ríkjandi, og þeirri stefnu, sem hefur verið mótuð, og. væri þá enn frekar hætta á því, eins og ég hef áður tekið fram, að frv. yrði eyðilagt á síðustu stundu. En ráðh. hefur heimild til þess að bæta við heilsugæzlustöðvum, ef þurfa þykir og ef unnt er að fá lækna á slíka staði. Ég treysti því eindregið, að slík heimild verði notuð, ef aðstæður verða fyrir hendi, til þess að sú heimild megi koma að gagni.

Ég tel það að sjálfsögðu augljóst mál, eins og ég hef þegar tekið fram, að það sé mjög öndvert hagsmunum þeirra, .sem búa í utanverðri Austur-Húnavatnssýslu, að þar sé enginn læknir staðsettur. Á það hefur verið bent, að enginn læknir hefur fengizt á þann stað nú um nokkurra ára skeið og að samgöngur muni batna milli Blönduóss og Skagastrandar á næsta sumri við það, að þar verði byggðar þrjár brýr, og þá muni þetta verða allt miklu auðveldara viðfangs en það hefur verið á undanförnum árum. Ég get fúslega viðurkennt það, að með þessi rök í huga er ekki víst, að sérstök heilsugæzlustöð á Skagaströnd yrði nein lausn fyrir þann stað. Ég tel, að margt bendi til þess, að erfiðara yrði að fá mann til þess að gegna einni stöðu á þeim stað, ef hann væri einangraður á sérstakri heilsugæzlustöð, heldur en fá mann til þess að taka þátt í sameiginlegri heilsugæzlustöð, þar sem 2–3 menn væru starfandi. Einmitt þess vegna tel ég mjög mikilvægt, að þessi till., sem við flytjum hv. þm. Steingrímur Hermannsson og Þorvaldur Garðar Kristjánsson, — einmitt þess vegna tel ég mikla nauðsyn á því, að þessi till. verði samþ., og ég tel, að sú lausn, sem í henni felst, sé að ýmsu leyti ekki síðri lausn heldur en það, að farið væri að koma upp sjálfstæðri heilsugæzlustöð á Skagaströnd. Ég tel, að læknir á Skagaströnd komi raunverulega að meira gagni bæði fyrir þann stað og fyrir Austur-Húnavatnssýslu í heild sinni, ef hann er tengdur við heilsugæzlustöð á Blönduósi, en ég tel, að læknirinn eigi að vera staðsettur á Skagaströnd, og til þess að það geti orðið, þarf að koma fram þessari breytingu á frv. Ég bendi á, að þar hefur læknirinn ágætt húsnæði, betra en það, sem býðst á Blönduósi. Þar getur hann haft viðtalstíma tvisvar til þrisvar í hverri viku, og þaðan getur hann farið í vitjanir í utanverða sýsluna, en að öðru leyti mundi hann aðstoða við rekstur heilsugæzlustöðvarinnar við héraðshælið á Blönduósi. Ég tel, að það eigi að vera tiltölulega auðvelt flesta daga ársins fyrir hann að rækja það starf sitt, þar sem ekki er nema 20–25 mínútna akstur á milli þessara staða. Ég tel sem sagt ótvírætt, að uppbygging einnar heilsugæzlustöðvar á Blönduósi með aðsetri eins læknisins á Skagaströnd, en aðsetri annarra á aðalstöðinni, væri skynsamlegasta heildarlausn málsins.

Eins og ég hef þegar sagt, óttast ég, að verði margar brtt. samþ. í þessari d., sem þegar hafa verið felldar í Nd., þá sé málinu stefnt í hina mestu tvísýnu. Ég vil hins vegar benda á það, að talsvert öðru máli gegnir um þá till., sem við flytjum á þskj. 697. Efni hennar hefur ekki verið fellt í Nd., og ég er sannfærður um það, að efni hennar muni verða samþ. þar umræðulaust. Ég ræddi þetta efni till. við formann heilbr.- og trn. í Nd., og n. hafði málið þar til afgreiðslu, og hann taldi í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu, að hann gæti fallizt á þessa lausn. Ég ræddi þetta reyndar við fleiri aðila en formanninn, en því miður var ekki tekið tillit til ábendingar minnar við meðferð málsins þar, og þar af leiðandi komst till. ekki þar á framfæri.

Í frv. eru ákvæði, sem eru að vísu svipaðs efnis og till. gerir ráð fyrir, en það eru bráðabirgðaákvæði, sem eru auk þess orðuð á þann veg, að hætt er við, að þau gætu ekki gilt um þennan stað nema tiltölulega mjög skamman tíma. En það er miðað við, að meðan lögin séu að koma til fullrar framkvæmdar, geti slíkt skipulag verið í gildi, en síðan ekki að sjálfsögðu, og þetta er í bráðabirgðaákvæði. Ég óttast það, að þar sem í rauninni er ekkert því til fyrirstöðu, að lögin komi til fullrar framkvæmdar á Blönduósi nú þegar, þá verði litið svo á, að bráðabirgðaákvæðið gildi ekki um þann stað, og ég tel því óhjákvæmilegt að taka af ö11 tvímæli um það, að þessi skipan mála geti staðizt á slíkum stað og hún eigi að vera til frambúðar, en ekki bara til bráðabirgða. Ég sem sagt mæli eindregið með því, að brtt. á þskj. 697 verði samþ., en ég er þess mjög hvetjandi, að aðrar brtt., sem sýnt er, að ekki næst samkomulag um, þar sem þær hafa verið felldar í Nd., verði annað hvort dregnar til baka eða felldar, vegna þess að ég vonast til þess, að við getum allir verið sammála um nauðsyn þess að koma málinu fram og málið er í hættu, ef upp hefst mikil togstreita milli d. um frv.