14.04.1973
Efri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3550 í B-deild Alþingistíðinda. (3102)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Halldór Kristjánsson:

Herra forseti. Mig langar með örfáum orðum að gera grein fyrir afstöðu minni til vissra atriða þessa máls. Það er hægt að tala hér um það, eins og hv. 5. þm. Vesturl., Þorvaldur Garðar Kristjánsson gerði áðan, að með þessari löggjöf sé verið að kollvarpa þeirri læknaskipan, sem við búum við, og afnema 54 læknahéruð. Er því nú þannig varið, að þarna sé verið að reka 54 starfandi lækna frá störfum úti á landsbyggðinni eða það sé verið að kollvarpa þeirri læknaskipan, sem hefur verið lögfest og hefur verið í gildi? Því fer víðs fjarri. Hér er einmitt veríð að leggja grundvöll að nýrri skipan þessara mála, sem er meira við hæfi þess ástands, sem er í landinu, og ætlazt er til, að geti veitt sæmilega þjónustu, í stað þess úrelta kerfis, sem var mótað og lögformað við allt aðrar kringumstæður en nú eru og sem er algerlega óvirkt orðið á stórum svæðum landsins. Hitt er svo annað mál, að eitt í þeim blómlega arfi viðreisnartímabilsins, sem við höfum tekið við, var, að það var allt of mikið fámenni í þjónustustéttum heilbrigðismálanna í landinu. Skólamál þeirra og fræðsla voru í einhverri spennitreyju, þannig að það voru allt of fáir, sem útskrifuðust, bæði læknar og hjúkrunarkonur. Á þessu hefur nú þegar verið ráðin nokkur bót, þannig að það eru líkur til, að betri tímar séu fram undan eftir 2–3 ár, og þá verði ekki eins mikill skortur á læknum og hjúkrunarfólki í landinu og er nú og verið hefur um skeið. Og það er vitanlega við þær kringumstæður, sem við getum gert okkur vonir um, að hin nýja löggjöf komi að notum.

Nú langar mig að segja ykkur það í sambandi við Bíldudal, að ég ætla, að það séu 10 ár síðan síðasti læknir fluttist þaðan. Að vísu hafa þær reglur verið í gildi, að héraðslæknar skipaðir í Bíldudalshéraði fengu að vera á Patreksfirði, og stundum hefur verið ráðinn læknir upp á þessi kjör, en alls ekki viðlit að fá nokkurn upp á það, að hann sæti á Bíldudal. Þess vegna held ég, að það sé að berja höfðinu við steininn að fara nú að gera hér samþykkt um það, að á Bíldudal skuli vera læknissetur. Það getur þýtt það, að héraðið fái ekki lækni til þjónustu, sem það fengi þó sennilega öðru hvoru og kannske til frambúðar, þegar fölgar í stéttinni, ef gengið er út frá, að læknir hefði búsetu á Patreksfirði. T.d. hafa verið þar í vetur 2 læknar. Þeir hafa átt að hafa læknisþjónustu um Önundarfjörð og Dýrafjörð síðan um áramót. En nú er í þessu frv., sem hér liggur fyrir, gengið út frá því, að læknissetur verði bæði á Flateyri og Þingeyri, en landlæknir vor hafði læknisþj. í þessum fjörðum um hátíðarnar. Hann var í jólafríinu sínu vestur frá og hafði læknisþj. á Þingeyri og Flateyri. Og áður en hann fór, hafði hann fund með hreppsnefndunum í þessum fjörðum báðum, þær voru ekki mættar þar að fullri tölu, en það voru menn frá þeim öllum, og það varð fullt samkomulag um að ganga út frá því, að firðirnir báðir væri framvegis eitt læknishérað. En þm. vorir eru svo næmir fyrir óskum og vilja kjósendanna, að þeir eru búnir að berja það inn í þetta lagafrv., að það skuli vera læknissetur í báðum fjörðunum. Hitt er ég viss um, og það vil ég láta koma hér fram, að það hefði aldrei orðið samkomulag um það, — Önfirðingar hefðu aldrei fallizt á það, að báðir firðirnir yrðu eitt læknishérað, ef þeir væru ekki búnir að búa við það um skeið að hafa starfandi hjúkrunarkonur, en reynslan af þeim hefur sýnt, að þá búa menn við svipað öryggi, segi ég, og að hafa lækni við frumstæð og slæm skilyrði og meira öryggi en lagaákvæði um að læknir skuli vera, og hafa engan lækni, því að hjúkrunarkonan kemur til sjúklinga, gerir sér grein fyrir þeirra lasleika, talar við lækni, afhendir meðul, og þegar óhöpp ber að höndum, veitir hún bráðabirgðahjálp. Þetta hefur gefizt vel.

Ég vildi gera grein fyrir því, hvers vegna ég mun greiða atkv. á móti till. um læknissetur á Bíldudal. Það er vegna þess, eins og ég sagði, að ég er sannfærður um, að það eru meiri líkur til, að læknar fáist til að þjóna Bílddælingum með búsetu á Patreksfirði heldur en ef þeir eru skyldaðir til búsetu á Bíldudal.

Eins vildi ég svo geta, að mér virðast í þeim till., sem hér liggja fyrir um ný viðbótarlæknissetur, að þar hafi Kópasker óneitanlega sérstöðu.