07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

263. mál, afkoma hraðfrystihúsa

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er augljóst mál. að framkvæmdir í sambandi við endurbætur frystihúsanna vegna aukinna krafna um hollustuhætti kosta stórfé, og það er reyndar fyrst og fremst það mál, sem ég tel, að hefði átt að koma sérstaklega fram í sambandi við þessa fsp. Enda þótt endanleg könnun hafi enn ekki átt sér stað, er ljóst af þeim upplýsingum, sem þegar liggja fyrir, að hér er um mjög stórt mál að ræða frá fjárhagslegu sjónarmiði. Af kunnugum mönnum er talið, að hér sé um miklu stærra fjárhagsmál að ræða en ég tel, að komið hafi fram hjá hæstv. sjútvrh. í svörum hans hér áðan. Það er rétt, að það er ekki búið að kanna þetta mál neitt til fullnustu. En það hafa þó átt sér stað áætlanagerðir og kannanir af hendi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna annars vegar og einnig af hendi forsvarsmanna Sambands ísl. samvinnufélaga fyrir þeirra frystihús. Þær tölur, sem þar komu fram, voru miklu hærri en hæstv. ráðh. nefndi. Vitanlega eru þær tölur byggðar á því, sem eigendur frystihúsanna gerðu ráð fyrir, að þyrfti að gera í þessu sambandi. Að hve miklu leyti það er raunhæft, skal ég ekki segja um. En ég er ekki búinn að sjá, að sú könnun, sem Framkvæmdastofnun ríkisins lætur gera, verði miklu raunhæfari en þessar áætlanir, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna lét gera og Samband ísl. samvinnufélaga. Hitt er svo rétt, að það getur verið álitamál í mörgum tilfellum í þessu sambandi, að kostnaðurinn við að endurbæta og koma á nauðsynlegum endurbótum í hollustuháttum verði það mikill í sumum tilfellum, að það svari ekki kostnaði að ráðast í þær framkvæmdir við sum húsanna, vegna þess að þau séu svo léleg fyrir. Þá verður auðvitað dæmið enn stærra og ef þetta á sér stað á þeim stöðum úti á landi, þar sem viðkomandi frystihús eru einu atvinnutækin, sem um er að ræða í byggðarlaginu, því að þá er ekkert um annað að gera en hyggja upp frá grunni.

Þær upplýsingar um fjármagnsþörf, sem ég hef í þessum efnum, eru a.m.k. tvöfalt hærri en hæstv. ráðh. gat um áðan í svari sínu við fyrirspurn. Það á svo eftir að koma í ljós, hvað rétt reynist. En ég hygg, að sú upphæð, sem ég hef nefnt, verði nær raunveruleikanum heldur en það, sem hæstv. ráðh. gat um áðan. Hitt er annað mál að hafa nægjanlegt fjármagn til þess að koma þessu í framkvæmd. Hæstv. ráðh. talaði um 300 millj. kr. í ár, en ég hygg, að það sé ekki eingöngu í sambandi við hollustuhættina, heldur einnig í sambandi við aðrar endurbætur frystihúsanna, eins og hæstv. ráðh. benti á. Það er hins vegar augljóst mál, að þar sem um svo stórt mál fjárhagslega er að ræða eins og hér hefur komið fram, þá duga engar 130 eða 300 millj. kr. á ári, nema við fáum því lengri umþóttunartíma í sambandi við löggjöf, sem á að setja í Bandaríkjunum eða annars staðar, ef við fáum leyfi til að vera í 10 ár að brölta við þetta, þá getur það verið í lagi, en ef því á að verða lokið innan þriggja ára eða svo, fjögurra ára, þá verður upphæðin að hækka verulega frá því, sem verið hefur.