14.04.1973
Neðri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3561 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Þegar þetta mál var lagt fyrir hv. d., fór ég nokkrum orðum um það, hversu hin þinglega meðferð þess væri með undarlegum hætti, en fagnaði mjög frv. Og ég hef, eins og hv. frsm. heilbr: og trn. tók fram, staðið með öðrum nm.nál., en vil þó engu að síður koma með brtt., sem er samhljóða till. minni í því frv., sem er á þskj. 279 og varðar sama mál. Þetta varðar stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, og að baki liggur sú hugmynd, að ég tel, að þetta sé einkanlega mál vinnumarkaðarins, þannig að sem flestir fulltrúar meiri háttar samtaka, sem standa að vinnumarkaðnum, eigi að eiga sæti í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, því að eðli málsins samkvæmt snertir það vinnumarkaðinn. Ein röksemd, sem ég vil sérstaklega koma með, er sú, að á Norðurlöndum eru eingöngu aðilar vinnumarkaðarins, sem eiga setu í slíkri stjórn, og ég þykist vita, að þessi lög séu að verulegu leyti sniðin eftir sambærilegum lögum á Norðurlöndum. Breytingin er m.ö.o. sú, að í stað þess, að Alþ. kjósi 4 fulltrúa í stjórnina, þá kjósi Alþ. 2, en Farmanna- og fiskimannasamband Íslands velji einn fulltrúa og Vinnumálasamband samvinnufélaganna annan.

Í öðru lagi er svo lagt til, að ráðherra séu gefnar frjálsar hendur um það, hvern þessara fulltrúa hann skipar form. eða varaform., en í núgildandi lögum er það bundið að ráðherra verði að skipa form. og varaform. úr hópi þingkjörinna fulltrúa. — Um þetta skal ég ekki hafa fleiri orð, en treysti því, að þm. ljái þessu brautargengi.