14.04.1973
Neðri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3561 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Jón Snorri Þorleifsson:

Herra forseti. Ég vil fagna því, að n. skyldi verða sammála um afgreiðslu þessa máls, og vænti þess, að það megi fara ágreiningslaust í gegnum hv. Nd. eins og það fór í gegnum Ed. En vegna till. hv. 3. landsk. þm., Bjarna Guðnasonar, vil ég aðeins segja hér nokkur orð.

Vissulega gæti ég flutt rök mín fyrir því að vilja hafa stjórn þessa sjóðs með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í lögunum. En það er samkomulag aðila vinnumarkaðarins, að stjórnin skuli skipuð á þennan hátt, og rök Bjarna Guðnasonar, hv. 3. landsk., eru þau fyrir hans till., að aðilar vinnumarkaðarins eigi að koma meira inn í stjórn sjóðsins en lögin gera ráð fyrir. Ég vil minna á, að um þetta er samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins, og ég vænti þess, að hv. alþm. virði þetta samkomulag og styðji því ekki till. Bjarna Guðnasonar.

Hvernig þessum málum, stjórn atvinnuleysistrygginga, er háttað á Norðurlöndum, kann ég ekki frá að greina að öllu leyti. Mér er þó fullkunnugt um það, að þar er atvinnuleysistryggingum ekki á sama veg fyrir komið og hér hjá okkur. Við höfum, held ég megi segja, töluvert mikla sérstöðu varðandi myndun atvinnuleysistryggingasjóðs á sínum tíma.

Ég vildi minna á það, að um þetta er samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins, og ef hv. Alþ. ætlar að fara að breyta því nú, er ég hræddur um, að ýmislegt fleira, sem samkomulag er um varðandi atvinnuleysistryggingar milli aðila vinnumarkaðarins, geti einnig verið í hættu.