14.04.1973
Neðri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3562 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, hefur býsna oft komið á dagskrá, hvort ekki væri rétt að hafa stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs með öðrum hætti en nú er. Hins vegar hefur aldrei orðið sú samstaða um breytingar á stjórninni, að fært þætti að framkvæma hana. Það hefur verið sá háttur lengst af í meðferð á breytingum á atvinnuleysistryggingum, að þær hafa verið byggðar á samkomulagi milli þeirra aðila, sem í upphafi sömdu um þetta mál, en það voru aðilar vinnumarkaðarins svokallaðir. Það voru Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaga, auk þess ríkisstj. Milli þessara aðila hefur í raun og veru alltaf verið samkomulag um, að breytingar skyldu undirbúnar í samráði við þá aðila, sem sömdu um þetta mál.

Ég fullyrði, að þær breytingar, sem hv. 3. landsk, þm., Bjarni Guðnason, leggur hér til, eru ekki í samræmi við það, sem aðilar vinnumarkaðarins gætu orðið sammála um, og þess vegna tel ég fráleitt, að slík breyting yrði hér gerð.

Hvað varðar Norðurlöndin, þá er það að segja, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, að við höfum æðimikla sérstöðu hér um atvinnuleysistryggingasjóð. Lögin eru að vísu að nokkru leyti sniðin eftir lögum á Norðurlöndum, en um þetta atriði hafa þau alla tíð verið frábrugðin, og það var vel vitað, þegar lögin voru fyrst undirbúin, hvernig stjórn sjóðanna er háttað á Norðurlöndum. Og einmitt vegna sérstöðu okkar hér, hvernig þessi sjóður var til kominn, hvernig greitt er til hans o.s.frv., þótti ekki rétt og hefði aldrei orðið samkomulag um þessar tryggingar, ef stjórn sjóðsins hefði orðið með þeim hætti, sem þar er. Það var þessi sérstaða, sem þá gerði það að verkum, að aðild að stjórn okkar sjóðs er með æðimikið öðrum hætti en þekkist á Norðurlöndum. Þessi sérstaða er ennþá fyrir hendi og hefur ekkert breytzt. Ég vil þess vegna eindregið mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt.