14.04.1973
Neðri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3564 í B-deild Alþingistíðinda. (3159)

222. mál, atvinnuleysistryggingar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, svo að hv. 3. landsk. þm. fái að heyra í fleirum en þeim; sem hann telur, að hafi átt sæti í þessari stjórn á undanförnum árum.

Ég held þessi till. hv. 3. landsk. hljóti að vera byggð á misskilningi. Þessi stjórn er saman sett og hefur frá upphafi, að ég held sé rétt með farið, verið byggð á samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins, eins og hér hefur verið sagt. Og hversu langur tími sem liðinn er, síðan samkomulag var gert, þá virðist það hafa reynzt svo vel, að þessum aðilum, sem um þetta hafa fjallað og um þetta sömdu á sínum tíma, hefur ekki þótt ástæða til að breyta því. Ég tek undir það, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði hér áðan, að ég lít á hv. alþm. sem umbjóðendur hinna ýmsu aðila vinnumarkaðarins. Þeir geta ekkert síður að mínu mati verið fullgildir fulltrúar vinnumarkaðarins en einhverjir aðrir. Þeir eru þó kjörnir af þessum aðilum, og mér finnst ekkert óeðlilegt, þó að þeir kæmu þar til greina og kannske ekki sízt vegna þess, að það samkomulag, sem hér er um talað, er byggt á þessu, að aðilar vinnumarkaðarins hafa talið þessum málum bezt skipað á þennan hátt. Ég held, að það sé ástæðulaust, a.m.k. meðan ekki koma fram óánægjuraddir frá þessum aðilum sjálfum, að breyta því fyrirkomulagi.