14.04.1973
Neðri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3565 í B-deild Alþingistíðinda. (3164)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. meiri hl. (Ágúst Þorvaldsson) :

Herra forseti. Félmn. þessarar hv. d. hefur haft þetta frv. á þskj. 380 um breyt. á sveitarstjórnarlögum til meðferðar og athugunar. Við athugun n. fór svo, að hún klofnaði og skiptist í meiri og minni hl. 6 nm. hafa lagt til á þskj. 623, að frv. verði samþ. með svofelldri breytingu:

„Við 1. gr. 110. gr. orðist svo:

Ákvæði þessa kafla gilda um landshlutasamtök sveitarfélaga, sem hvert um sig nær yfir eitt eða fleiri kjördæmi, og um Reykjavíkurborg eftir því sem við á, sbr. einkum b-lið 112. gr. Um svæðaskipun landshlutasamtakanna skal nánar kveðið á í reglugerð, er félmrh. setur að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga“.

Með þessari breytingu ætti að vera komið í veg fyrir það, sem mér skildist, að hæstv. forsrh. óttaðist, að sveitarfélög væru knúin gegn vilja sínum til þess að vera í ákveðnum landshlutasamtökum. Tel ég sem einn af nm. og þeim, sem skrifað hafa undir þetta nál., að þessi breyting sé í raun og veru sjálfsögð og eðlileg.

Garðar Sigurðsson, hv 5. þm. Sunnl., hefur gefið út sérstakt nál. á þskj. 629, og gerir hann vafalaust grein fyrir því. Þá hafa og tveir hv. alþm. borið fram brtt. á þskj. 658. N. hefur ekki tekið neina afstöðu til þeirrar till. Ég held, að ég hafi þá ekki fleira um nál. að segja.