14.04.1973
Neðri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3568 í B-deild Alþingistíðinda. (3168)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál, en vil taka fram, að ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. þeirri frávísunartillögu, sem hér liggur fyrir. Ég álít þetta mál ekki nægilega vel undirbúið, og skal ekki fara að endurtaka það, sem um það hefur áður verið sagt, en vil þó sérstaklega undirstrika, að félmrh. andmælti frv. einmitt á þeim grundvelli, en nú stendur þannig á, að hann hefur fjarvistarleyfi.

Ég vil geta þess, að mér er kunnugt um, að það hafa borizt óskir um að fá frv. til umsagnar frá sýslumanni Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógetanum á Akureyri. Enn fremur hefur sýslumaður Þingeyjarsýslu sent mér skeyti, þar sem hann mótmælir frv. eindregið. Virðist því ekki vera eins mikil samstaða um þetta mál og það ekki eins vel undirbúið og sumir ákafir fylgismenn þess vilja vera láta.

Ég held, að þetta frv. leysi alls ekki þann vanda, sem ég geri ráð fyrir, að menn hafi í raun og veru viljað leysa, sem sé að fá þessum samtökum í hendur ákveðin, afmörkuð verkefni. Það vantar algerlega í þetta frv. Það er satt að segja eins og menn hafi setzt niður og hafi endilega viljað semja frv. um þetta efni, en hafi síðan í miðjum kliðum gefizt upp. Það vantar inn í þetta frv. í raun og veru þau efnisatriði, sem máli skipta í sambandi við samtök sveitarfélaga.

Þetta vil ég sem sagt láta koma fram eindregið sem mitt álit. En auðvitað verður meiri hl. Alþ. að ráða þessu, og ef hann sér ástæðu til þess að samþ. slíkt flaustur, eins og ég vil segja að þetta frv. sé, þá er ekkert við því að segja.

Ég verð að segja það, að eftir að ég hef lesið breyt., sem hv. meiri hl. n. gerir till. um, er mér alveg ómögulegt að skilja, hvað í þeirri breyt. felst, en með leyfi hæstv. forseta hljóðar hún svo:

„Ákvæði þessa kafla gilda um landshlutasamtök sveitarfélaga, sem hvert um sig nær yfir eitt eða fleiri kjördæmi, og um Reykjavikurborg eftir því sem við á, sbr. einkum b-lið 112. gr.“. Þetta væri skýrt, ef hún væri ekki lengri, en svo er bætt við: „Um svæðaskipun landshlutasamtakanna skal nánar kveðið á í reglugerð, er félmrh. setur að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga“.

Þarna er valdið alveg fengið í hendur félmrh., og mér er ómögulegt að skilja það, hvort hann hefur þá vald til þess að kljúfa einstök kjördæmi í sundur við þá svæðaskipun, sem hann ákveður í reglugerð. Mér er þessi brtt. sem sagt alveg óskiljanleg. Ég held, að það saki ekki, að þetta væri athugað ofurlítið betur, en annars endurtek ég það, að ég skal ekki frekar taka þátt í umr. um þetta mál.