14.04.1973
Neðri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3570 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér hafa þegar farið fram talsvert miklar umr. um þetta frv. Það hefur komið fram í þeim, að ýmsir hv. þm. óska mjög eindregið eftir því, að þessu máli verði frestað að þessu sinni, svo að nokkru meiri tími gefist til að athuga einstök ákvæði í frv. varðandi heimildir um fiskveiðiréttindi í fiskveiðilandhelginni. Auk þess, sem hér hefur komið fram í umr. um málið, hafa komið til mín mjög margir þm., sem talið hafa rétt að fresta málinu. Þetta mál hefur verið rætt sérstaklega í fiskveiðilaganefnd, og eftir þær umr. hef ég sannfærzt um, að það væri eftir atvikum rétt að fallast á þá skoðun að fresta málinu nú. Meginvinnubrögð í þessu máli hafa verið þau hjá fiskveiðilaganefnd að reyna að ná samstöðu um málið á sem breiðustum grundvelli. Haft hefur verið samráð við fjölmarga aðila í landinu, eins og komið hefur fram í umr., einnig reynt að hafa samráð við alla alþm. En þrátt fyrir þá vinnu, sem þannig hefur verið unnin, hefur komið í ljós, að margir þm. telja sig þurfa að hafa lengri tíma til þess að ræða við sína umbjóðendur varðandi ýmsar mikilvægar breytingar, sem felast í frv.

Verði nú horfið að því ráði að fresta afgreiðslu þessa máls af þessum ástæðum hér á þessu þingi, er augljóst, að það verður að framlengja um nokkurn tíma þau lagaákvæði, sem um þetta fjalla og renna út 1. júlí n. k. Ég hef hugsað mér, að ef horfið verður að þessu ráði, að fresta málinu, þá yrði leitað eftir þeim heimildum, sem þarf til þess að framlengja núgildandi fiskveiðiréttindi í fiskveiðilandhelginni til ársloka eða um 6 mánaða tímabil. Þetta yrði þá gert með þeirri ákvörðun, að frv. verði lagt fyrir næsta Alþ. strax í upphafi þings eða í októbermánuði, þannig að tryggt megi heita, að hægt verði að koma því frv. fram og gera það að lögum fyrir áramót. Ég mun fara fram á það við fiskveiðilaganefnd, að áður en frv. verður lagt fram að nýju á næsta hausti, taki hún til sérstakrar athugunar þær till., sem fram koma frá einstökum þm. eða öðrum aðilum, og reyni að samræma tili., sem fram koma, eins og tök eru á, þannig að þær geti legið fyrir strax í byrjun næsta þings.

Mér er ljóst, að það hefði verið miklu betra, ef fyrri áætlun um að gera nú að lögum þau nýju ákvæði, sem í frv. felast, og láta þau taka gildi 1. júlí n. k. hefði getað staðizt. En það er ekki hægt að segja, að það skipti öllu máli, þó að eldri ákvæði varðandi fiskveiðiréttindin séu látin standa 6 mánuðum lengur en ráð var fyrir gert, þ.e.a.s. frá 1. júlí til áramóta, þannig að mönnum gefist þá frekari tími til þess að athuga þær till., sem hér liggja fyrir, eins og óskað er af mörgum þm.

Ég vil því lýsa yfir, að ég get fyrir mitt leyti fallizt á að hafa þennan hátt á. Ég tel ekki rétt að reyna að knýja þetta mál í gegnum þingið með mjög takmörkuðu samkomulagi við marga þm., sem óska eftir því að hafa þennan hátt á að fresta málinu. Ég get því fallizt á það, að þetta mál verði tekið út af dagskrá að þessu sinni og þessi háttur verði hafður á um framhald málsins.