14.04.1973
Neðri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3575 í B-deild Alþingistíðinda. (3186)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. greip til þess örþrifaráðs í ræðu sinni að bera mér á brýn, að ég héldi því fram á alþjóðlegum vettvangi, að Íslendingum væri ekki treystandi til friðunar. Ég sagði í fyrri ræðu minni, að þessu væri haldið fram af andstæðingum okkar, og get fært nógar sannanir fram til að styðja þá skoðun, það hlýtur hver maður að vita, sem nokkuð hefur fylgzt með landhelgismálinu. Og ég vil taka það fram, að þótt ég sé stjórnarandstæðingur hér á Alþ. og heima, þá er ekki til harðari stjórnarsinni en ég, strax og ég er kominn út fyrir 50 mílurnar, og við hvert tækifæri, sem ég hef haft til að segja eitthvað um landhelgismálið í eyru annarra en Íslendinga, hefur það verið fullkomlega í samræmi við ríkjandi stefnu og algerlega án tillits til umræðna, sem hér kunna að fara fram. Ég vil því frábiðja mér það með öllu að þurfa að hlusta á dylgjur um það, að ég sé ekki tryggur íslenzkum málstað í þeim efnum, ef það hefur verið ætlun ráðh. að halda slíku fram, svo sem mér heyrðist.

Það var að heyra á hæstv. ráðh., að hann væri hneykslaður á því, að menn skuli ætlazt til þess, að sjútvrh. Íslendinga hafi forustu í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar. Hann virðist vera undrandi á því, að ég skuli telja það sjálfsagðan hlut, að sjútvrh. eigi að hafa forustu um sjávarútvegsmál, og þá í þessu máli öllum öðrum málum framar. Ég lít svo á, að það sé hans hlutverk og það þýði ekki að fleygja verkefninu í hendurnar á n. alþm. og koma síðan ekki nálægt því, nema til þess að rísa hér upp á Alþ. síðdegis á laugardegi til að biðja menn að fresta málinu. Til hvers?

Ég tek algerlega undir það, sem síðasti ræðumaður sagði, að það eru engar líkur á því, að frestun verði til þess að gera þetta mál auðleystara. Allar líkur benda til þess, að þetta mál muni verða erfiðara úrlausnar, ef við frestum því. Ég vil því skora á hæstv. ráðh. að hætta þessu undanhaldi, hætta þessu forustuleysi og gera það, sem hann sjálfur sagði, að væri skoðun hans, vinna að því, að þetta frv. verði afgreitt. Það verður vafalaust farsælast fyrir okkur, bæði á innlendum vettvangi og ekki síður á erlendum vettvangi, í baráttu okkar fyrir því að vinna orustuna um 50 mílna mörkin.