14.04.1973
Neðri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3578 í B-deild Alþingistíðinda. (3190)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Forsrh. (ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að hér er um stórmál að ræða. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið af nefnd, sem í áttu sæti fulltrúar allra þingflokka. Í þeirri n. varð fullt samkomulag. Þó að frv. væri lagt fram seint, var miðað við þær forsendur og ástæða talin til að ætla, að samkomulag gæti orðið um þetta stóra mál á þingi og að það yrði afgr., þó að skammur tími væri til stefnu. Það hefur hins vegar sýnt sig alveg greinilega í þeim umr., sem hér hafa farið fram, bæði í þingsalnum og eins manna á milli, að því fer fjarri, að það sé fullt samkomulag um afgreiðslu þessa máls. Þess vegna hef ég fyrir mitt leyti fallizt á þá málsmeðferð, að það væri óskynsamlegt af stjórnarinnar hálfu að knýja þetta mál fram á svo stuttum tíma sem til stefnu er.

Það má segja, að þó að fiskveiðilaganefnd hafi unnið hið ágætasta starf, farið víða um landið og haldið fundi, hlustað á menn, þá hafði hún ekki á þeim fundum upp á vasann það frv., sem hún hefur lagt fram, hafði jafnvel ekki upp á vasann þær hugmyndir, sem hún hafði í huga og mótað hafa þetta frv. Þess vegna hafa einmitt þessir hagsmunaaðilar, sem talað var við á sínum tíma úti um landið, ekki séð eða getað athugað frv. í endanlegri mynd. Það er ekki óeðlilegt, þó að þeim gefist kostur á því að fá að sjá og athuga það, áður en það er afgreitt. Auðvitað er það einnig rétt, sem hér kom fram hjá þm. áðan, að þótt fiskveiðilaganefnd hefði samband við þm. úr hverju kjördæmi, þá var það svo, að þær viðræður, sem hún átti þá við þm., snerust aðeins um það sérstaka kjördæmi, sem þeir voru fulltrúar fyrir. Þeir höfðu því ekki aðstöðu til þess að fá að sjá þá heildarmynd, sem nú blasir við, eftir að frv. liggur fyrir. Og það sýnir sig, þegar sú heildarmynd liggur fyrir, að þrátt fyrir það, að menn séu yfirleitt á því máli, að stefnt sé í rétta átt, er þó margvíslegur skoðanamunur fyrir hendi. Við þessar aðstæður tel ég mjög óeðlilegt, ef t. d. stjórnin færi að reyna að beita þingmeiri hl. sínum til þess að knýja þetta mál fram á þessum örstutta tíma. Ég fellst þess vegna algerlega á þá málsmeðferð, að málinu sé frestað og það verði skoðað í sumar. Það er hægt að framlengja þau lög, sem nú eru í gildi. Þau lög geyma víðtækar heimildir, að ég hygg, til handa sjútvrh. til ýmiss konar friðunaraðgerða. Og það er að athuguðu máli eftir nánari skoðun hægt að beita þeim, ef mönnum sýnist það rétt vera.

Svo vil ég taka það fram, að ég held, að það geti ekki haft nokkur minnstu áhrif á úrslit landhelgismálsins og lausn þeirrar deilu, sem við eigum í við Breta og Vestur-Þjóðverja, hvort þetta frv. verður að lögum á þessu þingi eða hinu næsta.

Svo vil ég taka það fram út af því, sem hv. þm. Gunnar Thoroddsen sagði hér um þau vinnubrögð, sem við væru höfð hér á Alþ. síðustu daga og menn hafa nokkuð borið sér í munn öðru hvoru, að það er í sjálfu sér ástæða til að taka það nánar til athugunar, hvort þau vinnubrögð, sem hafa verið viðhöfð á þessu þingi, hafa verið frábrugðin þeim vinnubrögðum, sem viðgengizt hafa á öðrum þingum. Ég hef setið á allmörgum þingum og ég minnist ekki eins einasta þings, þar sem ekki hafa einmitt verið miklar annir síðustu þingdagana, alveg nákvæmlega sama hvort þinginu var slitið í apríl eða maí eða jafnvel þó að það hafi dregizt fram í júníbyrjun. Það má segja, að það sé visst ólag á starfsháttum Alþ. að þessu leyti. En þetta eru nú þeir starfshættir, sem hafa viðgengizt hér um áratugabil, að einhvern veginn hefur það orðið svo, að málin hafa viljað safnast saman og ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu fyrr en á síðustu dögum þingsins. Það er enginn vandi að telja upp mál, sem við höfum verið að afgreiða hér undanfarna daga og jafnvel í dag og voru lögð fram af stjórnarinnar hálfu í þingbyrjun og hafa legið fyrir Alþ. í allan vetur. Það er ósköp auðveldur reikningur, eins og hv. þm. var að fara með, að síðustu viku hefðu verið lögð fram hér 11 stjfrv., en hann veit mætavel eins og hver og einn einasti alþm., að a.m.k. helmingur þeirra frv. er lagður fram í kynningarskyni, en ekki til þess að fá þau afgreidd á þessu þingi. Það hafa hingað til ekki verið taldir sérstaklega bágbornir starfshættir þingsins að gefa hv. alþm. tækifæri til þess, áður en þeir fara heim af þingi; að fá í hendur mál, sem ætlunin er að leggja fyrir næsta þing og afgreiða þar, til þess að þeir geti kynnt sér þau. Þetta eru ekki ný vinnubrögð, þau hafa tíðkazt, og það eru réttmæt vinnubrögð, Það eru ekki mörg mál, sem stjórnin hefur lagt fram á síðustu 2–3 vikunum, sem hún hefur lagt og leggur áherzlu á að fá afgreidd. Það eru frv. um fiskveiðasjóð, iðnlánasjóð og stofnlánadeild landbúnaðarins, frv. um kjarasamninga opinberra starfsmanna og eitt eða tvö í viðbót. Það eru ekki nema 5–6 mál. Þetta er sannleikurinn alveg umbúðalaus. Svo geta menn óskapazt yfir því, að það séu svo voðalegir annadagar hér á Alþ.,þm. hafi ekki tíma til þess að kynna sér mál og lesa málin, sem lögð hafa verið fram. Þeir geta geymt að kynna sér þau mál, sem bara eru lögð fram til kynningar, og geta lesið þau, þegar heim kemur. Það er ekki einu sinni ætlunin að hafa framsögu og hefur ekki verið gert og verður ekki gert fyrir þeim málum, sem aðeins eru lögð fram til kynningar.

Hvað hafa annirnar svo verið óskaplegar á þessu þingi? Tvær eða þrjár síðustu vikurnar hafa verið haldnir fundir á Alþ. alla virka daga vikunnar. Það eru nú öll ósköpin, en í allan vetur, að segja má, hafa ekki verið haldnir fundir á föstudögum og laugardögum. En það er vitaskuld ekki ætlazt til þess, að þm. hafi frí þá daga. Þeir eru á fullu kaupi. Þá er ætlazt til þess, að þeir vinni í n. Ég vil segja, — það má telja saman og reikna út, — að það séu tiltölulega fáar undantekningar, að það hafi verið haldnir kvöldfundir hér á Alþ. í vetur, líka síðustu daga. Og það mun vart vera dæmi þess, að það hafi verið haldnir næturfundir á þessu þingi, ekki heldur síðustu daga. Ég man hins vegar, að í tíð fyrrv. stjórnar, þegar hv. þm. Gunnar Thoroddsen var fjmrh., voru næturfundir haldnir hér á Alþ. og kvöldfundir æ ofan í æ.

Sannleikurinn er sá, að þó að menn séu að tala um það núna, stjórnarandstæðingar, að það sé verið að gera Alþ. að afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj. og það sé óforsvaranlegt að ljúka Alþ. á þessum tíma og láta það fara heim frá mörgum óafgreiddum málum, þá er, ef við viljum vera hreinskilnir, þetta tal í stjórnarandstæðingum núna alveg nákvæmlega sama og það, sem við, sem nú sitjum í stjórn og erum í meiri hl., sögðum, á meðan núv. stjórnarandstæðingar fóru með stjórnartaumana, — ekkert annað, það er alveg nákvæmlega það sama. Þá var oft sagt, að Alþ. væri ekkert annað en afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj.

En þetta tal hér á Alþ. og í hlöðum er eitt af því, sem er sagt og ekki má taka allt of hátíðlega. Mér hefur þótt ástæða til þess að minnast á þetta, af því að mér finnst, að mönnum hafi upp á síðkastið orðið heldur tíðrætt um annirnar á Alþ., þó að menn þurfi að vinna til kl. 7 hvern dag í tvær eða þrjár vikur, þá finnat mér það ekki til að óskapast yfir.

En þetta var útúrdúr. Aðalatriðið var, að ég vildi lýsa samþykki mínu við þá málsmeðferð. sem fyrirhuguð er í þessu máli, og tel hana eftir atvikum skynsamlega, að fresta afgreiðslu málsins, en vera ekki að knýja það fram, þegar vitað er, að mikið ósamþykki er á milli þm. Auðvitað er mér ljóst eins og öðrum, að þetta er viðkvæmt hagsmunamál og verður seint á því haldið þannig, að um það náist alger samstaða allra. Hins vegar er sjálfsagt að halda þannig á málinu, að það sé reynt hið ítrasta til að ná sem víðtækastri samstöðu um það.

Það má með réttu segja, að fiskveiðilaganefnd hafi verið helzt til sein að leggja þetta frv. fyrir Alþ., og þegar það móti von manna reyndist svo, að það er ekki sú samstaða á Alþ. um málið, sem ætla hefði mátt, eftir að fulltrúar flokkanna í n. höfðu allir orðið sammála, þá tel ég ekki rétt að knýja á um það.

Auk þess vil ég taka það fram, að ég tel, að við í stjórninni höfum sýnt fullan samstarfsvilja um þau mál, sem við höfum verið, — ég skal játa það, — helzt til seinir að leggja fram — þessi mál, sem ég nefndi áðan. Og við höfum gengið til móts við vissar óskir um breytingar. sem þar hafa komið fram frá stjórnarandstöðunni.

Viðvíkjandi því, hvenær þingi eigi að ljúka, þá þarf að setja markið einhvers staðar, og mín reynsla er sú, að það fari ekki að koma sá skriður, sem þarf, á þingstörfin, fyrr en búið er að setja það markmið, hvort sem það er sett hálfum mánuði fyrr eða þremur vikum fyrr, það má segja, að það sé aukaatriði. Það verða hvort sem er eftir og er eðlilegt að séu eftir og eiga að vera eftir ýmis mál, sem lögð eru fyrir Alþ., af því að þau hafa ekki verið lögð þar fram til þess að hljóta þar afgreiðslu, heldur til þess að kynna málin þar.

Um sum önnur mál, sem nokkrar umr. hafa orðið um hér síðustu dagana og vafizt hafa fyrir mönnum, þá vil ég enn endurtaka það, að það er ekki af því, að þau mál hafi verið lögð fram af stjórnarinnar hálfu seint á þingtíma, þótt hv. alþm. hafi ekki gefizt tóm til að íhuga þau, heldur hafa þau mörg hver, eins og ég sagði áðan, legið fyrir Alþingi frá því snemma á þessu þingi og sum jafnvel frá hinu fyrra þingi. Skraf um, að það sé ófært óðagot að setja það mark, að Alþ. eigi að ljúka fyrir páska eða á miðvikudag, er því alveg ástæðulaust. Vitaskuld er það svo, að hvaða ríkisstj. sem er og ákveður það mark, gerir það ekki án þess að tala við forustumenn stjórnarandstöðunnar. Ég hef rætt það mál við formenn stjórnarandstöðunnar, og ég veit ekki annan en það sé í fullu samráði við þá, að sú ákvörðun var tekin að láta þinglausnir fara fram n. k. miðvikudag.