14.04.1973
Neðri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3583 í B-deild Alþingistíðinda. (3192)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Stefán Valgeirason:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr., en mér finnst hlýða að láta koma hér fram, fyrst menn eru komnir í karp út af þessu máli, að ég var einn þeirra, sem komu til hæstv. sjútvrh. og óskuðu eftir því, að þetta mál yrði betur athugað og yrði beðið með fram á næsta þing að afgreiða.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 7. landsk., sagði áðan, að fiskveiðilaganefnd hefði ætlað sér að vinna þannig, að þetta mál yrði afgreitt á þessu þingi. Ég man ekki betur en þessi hv. n. hefði ætlað sér að koma með frv. fyrir áramót. Ég man ekki betur en að ég hafi heyrt, að þessi hv. n. ætlaði að koma með málið fram um þessi og þessi mánaðamót. Það er svo staðreynd, að fyrir tæpri viku var þetta frv. lagt fram á hv. Alþ. Svo ætlast þessir menn til þess, að við, sem erum fyrst nú að sjá málið í heild, getum afgreitt það á örfáum klukkutímum. Ég tel þetta mál langtum stærra en það, að það væri forsvaranlegt að vinna þannig að því.

Þegar farið er að athuga þetta frv., kemur í ljós, að það er ekki mikið samræmi í friðunaraðgerðum þess á hinum ýmsu stöðum. Ég er á því. að við þurfum að ganga nokkuð langt í friðunaraðgerðum, en ég segi fyrir mig, að ég er mjög óttasleginn, þegar ég sé, hvernig þetta er t.d. fyrir Norðurlandi. Mér er engin launung á því. að Norðlendingar eru að breyta mikið til í sambandi við sinn fiskiflota. Þeir eru um þessar mundir að fá marga togara, frekar litla togara. og sumir þessir þéttbýlisstaðir ætla að byggja fyrst og fremst á þessum togurum við öflun hráefnis fyrir sín frystihús. Ég benti n. á það á þeim eina fundi, sem ég kom á til hennar, að mér fyndist hún ætla að ganga nokkuð langt í þessu efni að setja þessa togara allt árið í kring út fyrir 12 mílur. Ég er því ekki tilbúinn að samþykkja þetta eða taka afstöðu til frv. af þessum ástæðum og fleiri á svona skömmum tíma. Þar sem tími þingsins er svo stuttur, sé ég ekki ástæðu til að taka fleira fram í þessu sambandi, en ég tel, hvað sem aðrir hv. þm. gera, að þetta mál sé mikilvægara en svo, að það sé hægt að ganga frá því á þessu þingi, hvort sem því verður lokið eftir viku eða eftir mánuð, það skiptir ekki máli í mínum huga.