14.04.1973
Neðri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3585 í B-deild Alþingistíðinda. (3194)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég skal fara eftir óskum forseta um það að eyða ekki löngum tíma. En mér finnst rétt að segja aðeins örfá orð um þetta, sitt úr hverri áttinni reyndar, og vitna þá í orð fyrri ræðumanna um einstök atriði.

Hv. þm. Karvel Pálmason talaði um, að það hefði verið leitað til hinna ýmsu hagsmunahópa í landinu. Ég veit, að það er rétt hjá honum. En það kemur hvergi fram, að hve miklu leyti og að hvaða leyti var farið eftir þeim ábendingum, sem hinir ýmsu hagsmunahópar komu áleiðis til n. Það er eitt af því, sem væri ágætt að fá upplýst, því að ekki virðist af orðum togaramanna að undanförnu, að þeir hafi fengið miklu af óskum sínum framgengt.

Það hefur verið mikið talað hér um af ýmsum friðunarpostulum, að það væri mjög nauðsynlegt fyrir okkur að leggja meiri áherzlu á friðunar- og verndaraðgerðir, jafnvel enn meiri en gert er í þessu frv., það væri einnig mjög sterkt fyrir okkar málstað út á við. Ég vil taka undir það, að það er mjög nauðsynlegt að vernda og friða. En það verður líka að taka tillit til þess, að með því að við erum að færa landhelgina út í 50 mílur, erum við að tryggja okkur þann fisk, sem þar er fyrir innan, og við eigum að setja okkur reglur eins og þessar til þess að nýta landhelgina á sem skynsamlegastan hátt. Við höfum verið að panta allmarga togara af ýmsum stærðum, þó aðallega tveimur og eru minni togararnir af stærðunum 450-480 tonn. Þess vegna var eitt af því, sem mér datt í hug í sambandi við þetta mál, þegar ég talaði um það hér um daginn og mælti vissulega með því, að það yrði samþykkt, enda stóð ég að því í n. að mæla með frv., en áskildi mér jafnframt rétt til að flytja brtt., — hugmynd mín var að benda á ýmsa galla og nefndi örfáa um daginn. Mér þótti ég merkja það á ýmsum mönnum, að ég benti um of á galla frv., en sú skýring er einfaldlega á því, að menn boða ekki að þeir ætli að flytja brtt., ef þeir eru fullkomlega ánægðir með málið. — Ég minntist aðeins á nýju togarana okkar og langaði þá aðeins að bera saman þær tölur, sem við sjáum um stærðarflokka skipa í till. fiskveiðilaganefndar. Þar er miðað við 350 tonn. Með því að setja þessi stærðarskilyrði eru í rauninni allir litlu togararnir nýju útilokaðir af þessum svæðum. Það var einmitt það atriði, sem ég hafði hugsað mér að flytja um brtt. og þó alls ekki að miða við sömu svæðaskiptingu og þarna, því að það má vissulega finna ákveðin svæði, sem óhætt væri að hleypa þessum togurum inn á, án þess að það yrði þess valdandi, að þeir færu að veiða of mikið af smáfiski. Slíkir staðir eru til, mjög áríðandi staðir fyrir okkar togaraflota, t.d. út af Bakkaflóanum og í Lónsbugtinni, svo að dæmi séu aðeins nefnd.

Það er líka atriði, sem ekki hefur komið fram hér í umr., að það er dálítið hastarlegt að reka alla þessa togara út fyrir, á meðan útlendingar eru að veiða fyrir utan. Einn og einn íslenzkur togari má sín lítils gagnvart þeim hópi stórra útlendra togara, sem er á veiðum á þeim fiskimiðum, því miður. Og þó að við höfum, að því er fréttir herma, ástundað klippingar meira en gert var áður í landhelginni, þá er sannleikurinn sá, að varðskipin koma aðeins við mjög stuttan tíma á hverju veiðisvæði, þannig að útlendingar geta kannske veitt í friði 25 daga af 30 í mánuði og jafnvel lengri tíma, því miður.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að minnast aðeins á þær hugmyndir, sem hafa komið fram í þessum efnum, að það þyrfti að hafa áhafnir til þess að leysa af á varðskipunum, þannig að helzt sé eitt skip á hverju veiðisvæði, svo að þeir þyrftu ekki að skreppa þangað eins og í hálfan til einn sólarhring, heldur gætu legið þar við og gefið togurunum engan frið.

Að lokum vil ég aðeins segja það, að ég mælti með því í nál., að frv. yrði samþ., og gat þess raunar í leiðinni, að það væri á þeim forsendum, að það hefur verið unnið vel og lengi af landhelgisnefnd að þessu máli, þótt á því væru ýmsir agnúar.

Mjög margir þm. hafa komið með sérstakar hugmyndir og tilkynnt brtt. og lýst óánægju sinni með ýmis atriði, og þá hefði væntanlega komið inn svo mikill fjöldi brtt., að það hefði í raun verið ákaflega lítill möguleiki til þess að afgreiða málið fyrir páska.