16.04.1973
Efri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3595 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

134. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það er hverju orði sannara, sem fram hefur komið hjá tveim síðustu ræðumönnum, að það hefur ekkert tóm gefizt til að ræða þetta mál, sem er þó allveigamikið, eða að það hafi hlotið þá meðferð, sem sæmandi væri í þn. Það get ég fúslega játað. Á hitt ber að líta, að það mætti a.m.k. ætla, að málið hefði fengið mjög vandlega meðferð í hv. Nd., þar sem það lá þar, eins og hv. þm. sagði, í 4 mánuði, og þar voru, eins og kom fram hjá honum einnig, gerðar á því að athuguðu máli allverulegar breytingar.

Ég get ekki séð, að þó að svo standi á sem hér er, að málið hefur ekki hlotið nægilega góða athugun í hv. félmn. þessarar d., þá geti, eins og málið horfir, verið neinn verulegur skaði skeður með því, að það hljóti nú samþykki, vegna þess að tækifæri væri þá til þess á næsta þingi að gera lagfæringar, ef einhverja hluti væri hér um að ræða, sem betur mættu fara. En ég hygg, að það sé þó augljóst, þó að málið hafi ekki verið athugað betur en raun ber vitni um í hv. d. og í þn., að hér sé í aðalatriðum um mál að ræða, sem menn eru sammála um að horfi frekar til bóta en hitt, og ég mæli þess vegna með því, að málið nái fram að ganga nú á þessu þingi.