16.04.1973
Efri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3601 í B-deild Alþingistíðinda. (3217)

236. mál, launaskattur

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem ég vil koma inn á og ég tel þýðingarmikið, að hæstv. fjmrh. hlýði á, varðar atriði, sem við hæstv. ráðh. ræddum sérstaklega í des. s.l., þegar samþ. var frv. um aðra breytingu á lögum um launaskatt. Þá benti ég á, að það væri nokkur árátta hjá hæstv. ríkisstj. að gera það varanlegt, sem viðreisnarstjórnin vildi hafa til bráðabirgða, og rífa niður það, sem viðreisnarstjórnin vildi hafa varanlegt, og það hefði viljað svo illa til, að hæstv. núv. ríkisstj. hefði komið að þessu leyti fram í sinni verstu mynd varðandi þetta frv. Þar gerði hún varanlega aukningu launaskatts um 11/2 %, sem átti að verða til bráðabirgða, en gerði til bráðabirgða 1% launaskattinn, sem var varanlegur samkv. lögum frá 1965 sem tekjuöflun fyrir byggingarsjóð ríkisins. Hæstv. ráðh. lýsti því yfir, að það hefði ekki verið meiningin að rýra möguleika byggingarsjóðs ríkisins og nánast hefði þetta verið misskilningur. Og hæstv. ráðh. sagði í framhaldi af þessu, með leyfi hæstv. forseta: „Ég skal segja meira. Ég skal tilkynna ráðuneytisstjóranum í fjmrn. um þessa yfirlýsingu mína og biðja hann að sjá um, að þannig verði frá málinu gengið, ef það kemur hér fram aftur á þingi, sem það gerir alltaf sem tekjustofn byggingarsjóðsins. Það er ekki á bak við þetta nein hugsun um að skerða þann sjóð, enda held ég, að flestum sé kunnugt um, að sú leið væri lítt fær, nema þá að önnur fylgdi þar til úrbóta. Þetta er ekki komið inn af því, heldur af því einu, að hv. fjhn. Nd., þegar hún gekk frá þessari breytingu, þá gekk hún frá frv. í heild, vegna þess að í 1. gr. frv. var þessu blandað saman af hálfu rn. Þessa yfirlýsingu er mér ljúft að gefa, því að það er ekki ætlunin að skerða á neinn hátt þennan tekjustofn byggingarsjóðs ríkisins“.

Nú þurfti ekki lengi að bíða, þar til mál þetta kæmi aftur fyrir Alþ. Vil ég vekja athygli á því, að hæstv. ráðh. hefur ekki gert þá bragarbót í þessu efni, sem hann lofaði. Enn þá liggur mál þetta fyrir í þeirri mynd, að 1% launaskatturinn, tekjustofn byggingarsjóðs ríkisins, á ekki að gilda nema til þessara áramóta. Nú er ég ekki að segja það og vil ekki meina það, að hæstv. ráðh. hafi vísvitandi gengið hér á bak orða sinna, en hér er um svo þýðingarmikið mál að tefla, að ég tel nauðsynlegt að fá að heyra, hvað ráðh. segir um þetta.

En nú er málið orðið enn þá alvarlegra en var í des: s.l. Þá var einungis, — sem var þó nógu slæmt, — gengið þannig frá málinu, að þessi tekjustofn byggingarsjóðs ríkisins gildir að formi til ekki nema til ársloka. En með þessu frv. er gengið það langt, að það er strax skertur tekjustofn byggingarsjóðs ríkisins af launaskattinum, sem nemur um 25 millj. kr. Þetta er hreinlega tekið af byggingarsjóði ríkisins á þessu ári, sem nú er að líða, á sama tíma sem hér er verið að ræða um frv. til breyt. á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem fela í sér stórkostleg útgjöld fyrir byggingarsjóð ríkisins, án þess að um nokkra tekjuöflun sé að ræða. Nú þykir mér því nokkuð langt gengið.

Þetta liggur í því, að þegar launaskatturinn samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, er felldur niður af tekjum sjómanna, lögskráðra á íslenzk fiskiskip, fellur allur launaskatturinn niður, ekki einungis 11/2%, sem gengur í ríkissjóð, heldur 1%, sem gengur í byggingarsjóð ríkisins. Nú segir í aths. með þessu frv., sem hér liggur fyrir, með leyfi hæstv. forseta:

„Er fiskverð var ákveðið um s.l. áramót, gaf ríkisstj. fyrirheit þess efnis, að hún mundi beita sér fyrir, að launaskattur (2.5%) af launagreiðslum til lögskráðra áhafna á fiskiskipum yrði felldur niður frá og með 1. janúar 1973. Frv. þetta er flutt til efnda á fyrirheitum þessum: `

Ríkisstj. gefur samkvæmt þessu fyrirheit um, að ríkissjóður sleppi ákveðnum tekjum, til þess að þær komi til góða útgerðinni í landinu, en jafnframt leyfir ríkisstj. að gefa yfirlýsingu um það, að það skuli skertar tekjur byggingarsjóðs ríkisins sem svarar 1% launaskatt af tekjum sjómanna. Hér er nokkuð langt gengið.

Þessi mál komu til umr. á þessu þingi fyrir hátíðar í sambandi við frv. til breyt. á orlofslögum. Þá var gerð till. um að hækka orlofsgreiðslur á útgerðinni. Það hafði verið í lögum frá síðasta þingi gert ráð fyrir því, að ekki þyrfti að greiða orlof af tekjuskattsfrjálsum tekjum sjómanna. Þetta skyldi nú breytast eða falla niður, en þetta var samningsatriði milli sjómanna og útgerðarmanna, þegar orlofsgreiðslur á síðasta þingi hækkuðu úr 7% í 8.33%. Þessi breyting náði fram að ganga. En það kom þá fram hugmynd frá L.Í.Ú., sem greint var frá hér í þinginu, að til að mæta þessari hækkun orlofsgreiðslna útgerðarinnar yrði felldur niður 11/2% launaskatturinn af tekjum sjómanna. L.Í.Ú. kom ekki til hugar, að það væri fær leið að fella líka niður 1% launaskattinn og rýra þannig tekjur byggingarsjóðs ríkisins.

Nú efast ég ekki um, að útgerðin þurfi á þessu að halda. Ef 11/2 % launaskatturinn hefði verið felldur niður, taldi L.Í.Ú., að það mundi þýða til góða fyrir útgerðina í landinu um 371/2 millj. kr. Er þá lagt til grundvallar, að aflahlutir sjómanna samkv. áætlun valkostanefndar séu 2500 millj. kr. á ári. Nú gengur ríkisstj. með þessu frv. lengra, þannig að miðað við þessa útreikninga má ætla, að það, sem kemur útgerðinni til góða, séu a.m.k. um 50 millj. kr. En þetta er bara gert á kostnað byggingarsjóðs ríkisins með þeim hætti, að tekjur byggingarsjóðs lækka á ársgrundveili um 25 millj. kr. Þetta þykir mér mjög alvarlegt mál.

Ég vildi nú í fyrsta lagi fá að heyra, hvað hæstv. fjmrh. segir um þetta mál, eins og það liggur nú fyrir. Og í öðru lagi þættu mér það skynsamleg vinnubrögð, að hv. fjh.- og viðskn. tæki mál þetta aftur til athugunar, áður en þessari umr. lýkur.