16.04.1973
Efri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3603 í B-deild Alþingistíðinda. (3219)

236. mál, launaskattur

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir að ítreka þá yfirlýsingu frá því fyrr í vetur, að hann muni gera ráðstafanir til þess að koma þeirri skipan á, að launaskattur til byggingarsjóðs ríkisins verði varanlegur eins og áður hefði verið. En ég vil lýsa vonbrigðum yfir því, að hæstv. ráðh. tjáði sig ekki um það atriði, að með þessu frv. er lagt til, að tekjur byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári séu skertar um 25 millj. Mér finnst, að það sé svo alvarlegt mál, að það verði að taka til athugunar, og mér þykir leitt, að hæstv. fjmrh. skuli ekki láta það koma fram, hvort þetta er viljaverk eða óviljaverk, eins og hin yfirsjónin er.

Ég hallast frekar að því, fyrst hæstv. ráðh. tjáir sig ekki um svo veigamikið atriði sem þetta, að hér muni vera um viljaverk að ræða. En ef svo er, þá finnst mér fyrst kastað tólfunum í öllu ábyrgðarleysinu gagnvart fjármálum byggingarsjóðs ríkisins, ef á sama tíma, sem verið er að leggja til stóraukin útgjöld upp á hundruð millj. hjá þessum sjóði, er jafnframt verið að skerða tekjur sjóðsins. En þó að hæstv. ráðherra hafi ekki af einhverjum dularfullum ástæðum viljað tjá sig um jafneinfaldan hlut og þennan, finnst mér, að virðing d. liggi við, að hv. félmn., auk hv. fjh.- og viðskn., taki þetta mál til athugunar. Þá á ég við og beini þeim tilmælum til hæstv. forseta, form félmn., að hann kveðji n. á fund til þess að ræða frekar húsnæðislagafrv. ríkisstj., áður en það kemur til 3. umr., — þetta verði gert í ljósi þeirra upplýsinga, sem hér hafa komið fram, að með frv. því, sem hér er til umr., er verið að skerða tekjustofna byggingarsjóðs ríkisins.

Mér þætti einnig rétt, að hv. fjh: og viðskn. leitaði frekari skýringa á þessu atriði hjá hæstv. fjmrh. Ráðherranum ætti að vera innan handar að gefa einhverja skýringu á nefndarfundi fyrst hann hefur kosið að sinni að gefa þá skýringu ekki hér.