16.04.1973
Neðri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3608 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Í tilefni af þeirri fyrirspurn, sem hér hefur komið fram frá hv. 7. landsk. þm. varðandi þær breyt., sem gerðar voru á 26. gr. frv. í Ed., með sérstöku tilliti til þeirra breyt., sem voru gerðar á þessari gr. í Nd. áður, skal ég taka það fram, að sú breyt., sem gerð var í Ed., breytir að mínu áliti ekki á neinn hátt þeirri samþykkt, sem var gerð við afgreiðslu málsins í Nd. Áfram stendur það, að til þess er ætlazt, að í reglugerðinni verði ákveðið, að í hverju læknishéraði skuli vera a.m.k. eitt deildaskipt sjúkrahús. Hafði verið gert ráð fyrir því í samþykktinni í Nd. að undanskilja þó sérstaka geðdeild í sambandi við slík deildaskipt sjúkrahús. Það atriði hefur verið fellt niður í Ed., en í staðinn kemur mjög almennt orðalag um það, að þessi deildaskiptu sjúkrahús skuli vera með þeim deildum, sem þar eru taldar og við verður komið.

Þessi orðalagsbreyting, sem gerð var í Ed., breytir ekki á neinn hátt þeirri ætlun með afgreiðslunni hér í Nd., að stefnt sé að því að ákveða í reglugerð, að deildaskipt sjúkrahús skuli vera a.m.k. eitt í hverju læknishéraði.