16.04.1973
Neðri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3609 í B-deild Alþingistíðinda. (3242)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins, áður en ég skýri frá áliti okkar, leiðrétta brengl, sem orðið hafa hjá mér í handriti að nál. minni hl. Þar segir, að „á fund n. hafi komið“. Þetta var á fund sjútvn. Ed. Þeir komu þar og skýrðu frá þessu áliti sínu, þeir menn, sem vitnað er þarna í, Jón Sigurðsson, form. Sjómannasambands Íslands, og Kristján Ragnarsson, form. L.Í.Ú., en hins vegar höfðum við í minni hl. símasamband við fulltrúa frá þessum aðilum, og staðfestu þeir skoðanir formanna viðkomandi samtaka.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að fara efnislega út í umr. um málið. Það hefur verið gert hér margoft í umr. að undanförnu, og sé ég ekki ástæðu til að fara frekar í það en kemur fram í minnihlutaáliti okkar. En niðurstaða okkar er sú, að málinu verði vísað til ríkisstj.

Brtt., sem ég hef flutt ásamt nokkrum þm. á þskj. 741, er tekin aftur til 3. umr.