16.04.1973
Neðri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3613 í B-deild Alþingistíðinda. (3245)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það, sem fyrst og fremst er aðkallandi hvað snertir stofnlánadeild landbúnaðarins um þessar mundir, er aukin tekjuöflun til deildarinnar. Get ég því fallizt á það, sem segir í nál. frá 1. minni hl. landbn. Ed. um frv. til l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins og byggingar í sveitum, svo og brtt. á þskj. 705, sem að vísu hefur verið horfið frá um sinn. Í þeim brtt. var tekið upp það, sem laut að tekjuöflun í I. kafla frv., þ.e. ákvæði 4. gr. Nú skilst mér, að dregið hafi saman með ólíkum sjónarmiðum hv. þm. í Ed. á þann veg, að hugmyndin sé nú orðin sú að lögfesta aðeins 1. kafla frv., þ.e. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, með smávægilegum breytingum, en láta allt annað bíða, sem hangir á spýtunni. Þar er um að ræða þrjá kafla þessa frv., en auk þess nokkur önnur frv., sem lögð hafa verið fram fyrir fáum dögum, m.a. frv. til l. um heykögglaverksmiðjur ríkisins og frv. til jarðalaga, enn fremur mætti nefna frv. til ábúðarlaga.

Það er oft svo, þegar menn vilja laga einhverja framkvæmd í hendi sér eða fella í annan farveg, að þá er lögum breytt jafnvel meira en nauðsyn krefur. Þannig verða stundum til lög eða lagakaflar, sem aldrei komast í framkvæmd, t. d. sökum þess, að fjármagni er ekki veitt í æðar kerfisins, svo sem ýmis dæmi finnast um.

Lögin um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum voru vandlega endurskoðuð fyrir stuttu. Þau voru samþ. á Alþ. 5. apríl 1971 og hafa því rétt náð tveggja ára aldri. Það verður því ekki sagt, að rík nauðsyn hafi kallað á skjóta endurskoðun nú. Samkv. aths. við lagafrv. hafa unnið að þeim tvær n. Að þessu frv. hefur unnið n., sem skipuð var af landbrh. 29. sept. 1972. Það er 9 manna n., skipuð valinkunnum sæmdarmönnum, og þeim tíunda var bætt við síðar. Í skipunarbréfinu var n. gefinn leiðarvísir í þá átt, að eitt af hennar höfuðverkefnum átti að vera að leggja Landnám ríkisins niður. Ég fagna því, að ekki hefur gefizt nægur tími til þess að jafna þessa merku stofnun við jörðu. Vona ég, að meira ráðrúm gefist áður en svo langt er gengið. Það voru nokkur önnur ákvæði, sem n. var falið að athuga sérstaklega, svo sem um Stofnlánadeild landbúnaðarins, stjórn hennar og fjárhagsaðstöðu, enn fremur byggingu og rekstur grænfóðurverksmiðja. En auk þess starfaði að náskyldu málefni þriggja manna n., sem vann að endurskoðun fjögurra lagabálka, eins og nánar segir hér í aths. um þetta frv.

Ekki skal dregið í efa, að n. þessar báðar hafa unnið gott starf á sinn hátt. Verkefnin hafa þó reynzt ærið drjúg. Frv. koma svo seint fram, að útilokað er að leggja þau fram öðruvísi en til sýningar og kynningar. Þegar svo er í pottinn búið, ber að varast að samþykkja önnur ákvæði en þau, sem óhjákvæmilegt er að lögfesta þegar í stað. Það eru eins og fram hefur komið, fyrst og fremst þau ákvæði, sem lúta að tekjuöflun stofnlánadeildar eins og ég áður sagði.

Hvers vegna er stofnlánadeildin svo mikils fjár vant nú? Það er m.a. vegna þess, að lögskipað er að lána til framkvæmda með mun hagstæðari kjörum en eru á mörgum þeim lánum, sem deildin hefur sjálf orðið að taka á undanförnum árum. Bent hefur verið á, að samtals hafi verið tekin erlend lán frá 1953 að fjárhæð 159 millj. kr. Greiddar afborganir og vextir hafa þegar numið 290 millj. kr., en eftirstöðvar lána þessara eru þó 270 millj. kr. Samkv. ítarlegri og mjög vel unninni grg., sem gerð hefur verið á vegum Búnaðarbanka Íslands, nemur heildarútlánaþörf stofnlánadeildarinnar á árinu 1973 643 millj. kr., ef miðað er við umsóknir eða útlánaóskir bænda, eins og það hefur verið orðað. En eigið fé deildarinnar til ráðstöfunar í þessu skyni á árinu 1973 er aðeins 71 millj. kr. Samkv. þeim fjáröflunaráætlunum, sem uppi eru, er gert ráð fyrir að afla fjárhæðar að upphæð 421 millj. kr. Nemur þá fjárvöntun 220 millj. kr. Sjá þá allir, að teflt er á tæpasta vað, hvað fjáröflun varðar, a.m.k. ef fylgja á svipuðum lánareglum og gert hefur verið undanfarin ár.

Sé það full og endanleg ákvörðun valdhafa að láta samþykkja allan I. kafla þessa frv., er rétt að gera örfáar athugasemdir við ákvæði hans.

Það er að sjálfsögðu mörg ákvæði í þessum kafla, sem eru æskileg og sjálfsögð, svo sem upphaf 1. gr., þar sem segir: „Stofnlánadeild landbúnaðarins er deild í Búnaðarbanka Íslands.“ það er samband, sem verið hefur frá öndverðu, og náin samvinna milli Stofnlánadeildar landbúnaðarins og Búnaðarbankans má aldrei rofna að mínum dómi, miklu fremur ber að hlynna að henni og efla á allan hátt.

2.–3. gr. lúta að því atriði, sem n. var sérstaklega falið að athuga, að Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands skuli hafa nokkru meiri áhrif á útlánareglur deildarinnar en nú er. Þó að þessi ákvæði komi að mínu áliti mjög vel til greina, hygg ég þó að ekki væri verra að athuga þau efni nánar, þótt ekki væri nema með hliðsjón af öðrum svipuðum ákvæðum vegna fordæmis.

Ég stikla aðeins á örfáum atriðum. Í 5. gr. þegar talað er um verkefni stofnlánadeildar, er sagt undir 1. tölul., að hún eigi að lána til jarðakaupa, m.ö.o. að hún eigi að taka við verkefnum veðdeildar, a.m.k. þegar fram líða stundir, eins og tekið er fram í ákvæði til bráðabirgða við frv. eins og það kemur frá Ed. Þar er sagt. að 1. liður 5. gr. I kafla laganna komi ekki til framkvæmda, fyrr en ákvæðum laga um veðdeild Búnaðarbanka Íslands hafi verið breytt til samræmis við lög þessi. Þarna eru enn ein lög eða lagakafli, sem þarf að endurskoða, áður en hægt er að framkvæma þetta. Við vitum, að bæði lánstími, vaxtakjör og fleira er með öðrum hætti í veðdeild en stofnlánadeild. Þessi atriði og önnur, sem rætt er um í 6. gr. frv., þess efnis, að lánareglur deildarinnar skuli fyrst og fremst miðaðar við það, að bændur, sem hafa minna en verðlagsgrundvallarbú, njóti þeirra og að sérreglur eigi að gilda, þegar bú stækka, þá held ég að skoða þurfi þessi ákvæði nánar, að ekki sé meira sagt. Það má vel vera, að rík nauðsyn sé á því að fitja upp á slíkum reglum, en ég álít jafnsjálfsagt að athuga þessi ákvæði mun betur.

Í umr. um þetta mál í hv. Ed. sagði hæstv. forsrh. eitthvað á þá leið, að menn ættu ekki að láta sér þennan lagabálk í augum vaxa, því að hann væri að mestu endurtekning á ákvörðun, sem fyrir væru í lögum. Sé þetta rétt, sem ég leyfi mér ekki að draga í efa, þótt tími hafi ekki unnizt til að sannprófa það, ekki a.m.k. nákvæmlega, þá er þeim mun minni ástæða til að samþykkja nema það allra nauðsynlegasta á þessu þingi. Þá er þvert á móti rík ástæða til að gefa sér góðan tíma til að kanna þessi málefni í samhengi, öll þessi náskyldu frv., sem nýkomin eru fram á sjónarsviðið, og þau, sem væntanleg eru. Þá mun koma á daginn, að nauðsynlegt er að lögfesta ákvæði um frekari tekjuöflun, en flest annað megi að skaðlausu bíða um sinn. Þetta vil ég biðja hv. landbn., sem fær þetta mál til meðferðar, að hugleiða dálítið nánar, áður en hún afgreiðir frv.