16.04.1973
Sameinað þing: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3645 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

Skýrsla um utanríkismál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Í málefnasamningi ríkisstj. er komizt svo að orði: „Á hverju Alþ. skal gefin skýrsla um utanríkismál og fari þar fram almennar umr. um þau“. Samkvæmt þessu voru fluttar 2 skýrslur um utanríkismál í fyrra. Réttara sagt var fyrri skýrslan flutt hér í hittiðfyrrahaust af hæstv. utanrrh., og um hana urðu allítarlegar umræður um utanríkismál, eins og vera bar. Seinni skýrslan kom ekki fyrr en í lok síðasta þings, og hún var hvorki flutt né urðu um hana umr. Nú á þessu þingi er útbýtt skýrslu um utanríkismál, þegar styttri tími en vika er eftir af þingi, eða síðdegis s.l. föstudag, og umr. fara fram um hana nú. Ég skildi þetta ákvæði í málefnasamningi ríkisstj. sem fyrirheit um það, að utanríkismál skyldu jafnvel hljóta veglegri sess í umr. alþm. en verið hafði. Þó var það svo, að skýrslugjöf um utanríkismál var tekin upp af hálfu fyrrv. ríkisstj., viðreisnarstjórnarinnar, og þótt ég hafi ekki setið mörg samfelld þing á tímum viðreisnarstjórnarinnar, hygg ég, að umr. hafi þá farið fram um slíkar skýrslur. En þó að hér átt hafi að gera bót og betrun á vinnubrögðum Alþ., er ljóst af reynslu þessara tveggja þinga, að þessi tilraun núv. hæstv. ríkisstj. hefur algerlega mistekizt. Hér í dag hafa umr. gengið þannig til, að fundum hefur verið frestað hvað eftir annað og því er ljóst, að þessum mikilvægu málum er ekki sýndur nægilega mikill sómi. Ég vil þess vegna í upphafi máls míns beina þeirri eindregnu áskorun til hæstv. ríkisstj. og hæstv. utanrrh., að önnur vinnubrögð verði tekin upp, þ.e.a.s. ef þeim endist líf og heilsa í stjórnarstólunum til þess að bæta ráð sitt.

Það er svo, að undir þessum kringumstæðum verður ekki ítarlega um málið rætt. En ég vil þó að lokinni þessari gagnrýni þakka hæstv. utanrrh. fyrir að láta þó ekki falla niður að gefa slíka skýrslu um utanríkismál. Ég tel, að hún sé mikilvæg út af fyrir sig og þakkarverð. Það er að vísu svo, að flest í þessari skýrslu er almenns eðlis og margt af því er kunnugt úr fréttum blaða og útvarps, og er því þar ekki um nýjung að ræða. Þó er nokkuð á því að græða að fá yfirlit yfir störf nýlokins undirbúningsfundar fyrir hafréttarráðstefnuna, sem sýnir, að við stöndum vel að vígi í fiskveiðilögsögumálum okkar, að því er þróun þeirra snertir á þeim fundum.

Ég verð að segja það eins og er, að ég finn fátt í þessari skýrslu um utanríkismál, sem tilheyrir stefnumótun í utanríkismálum, og því síður margt, sem ber vitni um sjálfstæðari og einbeittari stefnu í utanríkismálum en tíðkaðist á tímum viðreisnarstjórnarinnar. Það gæti kannske verið, að hér sé átt við stefnumótunina að því er snertir viðskiptasamningana við EBE. Í þessari skýrslu er mjög eindregið tekið undir nytsemi þeirra samninga. Við vitum þó, að það var nokkur ágreiningur um fullgildingu þessara samninga, að því er snertir viðskiptasamning okkar við EBE. Það átti sér ekki stað fyrr en stjórnarandstaðan krafðist þess, að þessir samningar skyldu fullgiltir. Alþb. sýndist ganga þar nauðugt til leiks og vera þeirrar skoðunar, að fresta bæri a.m.k. fullgildingunni. Þetta var í samræmi við afstöðu Alþb. til inngöngu Íslands í EFTA og þau rök Alþb. þá, að það mundi leiða yfir Ísland og Íslendinga aukin tengsl við EBE. Framsóknarmenn, sem tóku á sínum tíma ekki afstöðu til inngöngu okkar í EFTA, höfðu þó skoðun í þessu máli, og þakka skyldi forustuflokki í ríkisstj. það, að hann fylgdi fullgildingunni, þrátt fyrir það að hæstv. utanrrh. gerði alla vega við umr. um skýrslu um utanríkismál að hausti í hittifyrra mjög lítið úr nytsemi aðildar okkar að EFTA. Mér þykir þess vegna vænt um að sjá það, sem stendur í þessari skýrslu á bls. 18, með leyfi í orseta :

„EFTA hefur enn þá mikla þýðingu fyrir viðskipti þessara landa, en einnig fyrir samskipti landanna við EBE“.

Ég tek heils hugar undir þau orð í skýrslunni, að vonandi notar EBE sér ekki fyrirvarann um að láta ekki tollaívilnunina vegna sjávarafurða taka gildi, fyrr en samningar takast í fiskveiðideilunni. Ef svo skyldi fara þá skulum við um leið hafa í huga, hvort ekki sé ástæða til þess að leggja áherzlu á, að bráðabirgðasamningar takist í fiskveiðideilunni, því að hér eru miklir hagsmunir í veði. Af einni ísfiskssölu togara getur lækkun tolla numið 500—600 þús. kr.

Ég held, að meðferð núv. ríkisstj. á verzlunarsamningum okkar við EBE eða aðild okkar að EFTA beri ekki vitni um sjálfstæðari og einbeittari utanríkisstefnu en fyrrv. ríkisstj. hafði. Núv. ríkisstj, hefur þrátt fyrir það að aðstandendur hennar gagnrýndu stefnu fyrrv. stjórnar á þessu sviði, fylgt nákvæmlega sömu stefnu og fyrrv. stjórn, og er það þakkarvert.

Þá vil ég hverfa að því, sem segir í skýrslunni um gang heimsmálanna, og drepa á þá þíðu, sem sýnist vera í skiptum stórveldanna og hernaðarbandalaganna hér í álfu. Það var að vísu svo að skilja á hv. 3. landsk. þm. hér áðan, að þetta væri hinni sjálfstæðu og einbeittu utanríkisstefnu núv. hæstv. stjórnar að þakka. Það mátti jafnvel á honum skilja, að viðleitni Brandts væri runnin af hvötum og frumkvæði núv. ríkisstj. Íslands. Ég held nú, að ef þessi hv. þm. hugsar sig betur um, komist hann að raun um, að hann hafi tekið heldur mikið upp í sig.

Sannleikurinn er sá, að þessi þróun í alþjóðastjórnmálunum á annars vegar rætur sínar að rekja til frumkvæðis stórveldanna, svokallaðra forustuþjóða, Bandaríkjanna og Rússa og Bandaríkjanna og Kína, og hins vegar á þessi þróun rætur sínar að rekja til Atlantshafsbandalagsins og sumpart Varsjárbandalagsins. Menn skulu minnast þess, að það var á fundi Atlantshafsbandalagsins hér í Reykjavík 1968, að gerð var till. og hún samþ. um það, að Atlantshafsbandalagið skyldi fara fram á, að viðræður hæfust um gagnkvæman, samhliða samdrátt herja í Mið-Evrópu. Viðræðurnar eru nú hafnar, og vonandi leiða þær til þess, að um rannverulegan samdrátt herja verði að ræða á þessu landssvæði. Það er því ekki um að ræða neina nýja eða sjálfstæða stefnu í utanríkismálum umfram það, sem áður var, þegar íslenzka ríkisstj. fylgist með og tekur þátt í t.d. öryggismálaráðstefnunni í Helsingfors. En hitt er athyglisvert, að í þessari skýrslu kemur ekki fram, — og það er kannske til of mikils ætlazt, að það komi fram, - hver stefnumótun Íslendinga er á þessum vettvangi, eins og t.d. á fundum um öryggismálaráðstefnuna og hins vegar gagnvart viðr. í Vín um gagnkvæman, samhliða samdrátt herafla í Mið-Evrópu. Við eigum ekki fulltrúa á síðarnefndu fundunum, en hins vegar geta þeir fundir og þær viðræður skipt okkur miklu máli. Ég vil einkum taka undir þau ummæli á bls. 2, þar sem hæstv. utanrrh. segir í skýrslu sinni: „Ber því að vona, að tilætlaður árangur verði af þessum viðræðum og ekki verði látið þar við sitja. Hef ég þá einkum í huga hinn sívaxandi vígbúnað stórveldanna á höfunum, ekki hvað sízt við bæjardyrnar hjá okkur á Norður-Atlantshafi, sem að mínu áliti ber nauðsyn til að stemma stigu við“.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að viðræðurnar í Vín um samdrátt herja í Mið-Evrópu hafa leitt til þess, að ýmsar nágrannaþjóðir okkar hafa óttazt, að samdráttur á þeim slóðum yrði til þess, að um meiri vígbúnað yrði að ræða á fyrstu mörkum varnarlína Atlantshafsbandalagsins annars vegar og Varsjárbandalagsins hins vegar, þ.e.a.s. að aukinn vígbúnaður yrði t.d. hér í Norðurhöfum. Það er okkur Íslendingum mikils virði, að þessar viðræður um samdrátt herafla í Mið-Evrópu leiði ekki til þeirrar þróunar, heldur hins, að samdráttur flotastyrks í Norðurhöfum verði í kjölfar samdráttar herafla í Mið-Evrópu. Ég hygg, að það sé alveg tómt mál að tala um verulega breytingu á öryggismálum Íslands, fyrr en það er orðið að veruleika, að slíkur samdráttur eigi sér stað í Norðurhöfum, gagnstætt auknum vígbúnaði annars stórveldisins í Norðurhöfum, eins og upplýsingar liggja fyrir um, að Sovét-Rússland standi fyrir.

Það er og ljóst, að þessar ráðstefnur og þessir fundir taka langan tíma, og það er nauðsynlegt að taka á mikilli þolinmæði, jafnvel fyrir bjartsýnustu menn, þar til einhver árangur kemur í ljós. Það er, hygg ég, tómt mál að tala um verulega breytingu á öryggismálum Íslands og varnarmálum, fyrr en þessi árangur er í raun og veru kominn í framkvæmd. Við skulum öll vona, að þessi árangur verði, en á meðan hann er ekki kominn fram í raun, skulum við fara okkur hægt og alla vega gæta þess, að spilla ekki þeim viðræðum með því að veikja varnarmátt Atlantshafsbandalagsins með einhliða aðgerðum. Við vinnum ekki aðeins okkur sjálfum tjón með slíkum einhliða aðgerðum, heldur og nágrönnum okkar og vinaþjóðum, sem við ætlumst til að standi með okkur, ef við þurfum á að halda. Við skulum þess vegna gæta að, hver hagur nágrannans er, en þó fyrst og fremst okkar sjálfra í þessum efnum.

Það hefur ekki verið mjög mikið rætt um varnarsamninginn og endurskoðun hans eða uppsögn á þessi þingi. Ég býst við því, að það byggist á því, að bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa lýst yfir þeim skilningi sínum á málefnasamningi ríkisstj., að ekki væri búið að ákveða, að varnarliðið færi, heldur mundi ákvörðun um það fyrst verða tekin, þegar könnun málsins væri lokið, og það væri Alþingis að taka þá ákvörðun.

Í umr. 30. nóv. s.l. á Alþ. sagði utanrrh. orðrétt með leyfi forseta eftirfarandi:

„Ég hef áður lýst því yfir og geri enn, að engin ákvörðun í þessu máli verður tekin án samráðs við Alþ. og að vel athuguðu máli“.

Þetta loforð hæstv. utanrrh. og sams konar yfirlýsingar frá forsrh. hafa orðið til þess, að menn hafa ekki tekið mark á gagnstæðum yfirlýsingum ráðh. Alþb. í þessum efnum. Málgagn Alþb. lætur að vísu að því liggja í leiðara 11. apríl s.l., að rétt sé að segja samningnum upp nú þegar eða fara strax að láta líða uppsagnarfrestinn samkv. 7. gr. hans. En samkv. þeirri yfirlýsingu utanrrh., sem ég las upp hér áðan, vil ég ekki trúa því, að hann gangi á bak þeirra orða sinna, þótt kommúnistar krefjist þess. Ég hef ekki ástæðu til að ætla, að hann hafi annað í huga en að standa við orð sín, en vil þó geta um, að þótt ekki séu mörg orðin um varnarmálin í skýrslu um utanríkismál, þá er þó þetta sagt þar, með leyfi forseta:

„Það er ásetningur minn, að endanleg ákvörðun ríkisstj. geti byggzt á sem fullkomnustum upplýsingum. En það fer ekkert á milli mála, að það er algerlega á valdi íslenzku ríkisstj., hver sú endanlega ákvörðun verður og hvenær hún verður tekin. Ákvörðun ríkisstj. um endurskoðun varnarsamningsins verður því væntanlega tekin bráðlega“.

Ég vil í tilefni þessara orða taka það fram, að ég vil fyrst og fremst skilja þau þannig, að hér sé áréttaður einhliða réttur Íslendinga til þess að krefjast endurskoðunar og segja upp varnarsamningnum. Sá einhliða réttur Íslendinga er ótvíræður. Þannig var frá varnarsamningnum gengið, og að því leyti til er ég algerlega sammála þessum orðum.

Ég fagna því líka, að þar er tekið fram, að endanleg ákvörðun ríkisstj. geti byggzt á sem fullkomnustum upplýsingum. Þær upplýsingar hljóta m.a. að vera sá árangur, sem hefur orðið í þeim könnunarviðræðum, sem hæstv. utanrrh. hefur átt í við Bandaríkjamenn. Það hafa að vísu ekki margar skýrslur verið gefnar út af tilefni þeirra viðræðna. Ég man í fljótu bragði ekki eftir öðrum skýrslum, sem lagðar hafa verið fram í utanrmn., en í fyrsta lagi rúmlega ársgamalli skýrslu um áhrif varnarliðsins og athafna þess í efnahagsmálum landsmanna, sömuleiðis skýrslu, sem gerð var af sænskum sérfræðingi um hernaðarþýðingu Íslands, þá skýrslu hæstv. utanrrh. um viðræðurnar í Washington í lok jan. s.l., og loks var lesin upp í utanrmn. grg. frá aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, Joseph Luns, um hernaðarlegt mikilvægi Íslands og afstöðu Atlantshafsbandalagsins til varnarsamningsins. Með því annars vegar, að þarna var um upplestur að ræða á einni skýrslunni og tekið fram, að þar væri um algert trúnaðarmál að ræða, og hinar skýrslurnar eru merktar algert trúnaðarmál, er ekki efni til þess hér að rekja innihald þeirra. Ég tel þó alveg ljóst mál, að það væri full ástæða til þess, a.m.k. í utanrmn., að ræða þessi mál, áður en sú ákvörðun væri tekin að láta fresti samkv. 7. gr. varnarsamningsins hefjast. Og sömuleiðis tel ég mig ekki brjóta trúnað, þegar ég get þess, — ég held raunar, að hæstv. utanrrh. hafi gert það hér á Alþ., — að hann taldi nauðsynlegt eftir för sina til Bandaríkjanna í lok jan. s.l., að frekari könnun færi fram á ýmsum hliðum þessara mála. Ég tel rétt, með tilvísun til orða í skýrslu um utanríkismál, að þessi frekari könnun sé til staðar, áður en frestir samkv. 7. gr. varnarsamningsins hefjast. Hæstv. utanrrh. hefur látið þess getið, bæði í umr. um þessi mál á þinginu síðasta og á þinginu nú og eftir að hann kom frá Bandaríkjunum, að það hefði ekki verið um það að ræða, að frestir samkv. 7. gr. varnarsamningsins hefðu hafizt eða sú ákvörðun hefði verið tekin af hálfu ríkisstj., sem hefði það í för með sér.

Vissulega liggur það fyrir samkv. orðanna hljóðan í 7. gr. varnarsamningsins, að hvor ríkisstj. getur hvenær sem er, að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstj., farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á framangreindri aðstöðu, þ.e.a.s. aðstöðu varnarliðsins að halda, og gert till. til beggja ríkisstj. um það, hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Hér er um 6 mánaða frest að ræða, sem hvor ríkisstj. hefur til þessa, og að loknum þeim fresti getur hún síðan tekið ákvörðun um, hvort hún vilji, hvor um sig, segja varnarsamningnum upp eða ekki. Ég vil leggja áherzlu á það, að ég tel málið ekki á neinum þeim tímamótum nú, að hefja beri uppsagnarfresti samkv. ákvæði 7. gr., heldur sé það eðlilegt, með tilvísun til yfirlýsingar bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., að málið sé kannað í heild sinni, og þ.á.m. hefur þegar verið leitað álits Norður-Atlantshafsbandalagsins. Það má gera enn á ný, án þess að slíkir uppsagnarfrestir taki að líða. Ég tel nauðsynlegt, að þetta komi fram, því að mig grunar, að það sé þrýstingur frá ráðh. Alþb., sem e.t.v. ráði því, að hæstv. utanrrh. geti verið leiddur í þá freistni að vera þeim eftirlátur um of.

Ég vil í þessu sambandi taka það fram, að einn þáttur hinnar sjálfstæðu og einbeittu utanríkismálastefnu núv. hæstv. ríkisstj. var fólginn í því að heimila lengingu flugbrauta á Keflavíkurflugvelli. Það var að vísu gert með svokölluðum mótatkv. ráðh. Alþb. innan ríkisstj., sem sögðu forsendur brostnar fyrir sjálfstæðri, íslenzkri utanríkisstefnu með þeirri ákvörðun. Vitnisburður ráðh. innan þessarar ríkisstj. er því fyrir hendi um það, að þetta fyrirheit í málefnasamningi um sjálfstæða og einbeitta utanríkisstefnu hefur ekki verið efnt.

Ég vil einnig taka það fram, að síðan hafa verið heimilaðar margar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, og það er því tómt mál, þegar formaður Alþb., hv. 4. þm. Norðurl. v., les hér upp yfirlýsingu af hálfu Alþb. um, að ekki skuli heimilaðar frekari framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Nú fara fram frekari framkvæmdir á Keflavikurflugvelli á ábyrgð og með þegjandi samþykki ráðh. Alþb. Og ég hygg, að ég geti nokkurn veginn fullvissað hæstv. utanrrh. um, að hann þarf ekki að hlýðnast ráðh. Alþb. af ótta við það, að þeir muni stökkva út úr ríkisstj., þótt hann sé þeim ekki auðsveipur í einu og öllu. Þeim þykir áreiðanlega svo vænt um þau miklu völd, sem þeir hafa í sínum rn., að þeim dettur ekki í hug að láta þetta má1 verða til þess, að ríkisstj. haldi ekki áfram starfi sinu. Þeir munu láta sér lynda, eins og reynslan hefur sýnt, að varnarlið sé á Íslandi. Ég tel þá ekkert út af fyrir sig minni menn fyrir það, nema vegna þess að þeir þykjast hafa áhuga á, að varnarliðið fari, og eru þess vegna ekki sjálfum sér samkvæmir í orðum sínum og gerðum.

Ég skal ekki, herra forseti, gerast miklu fjölorðari um þessa skýrslu um utanríkismál. Að gefnu tilefni þeirra umr., sem hér hafa orðið um landhelgismálið, skal ég þó bæta við þeirri yfirlýsingu, sem hv. 1. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, gaf hér fyrr í umr. En mér finnst þó eftirtektarvert, að þeir, sem helzt og mest leggja áherzlu á þjóðarsamstöðu og sameiningu í landhelgismálinu, eins og hv. 3. landsk. þm. þóttist gera, hvetja á hinn bóginn mest til þess, að látið sé skerast í odda í þessu máli og till. bornar fram, sem fyrir fram er vitað, að ágreiningur er um. Ég vil segja það alveg hreinskilnislega, að ég er sömu skoðunar og hæstv. félmrh., að okkur ber að sækja og verja mál okkar í Haag, að vísu með ekki alveg nákvæmlega sömu forsendum, en þó sumum þeim sömu. En ég tel, að það sé ekki rétt að skipta okkur í flokka í því máli. Ef til vill reynist það óþarft og áður en til þessa komi verði gert bráðabirgðasamkomulag við Breta og Vestur-Þjóðverja, sem gerir það að verkum, að málarekstri fyrir Haag-dómstólnum verði frestað eða hann fellur niður. Og meðan það er ekki ljóst, er óþarfi að deila um þetta út í yztu æsar eða láta til skarar skríða í þeim efnum. Vissulega er þjóðareining og samstaða í landhelgismálinu mjög mikilvæg, en við alþm. verðum þó að fara eftir okkar beztu sannfæringu. Ef við teljum, að þjóðarhag sé betur borgið með öðrum hætti en þeim, sem jafnvel meiri hl. óskar eftir, verðum við að segja skýrt og skorinort frá þeirri sannfæringu okkar. Og menn eiga að vera það þroskaðir og virða lýðræðisreglur svo mikils að óska fremur eftir því, að slík skoðanaskipti eigi sér stað, en leggja áherzlu á, að þau skuli kæfð.

Ég vil í lok þessa máls míns ítreka fsp. mína til hæstv. utanrrh., hvað átt sé við með þeirri tilvitnun, er ég las upp úr skýrslunni um utanríkísmál á bls. 20 og 21. En ég ítreka það, herra forseti, að svo mikilvægu máli sem skýrslu þessari um utanríkismál er sýnd lítil virðing í dagskrá Alþ. Ég tel hér vera um málamyndaefndir á málefnasamningi ríkisstj. að ræða, þar sem lofað er að gefa skýrslu um utanríkismál, svo að umr. geti farið fram á Alþ. um hana. Þessar umr. eru í raun og veru til málamynda. Hér gefst ekki tími eða tækifæri til þess að gera þessum mikilvægu málum eins góð skil og þeim ber