16.04.1973
Sameinað þing: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3655 í B-deild Alþingistíðinda. (3256)

Skýrsla um utanríkismál

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Mér þykir rétt, að örfá atriði komi hér fram, áður en frá þessum málum verður horfið.

Í fyrsta lagi vil ég benda Geir Hallgrímssyni á, að það sé nauðsynlegt að fá skorið úr um vilja Alþ., hvort eigi að senda mann til Haag eða ekki, vegna þess að Morgunblaðið hefur hvað eftir annað, jafnvel dag eftir dag, hamrað á þessu atriði. Það er dálítið erfitt við að eiga, þegar stærsta, voldugasta og útbreiddasta blað landsins hamrar á þeim klofningi, sem á að vera í ríkisstj. og meðal þm., að þetta mál skuli þá ekki vera tekið föstum tökum. Það er þetta, sem er vandinn. Og ég hefði ekki krafizt úrslita í þessu máli, ef ekki einmitt Morgunblaðið, öðrum blöðum fremur, knýr til þess, að þessum málum sé sinnt. Ég vil benda þm. á þetta.

Hæstv. félmrh., þessi með þingflokkinn, sem fer stöðugt minnkandi, lét þau orð falla, að það væri skylda og réttur Íslendinga að mæta fyrir Haag–dómstólnum. Þetta var niðurstaðan. Skylda og réttur Íslendinga að mæta fyrir Haag–dómstólnum. Við skulum athuga þetta lítillega nánar. 15. febr. fyrir ári gerði Alþ. samþykkt um það að segja upp samningnum frá 1961, og þar með var mörkuð sú stefna, að útfærsla fiskveiðilögsögunnar væri eingöngu mál Íslendinga. Það var mörkuð sú stefna frá upphafi, að Íslendingar töldu sig ekki bundna af lögsögu Haag–dómstólsins. Þetta var sú stefna, sem var mótuð með samþykktinni frá 15. febr. 1972, og ríkisstj. hefur alveg réttilega tekið afleiðingunum af því með því að reka þetta mál sem mál Íslendinga einna. Hæstv. félmrh. hefur m.ö.o. sagt, að það sé skylda Íslendinga að mæta fyrir Haag-dómstólnum. Hvernig getur það komið heim? Er þetta ekki mál Íslendinga? Er það skylda þeirra að mæta fyrir dómstólnum í Haag? Og ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Eigum við Íslendingar þá að sæta þeim dómi, sem kveðinn verður upp í Haag, eða er það ætlun hæstv. félmrh., að við sendum þangað mann til þess að verja okkar málstað og hirðum svo ekkert um, hver niðurstaða dómsins verður? Er það hið nútímalega réttarfar, sem hér er átt við?

Við höfum boðað það erlendum mönnum, að þetta væri okkar lífshagsmunamál, þetta væri undirstaðan að tilveru þjóðarinnar. Þess vegna höfum við talið, að þetta væri mál okkar einna, álitið, að erlendir menn ættu ekki að hafa lögsögu í þessu máli. Er það þá rangt, sem við höfum boðað, að þetta sé lífshagsmunamál þjóðarinnar? Er það rangt, sem við höfum boðað, að þetta væri mál Íslendinga einna? Vill ekki hæstv. félmrh. svara því? Við höfum þá e.t.v. logið að erlendum mönnum, að hér væri um að ræða lífshagsmunamál. Við höfum verið með blekkingar. Þetta er m.ö.o. ekki mál Íslendinga einna, heldur er það líka mál erlendra manna. Og ég vil halda áfram. Ég held satt að segja, að sjálfur félmrh. hafi í sínum málflutningi ætíð boðað, að þetta væri mál Íslendinga einna. Þegar hann klauf Vestfirði og vann kosningasigur, boðaði hann, að þetta væri mál Íslendinga einna, og ég hugsa, að það hafi stuðlað að góðum sigri. Þess vegna kemur það mér mjög á óvart, að það skuli allt í einu koma yfirlýsing frá þessum eindregna baráttumanni um fiskveiðilögsöguna, að nú allt í einu skulum við breyta um stefnu og senda mann til Haag. Og ég vil líka vekja athygli á einu, að menn geta kannske verið ólíkrar skoðunar um það, hvort eigi að mæta fyrir Haag-dómstólnum eða ekki. Hins vegar mun sú aðferð, sem hæstv. félmrh. beitti, þegar hann lýsti yfir, vera fádæmi í íslenzkri stjórnmálasögu. Það mun vera einstakt, að einn ráðh. skuli leyfa sér í samkvæmi að lýsa yfir allt annarri afstöðu í lífshagsmunamáli þjóðarinnar án samþykktar og vitundar ríkisstj. Bara sjálf aðferðin er svo merkileg, að hún er ekki finnanleg í stjórnmálabaráttu síðustu áratuga, þannig að það væri dálítið furðulegt, ef einmitt þessi aðferð hæstv. ráðh. kæmi ekki til ofurlítillar umr. á þessu þingi.

Það, sem um er að ræða, er ósköp einfaldlega þetta, sem margsinnis hefur komið fram hér hjá þm. Það er það, að einhugur sé í þessu máli, og fari svo, að það sé meiri hl. fyrir einhverri nýrri stefnu í landhelgismálinu, þá er það skylda allra að reyna að fylgja henni. Hér skiptir mestu máli einhugurinn. Hæstv. félmrh. lýsti því yfir, að menn hefðu frjálsræði til að hafa sínar skoðanir. Um það er ekki að ræða. Það er bara sá háttur, að einn ráðh. úr ríkisstj. gefur út yfirlýsingar, sem stangast á við viðtekna stefnu hennar. Slíkt er náttúrlega ekki fararheill í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar.

Í þessu máli er aðeins ein lausn, og hún er sú, að hæstv. félmrh. segi af sér.