16.04.1973
Sameinað þing: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3657 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

Skýrsla um utanríkismál

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Til þess að framfylgja þeirri orðafroðu, sem fram gekk af vitum hv. 3. landsk. þm. rétt núna. ætti hann að bera fram till. um vantraust a.m.k. á þennan ráðh. sem hann segir, að eigi að segja af sér, af því að hann hafi skoðanir. Og það færi bezt á því, að hann rökstyddi það með því. að hann hefði lýst því, að hann hefði skoðun í landhelgismálinu. (Gripið fram í: En enginn annar.) Ég lýsti því alls ekki yfir í nafni ríkisstj., heldur sagði: Það er mín skoðun. Að þeirri skoðun er ég jafnfrjáls og aðrir að öndverðri skoðun og get vel lagt minn ráðherrastól að veði, ef Alb. dæmir svo í því máli. (BGuðn: Gerðu það.) Ég er reiðubúinn til að gera það, ef maðurinn vill fylgja sinni skoðun fram, sínu orðafleipri. Það mál hefur ekki blasað við, fyrr en úrskurðurinn var kominn um lögsögu dómstólsins í Haag, að um það mál þýddi ekki að ræða eftir það. Það var orðin saga. Það var ekkert annað en að berja hausnum við steininn að halda áfram að stagast á því, að við viðurkenndum ekki lögsögu dómstólsins. Nei, þá blasti við að taka ákvörðun um það. hvort við ætluðum að verja okkar málstað, þegar kæmi að efnismálflutningi fyrir Haag–dómstólnum. Ég taldi rétt að láta skoðun mína í ljós um það strax þegar þetta nýja viðhorf blasti við. Það er ekkert vit í því að taka afstöðu til mála og segja, að þeirri afstöðu skuli aldrei haggað, hvernig sem viðhorf breytast. Hvaða vit hefði verið í því, ef menn hefðu tekið afstöðu til aðgerða gagnvart eldgosinu í Heimaey á fyrsta degi og sagt: Þessi skoðun skal standa, hún hefur verið tekin og þar verður engu breytt, þó að aðstæður breytist? Vitanlega er ekkert vit í því. Það er að haga sér eins og tréhestur, og ég játa það, að hv. þm. er vel líklegur til þess að haga sér eins og tréhestur í þessu máli.

Nei, við höfum til þess nokkuð marga mánuði að ræða þetta viðhorf, sem þjóðin skiptist nokkuð í tvær fylkingar um, hvort við eigum að senda málflutningsmenn til Haag eða ekki, og að því eru allir Íslendingar frjálsir.

Hv. þm. spurði, hvort ég væri horfinn frá því, að landhelgismálið væri lífshagsmunamál Íslendinga. Nei, svo sannarlega ekki, og þeir menn, sem eru þeirrar skoðunar eins og ég, að við eigum að senda málflutningsmenn til Haag, hafa áreiðanlega ekki horfið frá því, að landhelgismálið sé okkar lífshagsmunamál. En einmitt af því, að það hefur slíka þýðingu fyrir íslenzku þjóðina, er enn þá ríkari ástæða til þess að láta ekki undir höfuð leggjast að flytja öll okkar rök fram í málinu, af því að það er þýðingarmikið mál. Ef það væri hégómamál, gæti ég vel látið vera að telja okkar rök fram með öllum mögulegum tiltækum ráðum. En við megum einskis láta ófreistað til þess að verja mál, sem varðar okkar lífshagsmuni. Það liggur í augum uppi.

Hv. þm. fullyrti, að ég hefði með þessari skoðun minni haldið fram skoðun gegn stefnu ríkisstj. Ég fullyrði, að ríkisstj. Íslands hefur ekki markað afstöðu til þess, frá því að úrskurðurinn kom um lögsögu dómsins, hvort ríkisstj. ætli að senda menn til Haag eða ekki. Þess vegna 1ýsti ég því sem minni eigin skoðun, áður en ríkisstj. hafði tekið ákvörðun, af því að þá voru vitanlega með eðlilegum hætti að hefjast umr. um málið. (BGuðn: Lestu skýrslu utanrrh.). Það er áreiðanlega engu lýst yfir fyrir hönd ríkisstj. í því máli um afstöðuna til Haag. Það hefur komið hér fram í umr.. að við höfum aðstöðu til þess að taka afstöðu um þetta atriði fram til 15. jan. 1974. Það var upplýst hér áðan, að Bretar hefðu frest til 15. ágúst og við til 15. jan. 1974. Þann tíma eigum við auðvitað að nota og vera búnir heldur fyrr en seinna að komast að niðurstöðu um þetta atriði. Því hefur verið lýst yfir, að þetta mál verði rætt í landhelgisnefnd og utanrmn., og er það því nú á umræðustigi. Það er bara einn maður hér, sem hefur fyrirframskoðanir og ætlar ekki að hugleiða neitt þetta mál eða taka þátt í viðræðum um það. (Gripið fram í.) Nei, fyrirframskoðanir eru ekki heppilegar í neinu máli, sízt af öllu þegar um er að ræða lífshagsmunamál þjóðar. Þá ber sannarlega að ræða málin á réttum tíma og komast að sameiginlegri niðurstöðu, ef nokkur möguleiki er til. Og hingað til höfum við borið gæfu til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvert atriði landhelgismálsins með því að ræða þau í þessum „instönsum“: landhelgismálanefnd og utanrmn. Og ég lýsi því yfir, að ég bind mig ekki fastar við mína skoðun í þessu en svo, að ég ætla að lúta meirihlutaákvörðun um þetta hjá réttum aðilum, hvað sem öllu öðru líður, og það sama vænti ég, að aðrir hv. þm. geri. En þeir eiga enga löggildingu á öðru sjónarmiðinu fremur en hinu og ég ekki heldur. (BGuðn: Ætlarðu að lúta niðurstöðu Haag–dómstólsins?) Vill ekki hæstv. forseti reyna að hefta þennan mann í að brjóta þingsköpin? (Forseti: Það hefur ekki verið venja á Alþ. að gera aths. við það, þó að menn taki eitthvað fram í, ef það er gert innan eðlilegra takmarka.) Þau eru kannske löggild, þessi framígrip um að biðja mig að lesa hin og þessi skjöl og hampa þeim hérna og brigzla um, að ég hafi í þessu máli óheillaskoðanir og þar fram eftir götunum. Ég hefði haldið, að þetta væri ekki með venjulegum þinglegum hætti, af því að maðurinn er búinn að fá að nota sitt málfrelsi og hefur sjálfsagt tækifæri til þess enn samkv. þingsköpum.

Ég þarf ekki fleira um þetta að segja að þessu sinni. Ég tel, að þetta atriði sé á umræðustigi og umr. um það hafi verið hafnar, strax þegar þetta nýja viðhorf lá fyrir (BGuðn: Ætlarðu að lúta niðurstöðu dómstólsins í Haag?) Ég hef sagt það, að við eigum að rökstyðja allt okkar mál, segja frá aðdraganda þorskastríðsins fyrr og nú, ógnunum Breta og hótunum. Við eigum að krefjast þess, að dómsúrskurður fari ekki fram fyrr en eftir hafréttarráðstefnuna í Haag. Hitt er kunnugt, að Haag–dómstóllinn hefur ekkert framkvæmdavald. Hann getur kveðið upp sinn úrskurð. Við eigum að hafa gert grein fyrir okkar málstað, og hann kveður svo upp sinn úrskurð. Ef hann gerir það, án þess að við færum okkar rök, mundi margur ásaka okkur fyrir það eftir á og segja: Kannske hefði farið öðruvísi, ef við hefðum rökstutt okkar mál eftir ítrustu getu og föngum. Og ég vil ekki, að við gætum þá ásakað okkur um það. Það er við engan að sakast, ef við höfum gert allt, sem við höfum getað, til að skýra okkar mál og færa fram sannanir fyrir okkar málstað, þó að dómur gangi þá gegn okkur þrátt fyrir það. En hitt vita flestir, að ef dómurinn er kveðinn upp og honum er ekki fullnægt, af hvaða þjóð sem það er. getur Haag–dómstóllinn áfrýjað málinu til Öryggisráðsins. Öryggisráðið hefur síðan heimildir til þess að gera aðgerðir gagnvart því ríki. En hingað til hefur ekki komið til þess, því að þar hefur venjulega farið svo, að einhver þjóð hefur beitt neitunarvaldi og ekki orðið af aðgerðum. En hitt sjá allir, að Íslendingar eru í minni hættu um óhagstæð úrslit fyrir Haag–dómstólnum, ef þeir flytja sitt mál, fremur en ef þeir láta undir höfuð leggjast að gera þar grein fyrir sínum málstað.