16.04.1973
Sameinað þing: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3659 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

Skýrsla um utanríkismál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég vil aðeins ítreka það, þrátt fyrir skýringar forseta og utanrrh., að ég tel, að þessi skýrsla um utanríkismál sé allt of seint fram komin. Það er fátt eða jafnvel ekkert í henni, sem skýrir það, að hún hefði ekki getað verið hér til umr. fyrr. Það liggur í augum uppi, að síðustu daga þingsins berst mikið lesefni á borð þm. og þeir hafa ekki tækifæri eða tíma til að fara í gegnum það lesefni, og er það mjög óhentugur tími til að taka slík mál til umr., að ég tali nú ekki um á fundum. sem setið er á með deildafundum, og enn fremur á þeim dögum, þegar þm. verða að greiða atkv. í margvíslegum málum, jafnvel svo, að þeir eiga fullt í fangi með að fylgjast með. Þetta er einnig gagnrýni almennt á lok þessa þings og ekki eingöngu að því er varðar skýrslu um utanríkismál.

Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans við fsp. mínum og vil aðeins í tilefni af þeim segja það, að ég vildi bera svo mikla virðingu fyrir því starfi, sem hæstv. ráðh. taldi vera undirbúningsstarf að þeirri endurskoðun, sem fram ætti að fara samkv. 7. gr., að ég teldi það undirbúningsstarf jafngilda endurskoðun í sjálfu sér. Og með því að sú endurskoðun hefði staðið svo lengi sem raun ber vitni og utanrrh. hefur sagt, að engin ákvörðun í þessu máli yrði tekin án samráðs við Alþ. og að vel athuguðu máli, taldi ég eðlilegt, að ákvörðun um endurskoðun samkv. 7. gr. væri svo mikilvæg, að samráð skyldi haft við Alþ. um hana. Ég fagna því út af fyrir sig. að hæstv. utanrrh. hefur heitið að hafa samráð við utanrmn., að því er þetta snertir, og vil mælast til þess við hann, að hann taki til athugunar að hafa og samráð við Alþ.

Ég tel, að sama máli gegni að því er snertir málflutning fyrir Haag–dómstólnum, það sé ekki eingöngu nauðsynlegt að hafa samráð við landhelgisnefnd og utanrmn., heldur beri og að hafa samráð við Alþ. í þeim efnum. Ef í báðum þessum tilvikum þarf að taka ákvörðun. áður en Alþ. kemur saman á réttum degi nú í haust eða venjulegum þingsetningardegi, er hér um svo mikilvæg mál að ræða hvað bæði málin snertir, að það er fullkomin ástæða til þess að kveðja Alþ. saman af því tilefni. Ég minni á, að ég efast um, að viðskiptasamn. Íslands við Efnahagsbandalagið hefði verið fullgiltur á tilsettum tíma, nema vegna þess að Alþ. sat að störfum. Það var Alþ.. sem réð þar ferðinni og skar úr um, hvað skyldi gera, þegar um ágreining var að ræða í hæstv. ríkisstj. Ég vil því ítreka mikilvægi þess; að í svo þýðingarmiklum málum sem hér er um að ræða verði atbeina Alþ. leitað, sem er eitt virðingu Alþ. samboðið.