16.04.1973
Sameinað þing: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3660 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

Skýrsla um utanríkismál

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég vek athygli á því, að hæstv. félmrh. hefur enn ekki svarað spurningu Bjarna Guðnasonar um það, hvort hann vilji, að við Íslendingar hlítum úrskurði Haag–dómstólsins. Ég vil einnig segja þetta: Ég hlýt sem einn af stuðningsmönnum núv. hæstv. ríkisstj. að líta það mjög alvarlegum augum, þegar einn af ráðh. ríkisstj. gengur beinlínis fram fyrir skjöldu til að túlka sjónarmið stjórnarandstæðinga í landhelgismálinu. Ég tel það mjög athugandi, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Bjarna Guðnasyni, að spurningin um það, hvort við eigum eða eigum ekki að senda mann til Haag, verði borin undir þjóðina, þannig að hún fái tækifæri til að segja álit sitt, og það verði þannig gert, að rofið verði þing og efnt til kosninga.