07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

57. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Við fjárlagaumr. fyrr í haust gerði ég málefni lánasjóðs ísl. námsmanna að umtalsefni með sama hætti og fyrirspyrjandi hefur gert nú. Hæstv, fjmrh. lagði ekkert til þeirra mála eða gerði aths. við það, sem ég hélt fram, og hæstv. menntmrh. var ekki viðstaddur þá umr. Við þær umr. hélt ég því fram, að fjárlagafrv. bæri það með sér, að nú væri vikið frá þeirri grundvallarstefnu, sem mörkuð hefði verið 1969 um lánamál íslenzkra námsmanna. Hæstv. fjmrh. nefndi við þá umræðu, að nú stæði yfir endurskoðun á l. um lánasjóðinn, en í því sambandi vakti ég athygli á því, að á síðasta þingi hefðu verið samþykkt lög eða breytingar á þessum lögum, varðandi stýrimannaskóla og vélskóla, en í þeim lögum var ákvæði til bráðabirgða, sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Menntmrh. skal beita sér fyrir endurskoðun l. um námslán og námsstyrki, og skal að því stefnt, að henni sé lokið, áður en þing kemur saman haustið 1972.“

Þegar hæstv. fjmrh. tekur fram í umr. hér í haust, að endurskoðun sé fyrirhuguð, þá spurði ég og spyr enn: Hvernig stendur á því, að þessari endurskoðun er ekki lokið, — endurskoðun, sem átti að vera lokið fyrir þetta haust? Hvaða afstöðu hefur hæstv. menntmrh. til þessarar grundvallarbreytingar, sem gerð er á málefnum íslenzkra námsmanna í þessu atriði og hvernig er hagsmuna námsmanna gætt við skipun þeirrar nefndar, sem á að fjalla um breytingar á þessum lögum? Ég óska eindregið eftir því að fá svör við þessum fsp. hjá hæstv. menntmrh., úr því að þessi málefni ber hér á góma.