16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3667 í B-deild Alþingistíðinda. (3279)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Frsm. meiri hl. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. Stjórn iðnlánasjóðs er, eins og hann réttilega sagði, samansett af fulltrúum frá Landssambandi iðnaðarmanna og Félagi ísl. iðnrekenda, og svo formanni tilnefndum af ríkisstj. Og það er líka rétt, sem hann sagði, að þessu frv., ef að lögum verður, sem ég sannarlega vona, er fyrst og fremst ætlað að styðja að útflutningsiðnaðinum og efla rekstrarfé hans, sem er sannarlega ekki óverðugt verkefni, eins og ég hef margoft sagt hér. Ég held, að þeir menn, sem veljast sem fulltrúar þessara samtaka, þekki allra manna bezt í raun og veru til þarfa iðnaðarins á fjármálahliðinni. Þeir hafa unnið við það að deila niður því takmarkaða fjármagni, sem iðnlánasjóður hefur haft., til iðnaðarfyrirtækjanna, fyrst og fremst til stofnlána. Þá held ég, að það hafi ekki skipt máli, hvort þau hafa verið til framleiðslu fyrir innlendan markað eða til útflutnings.

Iðnþróunarsjóður er svo til einhliða stofnlánasjóður fyrir iðnfyrirtæki til útflutnings. Iðnrekstrarsjóður kemur hins vegar, eins og hann sagði, til með að hafa áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja, sem eru að framleiða vörur til útflutnings. En vitaskuld er ekki síður mikils virði að efla þau iðnfyrirtæki, sem eru gjaldeyrissparandi iðnfyrirtæki. Þau þurfa vitaskuld líka að fá hagræðingu og skipulega aðstoð, eins og þau fyrirtæki, sem eru að fást við útflutning. Nú er það svo, að bæði iðnlánasjóður og iðnþróunarsjóður hafa vissa möguleika til þess að notfæra sér, að mig minnir, 10% af sínu umráðafé til ýmissa slíkra hluta, rannsókna og athugana.

Að því er varðar skipun stjórnar í þessum sjóði, fyndist mér a.m.k. ekki óeðlilegt, að útflutningsmiðstöð iðnaðarins væri aðili að henni, en sú stofnun virðist vera ákaflega mikið olnbogabarn hjá hæstv. ríkisstj. Það hefur ekki fengizt nema sáralítið af því fjármagni, sem bæði stofnunin telur sig þurfa, svo að ég tali ekki um það, sem hinir erlendu sérfræðingar telja, að stofnunin þurfi, a.m.k. ekki enn þá. Það er þess vegna fullkomin ástæða til að athuga nánar, hvort Útflutningsmiðstöð iðnaðarins á ekki erindi inn í stjórn þessa sjóðs í framtíðinni með einhverjum hætti.

Alþýðusamband Íslands er þarna til tekið, en mér finnst alveg eins koma til greina, að samtök iðnverkafólks í landinu væru þarna aðili og raunar fremur en Alþýðusamband Íslands.

Ég vil ekki una því, að mér fannst hálfpartinn liggja í orðum hv. 4. þm. Reykv., að hann treysti ekki stjórn iðnlánasjóðs til þess að fara með yfirstjórn iðnrekstrarsjóðs þann stutta tíma, sem hann segir að verði þangað til öll þessi mál verði endurskoðuð, og koma þau þá væntanlega í heild hér inn á hv. Alþ.

Ég er engan veginn að fordæma sem slíka þá uppsetningu, sem hefur verið gerð með stjórn iðnrekstrarsjóðs, eins og hún er í frv., að þeir aðilar, sem að útflutningnum vinna mest, hafi þar aðild, og einkum er það gott, að þar skuli iðnþróunarsjóðurinn vera með. En hitt er ég að fordæma, að það sé ekki hægt að treyst stjórn iðnlánasjóðs fyrir þessu verkefni, þar til þessi endurskipulagning fer fram. Mér hefur stundum fundizt það vera fullerfitt, og ég held, að það hljóti að vera í þessu tilviki, að fara að setja sjóðinn af stað nú með nýrri stjórn og pomp og pragt, en síðan á þetta allt að leggjast niður eftir 5–6 mánuði og allt að breytast. Það er út frá þessu sjónarmiði, sem ég legg til og finnst raunar, eins og hv. síðasta ræðumanni, Bjarna Guðnasyni, þó að ég sé ekki stuðningsmaður ríkisstj., að það megi ómögulega þverbrjóta Ólafskver í þessu efni eins gersamlega og hún gerir.

Ég vil þess vegna vona, að þetta mál komist út fyrir pólitísku sjónarmiðin, því að þetta er stórmál fyrir iðnaðinn, um það erum við allir í n. sammála og allir hv. þm. vænti ég. Það er stórmál að fá þennan sjóð, alveg sér í lagi þegar séð verður að hann hefur dálitil fjárráð, og því vildi ég vona, að það væri ekki talið óhyggilegt að fara nú að okkar ráðum í meiri hl. og brúa þetta bil yfir sumarið. Ég átta mig ekki almennilega á því, hvers vegna það má ekki, get ekki komið auga á það. Ef verið er að hugsa um að koma fljótt á stað hagræðingu hjá fyrirtækjunum, þá er það hægt. Að markaðsmálum er verið að vinna, og þetta ár er nokkurn veginn afgreitt í því efni. Það hefur verið unnið talsvert að hagræðingarmálum fyrir atbeina iðnþróunarsjóðs, og mér finnst það allt að því hlálegt að vera að setja allt í einu upp sérstaka sjóðsstjórn með öllu tilheyrandi, að því er upplýst er fyrir nokkra mánuði, og síðan eigi að taka allt málið til endurskoðunar. Ég skil ekki tilganginn í því að gera þetta svona, nema þá eitthvað annað liggi á bak við, sem ég a.m.k. veit ekki hvað er.