16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3669 í B-deild Alþingistíðinda. (3280)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Jón Snorri Þorleifsson:

Herra forseti. Það er vissulega slæmt, þegar þm. þurfa, hver á eftir öðrum, að koma hér í pontu á hv. Alþ. og lýsa því yfir, að þeir skilji ekki meiningu hver annars. Ég ætla ekki að lýsa slíku yfir, vegna þess að ég þykist algerlega skilja það, sem hér fer fram, og skil ég þó allra bezt málflutning hv. þm. Bjarna Guðnasonar, 3. landsk. þm. Að vísu hefði ég ekki skilið málflutning hans fyrir hálfum mánuði, en eftir að vera búinn að sitja hér á Alþ. nokkuð lengi, ég er búinn að sitja hér í eina 5–6 daga, er mér orðið algerlega ljóst, að málflutningur hans er einn hringur, ein hringavitleysa, væri kannske réttara að segja. Mér þykir leitt, að hv. þm. er ekki hér nærstaddur. (Gripið fram í: Ég er hérna til hægri.) Það var ágætt, þá kemst þetta allt til réttra skila. Auðvitað stendur þm. til hægri, eins og hann réttilega gat um áðan. Það var engin tilviljun, að hann steig þá í hægri fótinn. Hann er búinn að gera það oft þessa daga, sem ég hef verið hér á þingi. Ég verð að fara að fletta upp þskj. á borðinu hjá mér til þess að sjá, hvar hv. þm. hefur skrifað undir með stjórnarandstöðunni, en það á hann auðvitað að vita miklu betur en ég og þarf ekki að spyrja um dæmi.

Það er örstutt síðan ég heyrði þennan hv. þm. flytja ræðu úr þessum ræðustól og vera uppfullan af andakt yfir því, að það yrði að gæta hagsmuna aðila vinnumarkaðarins, það ætti að fjölga aðilum, sem hefðu með ákveðin mál að gera, þ.e. atvinnuleysistryggingasjóðinn.

Nú ætla ég ekki að tala hér ópólitískt, eins og síðasti hv. ræðumaður sagðist líta á þetta mál, þetta er nefnilega ekki ópólitískt mál, heldur pólitískt, og þess vegna get ég ekki talað um það ópólitískt. Hv. þm. Bjarni Guðnason sagðist líta svo á, að öll lánamál iðnaðarins ættu að vera undir einum hatti. Látum svo vera. Segjum, að það væri farsælasta lausnin á öllum lánamálum, allri hagræðingu og öðru í sambandi við iðnaðinn, að allt væri undir einum hatti. Ég skal ekkert um það deila við hann. En út frá þessari forsendi velur hann sinn hatt, sem lánamál iðnaðarins eiga að heyra undir. Eru það t. d. aðilar vinnumarkaðarins, sem hann talaði hér um fyrir nokkrum dögum af mikilli hjartans einlægni, að þyrftu að ráða málunum eða fjalla um þau? Hatturinn, sem þessi hv. þm. velur, er tvenn samtök atvinnurekenda. Hann stendur að till. um að koma í veg fyrir, að Alþýðusamband Íslands komi nálægt lánamálum iðnaðarins. Hann ætlar sér með þessu að reyna að koma í veg fyrir það hér á hæstv. Alþ., að 2000 manna samtök byggingariðnaðarmanna, launþega, eigi fulltrúa, hann ætlar með þessu að reyna að koma í veg fyrir, að 1800 manna samtök launþega í málmiðnaði eigi fulltrúa, hann ætlar sér að reyna að koma í veg fyrir, að milli 1600 og 1800 manna samtök iðnverkafólks eigi fulltrúa í þessari stjórn.

En hvert er grundvallaratriðið í samskiptum atvinnurekenda og launþega um hagræðingarmál, sem einmitt þessi sjóður á að styrkja og fjalla um? Það er, að báðir aðilar séu þar jafnréttháir. Ég ætlazt að vísu ekki til þess, að þessi hv. þm. hafi hundsvit á verkalýðsmálum eða samskiptum atvinnurekenda og launþega, frekar en ég hef hundsvit á norrænni málfræði. En hann á þá ekki að tala einn daginn eins og hann viti allt og koma svo hinn daginn í pontuna og tala eins og alger fáráðlingur um þessi mál og leggja sitt litla lóð þar á vogarskálina, sem hann getur bezt spillt fyrir því, að verkalýðssamtökin komi nokkurs staðar nálægt lánamálum iðnaðarins. Það verð ég að segja, að þó að nafn hv. síðasta ræðumanns, sem hér talaði á undan mér, sé á sömu till. og nafn hv. þm. Bjarna Guðnasonar, vottaði þó fyrir skilningi á því í ræðu hans, að launþegasamtökin ættu aðila að þessu máli. Spurning hans var einungis, hvort það væri tímabært núna eða ætti að bíða til haustsins eftir endurskoðuninni. Það vottaði ekki fyrir neinum slíkum skilningi í ræðu hv. þm. Bjarna Guðnasonar (Gripið fram í.) Ég hef aldrei orðið var við það. Ég hafði ekki áður séð neina ástæðu til þess að koma hér í ræðustól og fjalla um þetta mál, en um leið og ég heyrði, að hv. þm. Bjarni Guðnason mundi tala í þessu máli, vissi ég, að það væri nauðsynlegt fyrir mig að koma hér upp, með tilliti til fyrri ræðuhalda hans hér á Alþ. um önnur mál. Vissulega var líka ástæða til þess að svara málflutningi hans hér eftir að ég hafði hlustað á hann.

Ég skal fyllilega taka undir það með þeim, sem hér hafa talað, að það er mikil þörf á því að endurskoða öll lánamál iðnaðarins og skipuleggja þau upp á nýtt, og því hefur verið lýst yfir af núv. ríkisstj., að það muni hún gera. En þegar um það er að ræða að velja á milli þess að fela atvinnurekendasamtökunum, Landssambandi iðnaðarmanna og Félagi ísl. iðnrekenda, ásamt þriðja aðila, sem er stjórnskipaður, að fara með stjórn þessa sjóðs og hins vegar að velja stjórn fyrir sjóðinn, þar sem í bætist fulltrúar frá Sambandi ísl. samvinnufélaga og verkalýðssamtökunum, þarf ég ekki lengi að hugsa mig um, hvora leiðina ég vel, þó að um stuttan tíma sé að ræða. Þetta er fyrsti vísir þess í langan tíma; að hæstv. Alþ. sýni það í einhverju, að verkalýðssamtökin eigi einnig að koma nálægt iðnaðarmálunum, og þótt í litlu sé, er það þó vísir. Það er kominn tími til þess, að hv. alþm. geri sér grein fyrir því, að hið ágæta samband, Landssamband iðnaðarmanna, er ekki í dag þau samtök iðnaðarmanna, sem það var áður. Það er í dag samtök örfárra meistara, einstaklinga og samtaka, en utan við það eru öll samtök launþega, iðnsveina í byggingariðnaði, rafiðnaði og málmiðnaði, sem eru langtum fjölmennari en Landssamband iðnaðarmanna, með fullri virðingu þó fyrir því og þeim mönnum, sem því stjórna. Milli okkar er ágætt samstarf, en þar fyrir treystum við þeim samtökum ekki til þess að fara með okkar mál, sem okkar málsvara. Þess vegna heimtum við, að við eigum einnig málsvara, þegar kemur að því að fjalla um mál iðnaðarins, og þess vegna styð ég álit minni hl. nefndarinnar.