16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3671 í B-deild Alþingistíðinda. (3281)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er ekki deilt um það, að nauðsyn sé á því, að þessi sjóður verði stofnaður. Um það voru allir nm. sammála. Það var ekki heldur deilt um hlutverk sjóðsins né, að nauðsynlegt væri að vinna að því að sameina þá sjóði, sem eiga að styðja iðnaðinn, og verkefni þeirra. Það var ekki deilt um það. Hins vegar var um það deilt, hvort þessi sjóður ætti nú, þegar hann hefur verið stofnaður, að hafa sérstaka stjórn og bíða þá með að skipa þessum málum í það horf, sem væntanlega er ekki langt að bíða, að á komist, eða hvort ætti að fela einhverjum tilteknum sjóði, sem nú væri fyrir hendi, störf og hlutverk þessa sjóðs.

Hv. frsm. meiri hl. iðnn., Pétur Pétursson, sagði, að hér ætti nú allt í einu að setja upp nýja stjórn, og í nál. þeirra félaga, bæði frá hægri og vinstri, er sagt, að koma eigi á fót sérstakri stjórn með tilheyrandi skrifstofuliði o. s. frv. Ég held, að þetta sé sagt gegn betri vitund. Þeir vita jafnvel og við, að í frv. stendur, eins og það er nú, að ráðh. sé heimilt að fela banka eða annarri fjármálastofnun daglega afgreiðslu sjóðsins. Þeir vita ákaflega vel, að þetta verður gert. Það verður ekki farið að setja á stofn nýja skrifstofu með sérstöku starfsliði fyrir þennan sjóð, a.m.k. ekki þar til séð verður, hvernig reiðir af þeirri endurskoðun á sjóðamálum iðnaðarins, sem þegar er hafin og ég veit að verður unnið að á þann hátt, að þau mál koma ekki síðar en fyrir næsta Alþ. Þannig verður áreiðanlega staðið að málum, og þarf enginn að fara í neinar grafgötur um það.

Hv. 3. landsk. þm., Bjarni Guðnason, sagði, að það ætti allt að vera undir einum hatti, stofnlánasjóðir og rekstrarsjóðir. Fram að þessu, held ég, að það hafi verið skoðun allra alþm., að hér ætti að greina í milli. Það er út af fyrir sig rétt, að það væri máske mikil hagræðing í því, að menn þyrftu ekki að ganga á milli margra stofnana, en ég er ekki alveg sannfærður um, að sjóðir, sem hljóta að gegna jafnólíku hlutverki og rekstrarsjóður annars vegar og stofnlánasjóður hins vegar, eiga að vera undir einni og sömu stjórn. Með því að fá iðnlánasjóði með óbreyttri stjórn þetta verkefni, sem iðnrekstrarsjóði er ætlað, er hlutverk iðnlánasjóðs orðið allt annað en það er samkvæmt lögum um iðnlánasjóð.

Þá erum við komnir að því, sem í raun og veru hefur verið deilt um. Þeir, sem standa að meirihlutaálitinu, vissu vel, að það gat ekki tekizt samkomulag um að fela iðnlánasjóði þetta verkefni, eins og stjórn hans er skipuð nú. Við teljum, að með tilliti til þess hlutverks, sem iðnrekstrarsjóði er fengið, eigi einnig aðrir aðilar en nú skipa stjórn iðnlánasjóðs að koma til. Um þetta hefur verið deilt. Það stóð svo á, þegar við vorum að fást við þetta mál í iðnn., að iðnrh. var fjarverandi og ekki hægt að hafa nein samráð við hann um þessi mál. það er að vísu mjög bagalegt. En við vitum, af hvaða sökum hann varð héðan að hverfa núna, og er ekki um það að fást. Ég hygg, að ef hann hefði verið hér viðstaddur og hægt að hafa samráð við hann, hefði verið hægt að finna þessum málum þann farveg, sem allir hefðu getað sætt sig við. Ég veit, að honum er það mikið áhugamál að koma þessum málum fram, og eins og frsm. minni hl., hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, tók fram, er ég sannfærður um, að sú endurskoðun, sem um er rætt í ákvæði til bráðabirgða á þskj. 611, verður framkvæmd ekki síðar en á næsta þingi. Þetta gat ég að vísu ekki sagt á nefndarfundi, þegar málið var afgreitt. Mér tókst ekki að ná til manna, sem gætu sagt neitt ábyrgt um þessi mál, fyrr en um hádegi á laugardag, en við afgreiddum málið á laugardagsmorgun. Þrátt fyrir það að þetta lægi fyrir, áður en nál. voru prentuð, fékkst ekki samkomulag um, að nm. tækju þetta gilt, og hygg ég þó, að a.m.k. sumir, sem skrifa undir meirihlutaálitið, hefðu gjarnan kosið, að svo hefði verið.

Ég ætla ekki að fara frekar út í það, sem menn hafa sagt úr þessum ræðustól núna, en kjarni málsins í þessu efni er, að við gátum ekki orðið samstiga um að fela stjórn iðnlánasjóðs, sem ætlað er að fara með töluvert óskyld mál, stjórn þessa sjóðs. Þau verkefni, sem þessi sjóður á að hafa með höndum, eru slík, að við teljum, að þar þurfi að koma til fulltrúar annarra aðila en nú skipa stjórn iðnlánasjóðs.