16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3672 í B-deild Alþingistíðinda. (3282)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, gat iðnn. ekki orðið sammála um eitt atriði í þessu frv., sem hér er til umr. Það hafa nú orðið alllangar umr. um þetta ákveðna atriði, sem hv. iðnn. gat ekki orðið sammála um, og þær umr. hafa verið dálítið undarlegar, að mér finnst. Það kom hér fram, bæði í máli hv. frsm. minni hl. n., 4. þm. Reykv., Þórarins Þórarinssonar, og eins í máli hv. síðasta ræðumanns, 8. þm. Reykv., að þessir sjóðir, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. iðnlánasjóður og iðnrekstrarsjóður, sem þetta frv. fjallar um, gegni í raun og veru svo ólíku hlutverki, að það sé útilokað að hafa þá undir einni stjórn. Mér skilst, að það eigi þá við um þá til eilífðarnóns. (Gripið fram í: Þetta hef ég ekki sagt.) Hv. þm. sagði orðrétt, að þessir sjóðir gegndu svo ólíku hlutverki, að þeir gætu ekki að hans skoðun verið undir einni og sömu stjórn. Þetta skrifaði ég hér.(Gripið fram í.) Forsendurnar voru þær, að það væru svo ólík hlutverk, sem þeir gegndu.

Öll ræða hv. 4. þm. Reykv. gekk út á það, að þarna væri um að ræða mjög ólík verkefni. Hann sagði, að verkefni iðnlánasjóðs væri miklu þrengra og verkefni iðnrekstrarsjóðs næði fyrst og fremst til útflutningsiðnaðarins. Ég held, að þetta hljóti áfram að vera skoðun þessara hv. manna í haust, þannig að ég fæ ekki séð, að þetta ákvæði til bráðabirgða sé sett; ef hugur fylgir máli hjá þeim, til neins annars en að sýnast, a.m.k. verði þessir tveir sjóðir aldrei sameinaðir undir eina stjórn.

Það kom líka fram í máli hv. 3. þm. Reykv., að hann taldi þetta fyrst og fremst pólitískt mál, og mig er farið að gruna, að það sé svo fyrst og fremst, þarna sé um að ræða mál, sem sé af pólitískum toga, en ekki af því, að menn gætu út af fyrir sig ekki orðið sammála um, að það væri betra að hafa eina stofnun í staðinn fyrir tvær á þessu sviði.

Ég ætla ekki að fara að lengja þessar umr., nema sérstakt tilefni gefist til, en ég vildi aðeins vekja athygli hv. þm. á þessu, að hér er um ósamrýmanlega röksemdafærslu að ræða, annars vegar að segja, að þessir sjóðir gegni svo gagnólíku hlutverki, að þeir geti ekki verið undir sömu stjórn núna, og segja svo, að það sé ásetningur þeirra að koma með frv. í haust um að sameina þá.

Ég vil svo aðeins að lokum láta í ljós þá frómu ósk, að þetta lítilvæga atriði, að mér finnst, verði ekki til þess að tefja framgang þessa frv. Ég mæli það ef heilum hug, að ég styð þetta frv. að öðru leyti.