16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3673 í B-deild Alþingistíðinda. (3283)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð, af því að hv. 3. þm. Reykv., Jón Snorri Þorleifsson, talaði svo elskulega til mín, að ég hlýt að þakka honum fyrir. Hann virðist hafa tekið minn málflutning dálítið skakkt upp. Hann telur, að ég sé vísvitandi að bregða fæti fyrir það, að fulltrúar Alþýðusambandsins, Sambands ísl. samvinnufélaga og fleiri aðila fái aðild að stjórn sjóðsins. Þetta er reginmisskilningur. Þetta er ekki kjarni málsins. Fyrirgefið, hvar er þessi hv. þm.? Hann er þarna, já. Hann er hægra megin.

Mergurinn málsins er þessi: Það er opinber stefna ríkisstj. að fækka fjárfestingarsjóðum, og þess vegna hlýtur að vera dálítið óeðlilegt að stofna nýja. Það er á þessum grundvelli, sem ég hef lagzt gegn því, að stofnaður verði sjóður, — á engum öðrum grundvelli. Hitt kemur svo berlega fram hjá hv. þm. Jóni Snorra Þorleifssyni, að þetta sé pólitískt atriði, það þurfi rétta aðila í úthlutunarnefnd. Það er náttúrlega annað mál. En þá stafar það bara af því, að þetta mál er illa í hendur búið. Það var ósköp auðvelt að samrýma þetta með því að fella þessa fjárveitingu til rekstrar iðnaðarins inn í stofnlánasjóðinn og breyta stjórn lánasjóðs iðnaðarins. Þetta var ósköp auðvelt mál. Þá kom þetta saman og heim. Það er ekki við mig og aðra þm. að sakast, þó að við séum ófúsir að bæta einni silkihúfunni ofan á aðra. Það er bara við ráðh. og þá aðila, sem standa að frv., að sakast.

Ég er alveg sammála hv. þm. um, að ég tel fullkomlega eðlilegt, að ýmsir þeir aðilar, sem gert er ráð fyrir að sitji í stjórn þessa nýja sjóðs, eigi sæti í stjórninni. Ég tel það fullkomlega eðlilegt. En þá er það bara hlutur ráðh. og þeirra aðila, sem að málinu standa, að gera till. um þetta á eðlilegan hátt. Þetta er allt og sumt. Það er alveg ástæðulaust að fara að gera mér upp þær skoðanir, að ég sé andvígur því, að ýmis meiri háttar fyrirtæki eða aðilar, iðnfyrirtæki og aðrir, fái aðild að stjórn sjóðsins. Það er hreinn misskilningur. Hins vegar má vel vera, að Jón Snorri Þorleifsson og aðrir reki upp stór augu, ef maður gleypir ekki hverja flugu, sem kemur frá ráðh. Þetta er allt og sumt. Ég tel, að það stangist beinlínis á við málefnasamning ríkisstj. Málið er illa í hendur búið, því að ég tel, að ráðh. hefði átt að leggja til breytingu á stjórn iðnlánasjóðsins. Þá kom það saman og heim.

Varðandi það, sem hv. þm. sagði, að ég hefði snúizt í hring hér í þingsölunum, þá getur hann auðvitað haft þá skoðun og er ekkert við því að segja. Hins vegar þykist ég vita, að það hafi kannske komið dálitið illa við hann í eldhúsdagsumr., þegar ég lýsti yfir því, að verkalýðsforustan væri orðin eitt mesta íhaldskerfi í landinu. (JSÞ: Ég hlustaði ekki á ræðuna þína þar.) Nú, á hvað hlýddi hv. þm. síðustu daga? Telur hann kannske, að ræðurnar um utanríkismál hafi merkt, að ég væri kominn hægra megin í fylkinguna? (Gripið fram í: Það var innanflokksmál.) Ég ætla ekki að karpa við hv. þm. Hins vegar er dálítið ánægjulegt að heyra menn, sem telja sig sjálfkjörna fulltrúa hinna róttæku í verkalýðshreyfingunni, vinna þannig, að þeir gera samtök á víxl við mestu íhaldsmenn í verkalýðshreyfingunni. Hætt er að kjósa í verkalýðsfélögunum, hætt er að kjósa til stjórnar Alþýðusambandsins, allt sameign í bak og fyrir. Ég líkti stjórn Alþýðusambands Íslands við bankakerfið og stofnlánasjóðina. Það er það sama, þar má engu breyta. Í raun og veru er eitt mesta íhaldið og tryggingakerfið í stjórn Alþýðusambands Íslands, enda vita þeir menn, sem þar eru, að þeir eru í engum tengslum víð óbreytta verkamenn. Að öðru leyti vil ég segja það, að hv. þm. ætti að fylgjast betur með ræðum í þinginu, áður en hann heldur, að ég sé kominn til hægri við Alþb., því að það er nú svo lint í öllum málum, að það veit aldrei, hvar það stendur.